18.03.1974
Neðri deild: 86. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2957 í B-deild Alþingistíðinda. (2630)

162. mál, ríkisábyrgð á launum við gjaldþrot

Frsm. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Þetta mál er flutt til staðfestingar á brbl. Málið er komið frá hv. Ed. og var þar samþ. óbreytt. Ég hygg, að hægt sé að fullyrða það líka, að þetta er samkomulagsmál aðilanna á vinnumarkaðnum, bæði Alþýðusambands Íslands og Vinnuveitendasambands Íslands, og tilgangurinn með frv. er sá að koma í veg fyrir, að verkafólk tapi vinnulaunum, sem það á inni hjá atvinnurekenda, sem verður gjaldþrota.

Við samningu þessa frv. var mjög nákvæmlega skoðað, hvernig nágrannaþjóðir okkar, Danir, Norðmenn og Svíar, hefðu ráðið þessum málum til lykta, og kom í ljós við þá athugun, að nýlega hefur verið sett löggjöf í Noregi og Svíþjóð um þessi mál og þá hafður svipaður háttur á, að ríkið ábyrgðist þau skakkaföll, sem af gjaldþrotum atvinnurekenda gæti leitt. Hér hefur verið gerð athugun á því, hversu miklum fjárhæðum þetta kynni að nema. En það er ekki auðvelt að komast að niðurstöðu um það, því að sum árin er þarna ekki um nein slík skakkaföll að ræða, á öðrum árum getur það verið nokkuð og er mjög háð því, hvernig ástatt er á vinnumarkaði og hvernig atvinnuvegum vegnar.

Hér er ætlast til þess, að ríkið taki á sig ábyrgð af greiðslum vinnulauna í sambandi við gjaldþrot atvinnurekenda, án þess að gjald sé hins vegar lagt á atvinnurekendur, eins og tíðkast í sumum okkar nágrannalöndum. Reynslan yrði þá að sýna það, hvort þarna væri um meiri fjárhagsábyrgð og áhættu að ræða en svo, að ástæða þætti til að stofna slíkan ábyrgðarsjóð til að standa straum af þessu.

Hv. félmn. hv. d. leggur einróma til, að málið verði samþ. óbreytt. Fjarverandi við afgreiðslu málsins voru þeir Gylfi Þ. Gíslason og Stefán Valgeirsson. Það er sem sagt till. n., að málið verði samþ. óbreytt.