15.03.1974
Neðri deild: 84. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2946 í B-deild Alþingistíðinda. (2608)

85. mál, vísindaleg verndun fiskimiða landgrunnsins

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Ræða sú, sem frsm. sjútvn, hélt rétt í þessu, gefur mér tilefni til að kveðja mér hljóðs og láta í ljós þakklæti til n. fyrir það, að hún hefur tekið tillit til þess, sem bent var á við 1. umr, málsins. Hún hefur leitað ráða hjá bestu sérfræðingum okkar og komist að niðurstöðu. Þar sem leitað hefur verið til þeirra manna, sem við eigum besta á þessu sviði, mun ég sætta mig við niðurskurð og áhyggjulaust greiða atkvæði um þetta mál eins og n. leggur til. Ég vil taka það enn einu sinni fram, að þetta mál er þess eðlis, að um það verðum við að standa saman.

Ég vil rifja það upp, að við 1. umr. var rætt um vandamál, sem skapast af miðlínu milli tveggja landa, og í öðru lagi um vandamál, sem skapast af eyjum og skerjum. Þessi vandamál eru auðvitað óleyst, þó að þessi lagabreyting okkar sigli fram hjá þeim erfiðleikum. Til þess að nefna eitt dæmi um þetta mál vil ég vekja athygli á því, að Morgunblaðið hefur nú undanfarið birt flokk af greinum um hafréttarmálefni. Þetta eru mjög athyglisverðar greinar teknar saman af íslenskum sérfræðingi, sem byggir fyrst og fremst á amerísku riti. Með fyrstu greininni fylgdi kort, sem sýndi, hve mikinn hluta af heimshöfunum einstök ríki mundu leggja undir sig, ef 200 mílna svæði tækju gildi alls staðar. Eftir því sem ég gat best séð, yfirsást sérfræðingnum að benda Íslendingum á, að þetta er amerískt kort og Ameríkumenn eru á móti 200 mílunum. Þetta kort er búið þannig út, að hvert einasta sker og hver einasta smáeyja fær sinn 200 mílna hring. Það leiðir til þess að 200 mílna svæðið verður óhóflega stórt. E.t.v. gleður þetta hjörtu okkar hér uppi á Íslandi, en þetta kort er gert til þess að hræða vanþróuðu ríkin, sem vilja hafa alþjóðasvæðið sem stærst.

Ég nefni þetta sem dæmi um það, hvaða þýðingu vandamálið um eyjar hefur og hvaða hlutverki það gegnir í baráttunni fyrir 200 mílunum, að jafnvel harðir menn, sem eiga að þekkja þetta mál, eins og Íslendingar, við gleypum amerískan áróður, sem er til þess gerður að vinna fylgi fyrir einhverju minna en 200 mílum, prentum það í stærsta blaði okkar, svo að segja án þess að nokkur veiti því athygli, hvað er að gerast.

Sendinefnd Íslands á fundum Hafsbotnsnefndarinnar fékk þetta kort í hendur s.l. sumar. Mér er það minnisstætt, hvað einn af sérfræðingum okkar brást illa við, þegar hann sá, til hvers leikurinn var gerður. Við skulum ekki láta blekkja okkur í þessum efnum, og við skulum minnast þess, að vandamálin um eyjar og miðlinur varðandi 200 mílna svæðið eru mjög erfið og þau hafa enn ekki verið leyst.

Ég get endað á því, sem ég byrjaði á, að ég þakka sjútvn, fyrir meðferð hennar á þessu frv. og mun styðja það, eins og hún leggur til.