15.03.1974
Efri deild: 81. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2938 í B-deild Alþingistíðinda. (2602)

259. mál, skattkerfisbreyting

Fjmrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti Ég hafði ekki ætlað mér að taka til máls í þessum umr., enda ekki gert ráð fyrir því, að þær stæðu eins lengi og raun hefur á orðið. Ég hefði líka látið hjá líða að taka þátt í umr., þó að um málið væri deilt. En vegna þess að ég veit, að hv. 1. landsk. þm. vill hafa það, sem réttara og sannara reynist, þá vildi ég koma að skýringu í sambandi við það, sem hann sagði um samstarf ASÍ og ríkisstj. um þetta mál.

Að hans dómi var þar um eins dags vinnu að ræða í sambandi við frv. sjálft, en frv. sjálft var að sjálfsögðu ekki nema útfærsla á því samkomulagi, sem búið var að standa alllengi. Eins og ég hef skýrt frá, bæði við framsögu hér í þessari hv. d. og í hv. Nd., var búið að vinna alllengi að þessu máli á milli ríkisstj. og fulltrúa ASÍ annars vegar. Þrír ráðh. sátu fundi með forseta ASÍ og formanni samninganefndar og þeim nm. frá samtökunum, sem sérstaklega höfðu verið kjörnir til þess að fjalla um skattamál, og fleiri forustumönnum í þeim samtökum. Eftir að nokkrir fundir höfðu farið fram, sem byrjuðu á fyrra ári, — ég man ekki nákvæmlega dagsetningu, hef hana ekki hér hjá mér, — þegar var komið fram í jan. seint eða byrjun febrúar, þá var ákveðið, að vinnubrögðum skyldi hagað þannig, að við ríkisstjórnarmenn legðum þeim til sérfræðinga frá okkar hendi til þess að vinna að þessum málum og þeir legðu til sína skattamálamenn ásamt þeim sérfræðingum, sem þeir kvöddu sér til liðsinnis. Þessir menn unnu svo að málum áfram. Það var ekki neinn einu dagur, sem þeir voru að vinna að því, heldur alllangur tími. Það var fyrir samstarf þessara manna, sem ég greindi frá í framsöguræðu minni við 1. umr. hér í hv. d., að hefðu verið frá ASÍ: Björn Þórhallsson formaður Verslunarmannasambandsins, Guðmundur J. Guðmundsson, varaformaður Dagsbrúnar, og Þórólfur Daníelsson, formaður Prentarafélagsins, og þeirra aðstoðarmenn, — það voru þessir menn, sem unnu að því að semja sameiginlega þá yfirlýsingu, sem ríkisstj. síðar gerði að sinni í sambandi við þetta mál. Það var því búið að vinna langt starf og mikið að þessu máli og það var búið að skoða mikið af gögnum, yfirfara þau, bera saman og meta á marga vegu og svara mörgum spurningum frá þeirra hendi um þessi mál, áður en til niðurstöðu dró. Það var hins vegar við samningu frv., sem var samið upp úr drögum yfirlýsingarinnar, að þeir fengu frv.-drögin heim til sín og unnu síðan að því að yfirfara þau með sérfræðingum, og var það lokasennan í undirbúningi þessa frv. En aðalmálið var búið að vinna áður á þann veg, sem ég hef nú greint frá. — Þetta vildi ég upplýsa hv. 1. landsk. þm. um, vegna þess að ég veit, að hann vill hafa það, sem réttara reynist, eins og ég sagði áðan. Ég vildi þess vegna, að þetta kæmi fram, áður en þessum umr. lyki.

Það er okkur öllum ljóst, að vilji okkar til þess að koma þessu máli heilu í höfn hefur verið til staðar. Út í útreikninga ætla ég ekki að fara, því að það er búið að gera það svo oft og mörgum sinnum, að við komumst víst ekki nær því, hver reiknar réttast, hvort það er gert í grg. þessa frv. eða af öðrum, sem hafa reiknað þessi mál frá sínum bæjardyrum séð. Ég treysti fullkomlega hagrannsóknastjóra og hans stofnun til þess að vinna það mál vel og samviskusamlega, en á hans vinnu og hans útskýringum er þetta mál allt byggt, þannig að útreikningar eru frá hans hendi komnir, enda hefur hann mesta möguleika til. þess.

Nú hef ég ekki hugsað mér að fara að teyg,ja hér lopann í umr., en inn á ýmislegt hefur verið farið, m.a. gerð fjárl. og boð um menn af hendi stjórnarandstöðu til þess að endurskoða fjárlagagerðina. Nú er það sem betur fer svo, að stjórnarandstaðan á sína fulltrúa í fjvn., sem vinnur að fjárlagagerðinni á hverju hausti. Ég efast ekkert um það, að þeir menn vinna vel ~og samviskusamlega, og ég dreg í efa, að þeir flokkar, sem hafa kosið þessa fulltrúa, veldu aðra menn betri til þess að leysa þau verkefni af hendi, sem þar eru unnin, heldur en þá, sem það gera. Hitt er svo með þessa menn sem og okkur hina, sem undirbúum fjárl., að við verðum að fara að lögum og lagafyrirmælum, sem Alþ. hefur sett. Það er ekki hægt fyrir okkur að semja fjárlög nema taka tillit til lagafyrirmæla þar um. Þess vegna er það mitt mat, að ef á að breyta því, svo að nokkru marki nemur, þá verði að breyta l., sem eru undirstaða fjárl. Ég gerði ofurlitla grein fyrir þessu við umr. um þetta mál í hv. Nd., og ég flokkaði þetta niður á þennan hátt:

Í fyrsta flokki voru útgjöld samkv. l., þar sem beinlínis er ákveðið í l., hvað fjárhæðin skyldi vera há. Í þessum flokki eru 610 millj. kr.

Í öðrum flokki eru svo útgjöld, sem eru framlög, sem eru ákveðin í l., ekki föst fjárhæð, heldur ákveðið, hvað mikil fjárhæðin skuli vera miðað við þann kostnað, sem l. ætlast til, að fjárl. annist í sambandi við ríkisbúskapinn. Hér er um að ræða 10 milljarða og 200 millj. kr. Þetta er stærsti flokkurinn. Í þessum flokki er t.d. löggjöf eins og tryggingalöggjöfin, sem hv. Alþ. er búið að afgreiða nú fyrir stuttu og hefur ákveðið, hvernig greiða skuli til. Hér er ég bara með þá tölu, sem eru bein lagafyrirmæli um. Ég er t.d. ekki með það, sem fjölskyldubætur eru umfram það, sem lög segja til um, en það eru 8 þús. með hverju barni í lögum. Fram hjá því að greiða þessa fjárhæð verður ekki komist, hvort sem fjmrh. heitir Magnús, Halldór eða Thoroddsen eða eitthvað annað. Og það verður alveg sama, hvort formaður fjvn. verður hv. þm. Geir Gunnarsson eða hv. þm. Jón Árnason, þessum tölum verður ekki breytt nema eftir því, sem útgjaldaupphæð þeirra krefst á hverjum tíma. Nú t.d. við kjarasamninga, sem gerðir voru fyrir stuttu, hækka þessi útgjöld um einn milljarð. Hér þýðir ekkert að vera að mögla á móti, því að lögin segja svo til um.

Í þriðja lagi hef ég svo tekið markaða tekjustofna. Það eru tekjustofnar, sem er ákveðið að afla sér tekna til til þess að vinna ákveðin verk. Stærsti liðurinn í þessu er til vegamálanna, en hér er um að ræða um 3300 millj. kr.

Þá koma launaútgjöldin, sem eru samningsbundin við starfsfólk ríkisins. Þá munu kannske einhverjir segja að þarna mætti eitthvað spara með því að fækka fólki. Ég gerði grein fyrir því um daginn hér í hv. Alþ., hvað fólki hefði fjölgað í þjónustu ríkisins, síðan núv. ríkisstj. kom til valda, og var sú tala rúmir 40 á þessum árum. Það eina, sem að þessu var hjá mér, var það, að ég hafði í raun og veru oftalið, vegna þess að ég hafði tekið upp úr fjárl. þær heimildir, sem þar var gert ráð fyrir, en í sumt af þeim störfum hefur ekki verið ráðið. Þetta eru 6.3 milljarðar kr., sem þannig er varið. Og þá eru aðrar samningsbundnar greiðslur, sem eru tæpar 600 millj. kr.

Þegar þetta er lagt saman, sem allt saman er óbreytanlegt af hendi þeirra, sem stjórna ríkisfjármálunum, þá eru komnir um 21 milljarðar af ríkisútgjöldunum eða um 72%. Raunverulega er svo hægt að bæta við, að undir þetta heyri einnig önnur rekstrargjöld ríkisstofnana og rn., sem ekki verður hægt að komast hjá, og viðhald þeirra, sem er um 1.6 milljarðar kr. Þá er eftir gjaldfærður stofnkostnaður, sem er rúmir 4 milljarðar kr. Mætti kannske segja, að hjá einhverju af þessu mætti komast og það væri einstaka verk, sem væri hægt að láta dragast að koma til framkvæmda. Hinu held ég, að hv. alþm. verði að gera sér grein fyrir, að þegar þeir afgreiða löggjöf eins og heilbrigðislöggjöfina og hafnalöggjöfina, þar sem þeir hækka framlag ríkisins til þessara málaflokka, þá ætlast þeir til þess, að ríkissjóður leggi meira fé til þeirra en að öðrum kosti væri. Þess vegna er það nú svo, að ef á að ganga í verulegan niðurskurð fjárl., þarf lagabreytingar til.

Þannig er ég nú næstum því búinn að þylja upp fyrir ykkur fjárl., er kominn upp í 96–97%. Þess vegna er raunin sú, að meðferð fjárl. hverju sinni er ákveðin af löggjöf frá Alþ., og það er útfærslan á þeirri löggjöf, sem fjárveitingavaldið fer með og fjvn. vinnur að. Aðrir aðilar, hagsýsla og fjmrn., vinna að undirbúningi þessara mála, eins og hægt er. Og venjulega er það svo, að þegar fjárlagafrv. kemur frá fjmrn., er búið að skera niður mikið af óskum annarra rn., sem bárust því.

Ég er ekkert að draga úr því, að fjárlög hafa hækkað á milli ára, og það er ekki réttur samanburður að bera fjárlög saman nú eða áður vegna þeirra nýju verkefna, sem inn á fjárlög hafa verið tekju, eins og t.d. öll útgjöld trygginga, meiri hl. útgjalda sjúkrasamlaga en áður hefur verið og allur lögreglukostnaður. En fjárl. hækkuðu á árinu sem leið í heild um 33% og af því var rekstrarkostnaðurinn um 30%. Ég greindi einnig frá því, að í fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar milli áranna 1973 og 1974 hafi útgjaldaaukningin orðið þannig, að í heild hækki útgjöld Reykjavíkurborgar um 49.5% og rekstrarútgjöldin um 52.2%, svo að það eru fleiri en ríkissjóður, sem þurfa að líta í sinn barm, þegar talað er um ofþenslu í ríkiskerfinu, því að þessir aðilar eiga einnig sinn þátt í því. Við vitum hins vegar, sem þekkjum vel til þessara mála, nauðsyn þess að leysa þessi verkefni og áhuga manna fyrir þeim.

Þetta mun ég láta nægja til þess að skýra þá bætti, sem hér hafa komið fram.