01.11.1973
Sameinað þing: 11. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 335 í B-deild Alþingistíðinda. (262)

25. mál, bygging skips til Vestmannaeyjaferða

Flm. (Guðlaugur Gíslason) :

Herra forseti. Þm. Sunnl. hafa leyft sér að flytja hér á þskj. 26 till. til þál. um byggingu skips til Vestmannaeyjaferða til samgöngubóta. Samgöngumál Vestmanneyinga hafa áður verið hér til umr. í hv. Sþ. Á haustþinginu 1971 lögðu 3 af þm. Sunnl. fram till. til þál. um samgöngumál Vestmanneyinga. Fjallaði till. að meginefni til um nauðsyn þess, að byggt yrði nýtt og hentugt skip til flutnings á farþegum, vörum og bifreiðum milli Vestmannaeyja og Þorlákshafnar og/eða Reykjavíkur, ef svo bæri undir. Till. fékk góðar undirtektir og var vísað til fjvn. til athugunar, og afgr. n. málið frá sér hinn 22. mars það sama ár með svo hljóðandi ályktun, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela samgrh, að skipa 5 manna n., er gera skal till. um það, með hverjum hætti samgöngur við Vestmannaeyjar verði best tryggðar. Skulu tveir nm. tilnefndir af bæjarstjórn Vestmannaeyja, einn af Skipaútgerð ríkisins, einn af flugmálastjóra og einn af samgrn., og skal hann vera formaður n.

Till. var samþ. með shlj. atkv. á fundi Sþ. hinn 18. apríl 1972, og skipaði samgrh. n. í samræmi við ályktun Alþ. með bréfi, sem dags. var 24. maí það sama ár. N. þessi, sem samgrh. skipaði, starfaði þá um sumarið og haustið og aflaði sér víðtækara upplýsinga um aðstöðu Vestmanneyinga í sambandi við samgöngur, bæði á sjó og í lofti. Einnig aflaði n. ítarlegra upplýsinga um farþega-, vöru- og bifreiðaflutninga á milli lands og Eyja um alllangt árabil á undanförnum árum. Skilaði n. samgrn. grg. um málið með bréfi, sem dags. er 4. des. 1972, og er till. n. varðandi samgöngur á sjó milli Vestmannaeyja og meginlandsins svo hljóðandi:

„Að athuguðum þeim skjölum og upplýsingum, sem n. hefur aflað sér, og með hliðsjón af félagslegum og vistfræðilegum athugunum málsins samþykktir n. að leggja til, að nýtt skip verði byggt fyrir Vestmannaeyjaferðir til farþega- og vöruflutninga og jafnframt sérhæft til bifreiðaflutninga, en telur það hins vegar vera ákvörðunarefni ríkisstj. og Alþ. að taka afstöðu til þess, hvenær það verður gert.“

Þetta var niðurstaðan í áliti, sem n. afhenti samgrn. að loknu starfi sínu. Var till. samþ. með 4 shlj. atkv. Einn nm. taldi þá ekki tímabært að taka afstöðu til byggingar skips til Vestmannaeyjaferða.

Í sambandi við fyrirhugaða smíði Vestmannaeyjaskips fékk n. fyrir milligöngu siglingamálastjóra, Hjálmars R. Bárðarsonar, norskt ráðgefandi fyrirtæki, Ankerkonsult A.S., til að teikna og semja smíðalýsingu að skipi af þeirri stærð og gerð, sem n. varð sammála um, að uppfyllti þær kröfur, sem eðlilegt væri að gera í sambandi við skip til siglinga milli lands og Eyja, en þær voru í aðalatriðum þessar:

1. Að í skipinu verði 20 tveggja rúma farþegaklefar.

2. 60 sæta salur með léttu, færanlegu milliþili, þannig að hægt væri að koma við hvílurúmi í hluta salarins, ef með þyrfti.

3. Veitingaaðstaða fyrir farþega, þó ekki miðað við framleiðslu fullkominna máltíða.

4. Vörulestarúm allt að 75 tonnum, miðað við flutninga í gámum að því marki, sem við verður komið.

5. Lestin verði með milligólfi til flutnings á bifreiðum neðanþilja fyrir allt að 15–20 bifreiðar í ferð.

6. 25 tonna kæligeymsla til flutninga á mjólk og öðrum vörum, sem geyma þarf í kæli.

7. Gert verði ráð fyrir opnanlegum hlerum á annarri síðu skipsins, þannig að hægt verði að aka bifreiðum inn og út úr skipinu og koma við gaffallyfturum við losun og lestun á hinum svokölluðu gámum og öðrum flutningi.

8. Ganghraði skipsins verði 15–16 sjómílur á klst.

Sést á þessu, að hér er um nokkuð sérbyggt skip að ræða að því leyti, að gert er ráð fyrir, að hægt verði að aka bifreiðum inn og út úr því og koma við gaffallyfturum við losun og hleðslu, þar sem aðstæður í landi gera slíkt mögulegt. Þetta byggist á því, að Vestmanneyingar stefna ákveðið að því að koma á daglegum ferðum milli Eyja og Þorlákshafnar, bæði til farþega-, vöru- og bifreiðaflutninga, og verður því að vera aðstaða til losunar og lestunar á eins fljótvirkan hátt og kostur er. En daglegum fer$um verður ekki komið við, ef sigla á fyrir Reykjanes til Reykjavíkur. Af þeirri ástæðu hefur verið stefnt að föstum ferðum milli Eyja og Þorlákshafnar, enda mun þægilegri ferð fyrir farþega, þar sem vegalengdin milli Vestmannaeyja og Þorlákshafnar er aðeins rúmlega þriðji hluti af leiðinni milli Eyja og Reykjavíkur auk þess sem öllum er kunnugt, að sigling fyrir Reykjanes að haustinu og vetrinum til er með erfiðustu siglingaleiðum við strendur landsins, og því eðlilegt, að fólk vilji losna við að fara þá leið, ef annarra betri kosta er völ.

Því er ekki að neita, að forráðamenn Ríkisskips, sem annast hafa flutninga til Eyja á undanförnum árum, hafa talið nokkur tormerki á vöruflutningum til Vestmannaeyja yfir Þorlákshöfn. En á það skal bent í þessu sambandi, að aðstæður allar til vöruflutninga hér á landi sem annars staðar eru að breytast í þá átt, að alls staðar, þar sem því verður við komið, er farið að flytja allar almennar vörur í hinum svokölluðu gámum. Þegar þannig er komið, er lítill vafi á því, að fjárhagslega er jafnvel hagkvæmara að flytja vörur til Eyja yfir Þorlákshöfn heldur en láta skipið sigla eftir þeim alla leið til Reykjavíkur. Siglingaleiðin milli Vestmannaeyja og Reykjavíkur er 220 sjómílur fram og til baka, en aðeins 80 sjómílur milli Vestmannaeyja og Þorlákshafnar. Verður að telja, að hin styttri siglingaleið spari það mikið í rekstri skipsins, að það vegi upp á móti auknum kostnaði við að aka vörum til Þorlákshafnar, ef rétt er að þeim flutningum staðið og þeir vel skipulagðir, auk þess sem það er óneitanlega til mikilla þæginda fyrir Vestmannaeyinga, að um daglega vöruflutninga til Eyja sé einnig að ræða, í stað þess að þurfa oft og tíðum að bíða nokkra daga með að fá bæði mjólk og aðrar aðkallandi nauðsynjar fluttar þangað, eins og nú á sér stað.

Þá vil ég víkja nokkrum orðum að þeirri till. hinnar stjórnskipuðu n. um samgöngumál Vestmannaeyja, að gert verði ráð fyrir við byggingu skipsins, að hægt verði að aka bifreiðum inn og út úr því við lestun og losun og koma fyrir lyfturum, þegar vörur eru fermdar og affermdar. Þetta er óneitanlega mjög mikill kostur við afgreiðslu skipsins, hvort heldur er í Vestmannaeyjum eða Þorlákshöfn. En til þess að þessu verði við komið, þarf alveg sérstaka aðstöðu í höfnum beggja þessara staða. Slíkri aðstöðu verður mjög vel við komið í höfninni í Vestmannaeyjum, og yrði þar alls ekki um kostnaðarsama framkvæmd að ræða. Hins vegar mun nokkuð erfiðara að búa slíka aðstöðu til í höfninni í Þorlákshöfn. En ef gert verður ráð fyrir tilteknum afgreiðslustað fyrir Vestmannaeyjaskip nú, þegar verið er að hanna stækkun Þorlákshafnar, ætti þetta að vera auðleyst mál á þeim stað einnig. Verða að sjálfsögðu teknar upp viðræður við Hafnamálastofnunina um þetta atriði.

Hin áður umrædda n., sem áliti skilaði um samgöngumál Vestmanneyinga, gerði ráð fyrir, að skip til Vestmannaeyjaferða yrði að vera nokkuð sérbyggt, en af þeirri stærð og styrkleika, að það fengi kvaðalaus skilríki til úthafssiglinga, þar sem gera verður ráð fyrir, að svo geti borið að, að það verði að sigla fyrir Reykjanes til Reykjavíkur, kannske þegar veður eru verst, ef innsigling í Þorlákshöfn verður ófær vegna veðurs. Þá er gert ráð fyrir, að skipið verði einnig búið venjulegum losunar- og lestunarkrönum, ef til þess þyrfti að grípa við afgreiðslu skipsins, t. d. í Reykjavík. Til alls þessa verður að sjálfsögðu að taka tillit, þegar ákvörðun verður tekin um byggingu skipsins og tilboða leitað í smíði þess.

Varðandi fjárhagshlið málsins gera flm. ráð fyrir, að taka verði lán, erlent eða innlent, fyrir verulegum hluta af byggingarkostnaði skipsins, sem síðar yrði greitt niður, eftir því sem fé yrði veitt á fjárl. og þá reiknað með að dreifa byggingarkostnaðinum á tiltekið árabil. Þetta er sú leið, sem undir öllum venjulegum kringumstæðum væri eðlilegast, að farin yrði. Hins vegar stendur nú svo á, að vegna náttúruhamfaranna í Vestmannaeyjum hefur borist til Viðlagasjóðs allverulegt fé til uppbyggingar í Eyjum og til þess að flýta fyrir, að þar gæti byggð hafist á ný í sem ríkustum mæli og aðstæður skapaðar til að fólk gæti unað búsetu þar í framtíðinni. Munar þar mestu um hið stórkostlega framlag ríkisstjórna Norðurlandanna, eins og kunnugt er. Stjórn Viðlagasjóðs hefur fengið Framkvæmdastofnun ríkisins til þess að gera áætlun um endurreisn byggðar og atvinnulífs í Vestmannaeyjum nú, eftir að fólk er farið að flytja þangað út aftur. Ekki hefur áætlun þessi í heild borist stjórn sjóðsins, en aðeins það, sem Framkvæmdastofnunin nefnir tímasamræmda vinnurás fyrir Vestmannaeyjaáætlun. Er þar vitnað í skýrslu hinnar stjórnskipuðu n. um samgöngumál Vestmannaeyja, en tekið fram, að hér sé um að ræða pólitísk mál um framkvæmdir og/eða tímasetningu, eins og þar segir.

Á fundi, sem fulltrúar Framkvæmdastofnunarinnar héldu úti í Vestmannaeyjum hinn 8, sept. s. l., lögðu ráðamenn byggðarlagsins ákveðið til, að Vestmannaeyjaáætlun verði falið það verkefni að flýta sem verða má fyrir framkvæmdum við kaup eða gerð bíla- og flutningaferju í anda meirihlutasamþykktar þeirrar n., sem skilaði áliti til Alþ. í des. 1972 um samgöngumál Vestmannaeyja, eins og orðrétt segir í fundargerð fulltrúa Framkvæmdastofnunar frá þessum fundi. Það liggur því ljóst fyrir, að forráðamenn Vestmannaeyjakaupstaðar leggja á það áherslu, að málið verði einnig skoðað frá þessum sjónarhóli, ef það mætti verða til þess að flýta fyrir og tryggja framgang þess.

Ég vil að lokum undirstrika það, sem fram kemur í grg. með till. þeirri, sem ég hef hér leyft mér að mæla fyrir, að það er samdóma álit þeirra, sem til þekkja, að uppbygging Vestmannaeyja á nýjan leik geti beinlínis oltið á því, að tryggðar verði daglegar ferðir sjóleiðis á milli lands og Eyja. Þetta er ofurskiljanlegt. Það var mjög farið að bera á því fyrir gosið í Eyjum, að hið ótrygga ástand í samgöngumálum hamlaði búsetu í Eyjum. Þessum þröskuldi verður að vík,ja úr vegi, og verður það að dómi flm. ekki gert á annan eða fljótvirkari hátt en lagt er til í þessari till., að byggt verði nýtt skip, sem einvörðungu er ætlað það hlutverk að halda uppi daglegum ferðum milli Vestmannaeyja og meginlandsins. Og áhersla er á það lögð, að heimahöfn skipsins verði í Eyjum og að því verði stjórnað þaðan.

Leyfi ég mér svo að leggja til, herra forseti, að umr. um till. verði frestað og henni vísað til hv. fjvn.