18.03.1974
Neðri deild: 86. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2958 í B-deild Alþingistíðinda. (2632)

260. mál, almannatryggingar

(Ellert B. Schram):

Herra forseti. Á þskj. 457 hef ég ásamt 5 öðrum hv. þm. leyft mér að bera fram frv. til l. um breyt. á l. um almannatryggingar, sem felur það í sér, að inn í þau lög séu felld ákvæði um slysabætur til handa íþróttamönnum vegna slysa, sem eiga sér stað við íþróttaæfingar eða íþróttakeppni.

Ég tel óþarfa að hafa mjög langt mál um þetta frv. Það felur í sér sjálfsagða og löngu tímabæra breytingu, að íþróttafólk fái bætur vegna slysa, örorku eða dauða, sem á sér stað við íþróttaiðkun. Þessu máli hefur áður verið hreyft hér á hinu háa Alþingi, en hefur ekki náð fram að ganga þrátt fyrir fullan skilning, að því er virðist, bæði þm. og þn. Mun ég þess vegna freista þess enn ásamt meðflm. mínum að hreyfa þessu máli í þeirri trú, að það nái endanlegu samþykki.

Endurskoðunarnefnd sú, sem vinnur að því að fara yfir almannatryggingalögin, mun hafa í hyggju að taka þetta mál til athugunar, og mér hefur verið tjáð, að það sé vilji í þeirri n. til þess að breyta l. í þessa átt, og frv. þetta er flutt í þeim tilgangi að láta það koma fram, að samþykki Alþ. liggi jafnframt fyrir. Það ætti að þrýsta frekar á hreyfingu á málinu í viðkomandi nefnd.

Íþróttahreyfingunni hefur lengi verið ljóst, að ekki væri hægt að búa við annað en einhvers konar tryggingakerfi til handa því íþróttafólki, sem verður fyrir áföllum, hvort sem það er slys eða dauði, en ekki haft bolmagn til þess að koma til móts við það nema að mjög takmörkuðu leyti. Nú eru fyrir hendi slysatryggingasjóðir bæði á vegum Íþróttasambands Íslands og íþróttabandalags Reykjavikur, en báðir þessir sjóðir eru fjármagnaðir af íþróttahreyfingunni sjálfri og eru vanmegnugir þess að taka á sig nokkrar umtalsverðar bætur. Og þeir gera ekki ráð fyrir því, að örorka eða dauði sé bætt.

Til staðfestingar á því, hversu vanmegnugir þessir sjóðir eru, má geta þess, að slysatryggingasjóður Íþróttasambands Íslands greiðir núna dagpeninga að upphæð 90 kr., verði íþróttamaður fyrir slysi, sem veldur því, að hann getur ekki stundað vinnu í lengri eða skemmri tíma.

Samkv. þeim upplýsingum, sem ég hef aflað mér munu bótaþegar árið 1970 hjá slysatryggingasjóði Íþróttasambands Íslands hafa verið 20, í bætur hafa verið greiddar 149 þús. kr., en iðgjöld á því ári voru 127120 kr.. Árið 1971 voru bótaþegar 13, bætur 127 436 kr., en iðgjöldin 129 810 kr. Árið 1972 voru bótaþegar 12, þá voru bætur 93 041 kr., en iðgjöld 163 842 kr. Upplýsingar liggja ekki fyrir um árið 1973 eða það, sem af er árinu 1974, en ljóst er af þessari upptalningu, að þarna er ekki um marga bótaþega að ræða né heldur um stórar upphæðir. Því ætti þetta ekki að vera þungur baggi fyrir ríkissjóð ásamt íþróttahreyfingunni að standa undir, ef þetta frv. verður að lögum, svo sem ég geri mér vonir um.

En enda þótt þarna sé ekki um að ræða marga bótaþega, er hins vegar ljóst, að þarna er verið að greiða iðgjöld og þau iðgjöld koma eingöngu frá íþróttahreyfingunni sjálfri. Hún aflar tekna með ýmsum hætti. Það má t.d. benda á, að ÍBR greiddi í bætur á árinu 1972 350 þús. kr., og á árinu 1973 mun það hafa greitt 437 882 kr. Tekjur stóðu undir þessu, en þessar tekjur voru allar teknar rú rekstri íþróttahreyfingarinnar. íþóttabandalag Reykjavíkur hefur sínar tekjur að mestu leyti með ákveðnu prósentugjaldi af innkomnum aðgangseyri að íþróttasvæðum og íþróttahúsum í borginni. Það yrði mikill fengur fyrir íþróttahreyfinguna, ef hún losnaði við þessa fjárhagsbyrði og gæti sett sitt fé í starfsemina sjálfa og í stað þess tæki ríkissjóðir eða tryggingakerfið að sér að standa undir þessum slysabótum, sem barna er um að ræða.

Mikilvægasta nýmælið í þessu frv. er það, að auk þess sem slys fengjust bætt, dagpeningar greiddir eins og Tryggingastofnunin greiðir til bótaþega, sem verða frá vinnu vegna vinnuslysa, þá er auk þess gert ráð fyrir því, eins og fyrr segir, að bætur séu greiddar vegna varanlegrar örorku eða vegna dauða.

Sá sviplegi atburður átti sér stað á s.l. sumri, að ungur maður lést vegna slyss við íþróttaiðkanir. Af stað fór söfnun til þess að standa undir þessu áfalli að einhverju leyti, fjárhagslegu áfalli, sem ekkjan varð fyrir og fjölskylda mannsins. En allir eru mér áreiðanlega sammála um, að slík söfnun er frekar ógeðfelld og ekki við það unandi, að til slíkrar söfnunar þurfi að grípa, vegna þess að auðvitað ættu lög og tryggingakerfið okkar að koma til móts við aðstandendur þeirra, sem svo sviplega falla frá. Hér er sem betur fer ekki um algengan atburð að ræða, mjög fátítt, að svo alvarleg slys eigi sér stað, og þýðir aftur, að hér á ekki að vera um mjög mikla fjárhagslega byrði fyrir Tryggingastofnunina eða ríkissjóð að ræða.

Í þessu frv. er ekki gert ráð fyrir því, að ríkissjóður taki iðgjöldin að sér að öllu leyti, heldur reynt að koma til móts við ríkissjóð hvað það varðar og gert ráð fyrir því, að iðgjöldin séu borin uppi sameiginlega af ríkissjóði og Íþróttasambandi Íslands, og þá er hugsunin sú, að sá höfuðstóll, sem nú eru fyrir hendi í slysatryggingasjóði Íþróttasambandsins og Íþróttabandalags Reykjavíkur, gangi til móts við iðgjaldagreiðslur næstu ára og verði framlag íþróttahreyfingarinnar til þess að standa undir þeim kostnaði næstu árin og brúa það bil eða þá erfiðleika, sem þetta getur valdið ríkissjóði í fyrstu.

Það mætti halda því fram, að þegar fólk stundar íþróttir, ætti hver að geta borið ábyrgð á sjálfum sér og taka af því áhættuna. En sömu sjónarmið eru og fyrir hendi, þegar annars vegar er fólk, sem stundar almenna vinnu, en engu að síður hefur þjóðfélagið komið til móts við slík áföll, þegar um vinnuslys er að ræða og greiðir bætur vegna vinnuslysa og annarra sambærilegra athafna. Þess vegna ætti sama sjónarmið eða sama forsenda að liggja að baki þessu máli og stuðla enn frekar að því, að málið næði fram að ganga hér á þingi. Þjóðfélagið hefur haft skilning á íþróttaiðkun og vill koma til móts við þessa hreyfingu og getur gert það einmitt með því að taka að sér iðgjaldagreiðslur og fella slys vegna íþróttaiðkana inn í hið almenna tryggingakerfi. Yfirleitt er það svo, að það er um ungt fólk að ræða, sem stundar íþróttir, — fólk, sem ekki er komið í mikil efni, er að koma sér upp heimilum og er e.t.v. með nokkra ómegð, og því ætti þörfin að vera enn þá meiri, þegar þetta unga fólk er annars vegar.

Ég held, að það væri til sóma fyrir Alþingi, og fyrir stjórnvöld, ef þau hefðu skilning á þessu máli og samþ. það í aðalatriðum, eins og það er lagt hér fram. Ég vænti þess, að ekki þurfi að útskýra það frekar, og vil því ekki hafa lengra mál að sinni, en legg til, að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. heilbr: og trn.