19.03.1974
Sameinað þing: 68. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2960 í B-deild Alþingistíðinda. (2637)

236. mál, framkvæmd iðnþróunaráætlunar

Flm. (Pétur Pétursson):

Herra forseti. Á þskj. 400 hef ég leyft mér að flytja till. til þál. um framkvæmd iðnþróunaráætlunar, sem er á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að hraða framkvæmd þeirrar iðnþróunaráætlunar, sem sérfræðingar Sameinuðu þjóðanna hafa lagt fram við ríkisstj., bæði að því er varðar tæknilega uppbyggingu iðnaðarins og að því er varðar markaðsmál atvinnuvegarins, vegna útflutnings iðnaðarvara.“

Þessi till. skýrir sig að verulegu leyti sjálf, en þó ætla ég að fara um hana nokkrum orðum. Þessi iðnþróunaráætlun hefur verið í smíðum í langan tíma, og eins og þarna kemur fram, voru fengnir sérfræðingar Sameinuðu þjóðanna til að vinna að þessum málum. En til upprifjunar langar mig til að geta um nokkur atriði, sem eru nefnd í málefnasamningi hæstv. ríkisstj., með leyfi hæstv. forseta. Þar segir, að Framkvæmdastofnun ríkisins eigi að semja iðnþróunaráætlun og verði lögð höfuðáhersla á uppbyggingu fjölbreytts iðnaðar í eigu landsmanna sjálfra. Og á öðrum stað segir, að beina eigi auknu fjármagni til iðnaðarins með það fyrir augum, að hann verði fær um að taka við verulegum hluta þess vinnuafls, sem sjá þarf fyrir atvinnu á næstu árum. Könnun fari fram á því, hvaða greinar iðnaðar hafi mesta þjóðhagslega þýðingu, og þær látnar njóta forgangs um opinbera fyrirgreiðslu. Enn segir, að halda skuli áfram með auknum þrótti athugun á möguleikum til íslensks efnaiðnaðar og leggja áherslu á eflingu skipasmíðaiðnaðarins með það takmark fyrir augum, að Íslendingar smíði að miklu leyti skip sín sjálfir og geti annast viðhald fiskiskipa og kaupskipa.

Svo mörg eru þau orð í málefnasamningnum. Og þá vakna þær spurningar, hvernig að þessum málum hafi verið staðið á því tímabili, sem hæstv. ríkisstj. hefur starfað.

Mér finnst ekki, að það hafi verið lögð nein höfuðáhersla á uppbyggingu iðnaðarins yfirleitt í landinu, og mér finnst ekki heldur, að iðnaðurinn hafi fengið að verulegu leyti aukið fjármagn, eins og heitið var. Það var talað um þýðingarmiklar iðugreinar, sem eigi að hafa forgang, þar sem þær eru fjárhagslega mikilvægar. Eflingu á íslenskum efnaiðnaði hef ég ekki orðið mikið var við. Af því er varðar markaðsleit og sölustarfsemi vegna útflutningsiðnaðar, hefur verið talsvert unnið í sambandi við lagmetisiðnaðinn, en sáralitið varðandi annan iðnað, og allir hv. þm. vita, að sölumiðstöð iðnaðarins hefur verið svelt ár eftir ár, þannig að hún hefur ekki getað sinnt nema að mjög takmörkuðu leyti sínum verkefnum. En þegar við förum svo að athuga stöðu iðnaðarins núna, þá vitum við það, að Sölustofnun lagmetisiðnaðarins hefur gert allstóran samning við Sovétríkin alveg nýlega og gert þann samning í trausti þess, að niðurgreiðslur fáist, sem verða væntanlega einhvers staðar á milli 15 og 20%. Þetta er m.ö.o. sá munur, sem er á milli þess, sem framleiðendur telja sig geta framleitt vöruna fyrir með allra lægsta verði og þess verðs sem kaupendur vilja kaupa hana fyrir. Loforð hefur verið gefið um þessa niðurgreiðslu. Enn fremur er mér sagt, að loforð hafi verið gefið fyrir niðurgreiðslu á talsverðu magni af peysum, sem líka hafa verið seldar til Sovétríkjanna. Er þannig komin sá stefna, að mér virðist, að það skuli greiða niður útflutningsvörur iðnaðarins. En hins vegar er þetta ekki algild eða viðurkennd stefna, að því er virðist. Ég hef hvergi séð neitt skriflegt ákvæði um þetta og hefði því haft ábuga á því, ef hæstv. iðnrh. hefði verið hér, að spyrja hann, hvort þetta sé staðreynd. Enn hefur það svo komið fyrir í ullar- og prjónaiðnaðinum, að umtalsvert magn af kápum, sem eiga að fara á amerískan markað, á að framleiða úti í Skotlandi, einfaldlega vegna þess, að umræddir samningar hefðu sennilega ekki náðst, nema af því að það var hægt að framleiða hluta af þessari pöntun í landi, þar sem vinnulaun eru snöggtum lægri en hér.

Ég hef aðallega rætt um útflutningsiðnaðinn. En það er auðvitað alveg ljóst, að samkeppnisiðnaðurinn kemur til með að fara alveg eins, verða í jafnmiklum erfiðleikum, enda hefur það glögglega komið fram hjá samtökum iðnaðarins, að ástandið er svo alvarlegt, að það er veruleg hætta á því, að íslenskur iðnaður verði nú að fara að draga saman starfsemi sína. Mér hefur raunar fundist æði oft, að það sé eins og málefni iðnaðarins almennt séu talin einhvers konar annars flokks vandamál í sambandi við efnahagsmál. og þetta á við iðnaðinn í heild, finnst mér. Þess vegna hef ég flutt þessa till., því að iðnþróunaráætlun Sameinuðu þjóðanna er virkilega vel gerð. Það var ákveðið af fyrrv. ríkisstj., að leita til Sameinuðu þjóðanna um þessi vandamál, og skýrslur þeirra hafa legið lengi að mínu mati hjá hæstv. ríkisstj., en árangur virðist mér ekki sjást enn þá. Annað er þá, að fyrir nokkrum dögum var okkur í iðnn. þessarar hv. d. fært uppkast að frv. til laga um Iðntæknistofnun. Líklega hefur ekki verið samkomulag um þetta hjá hæstv. ríkisstj., en iðnn. beðin að flytja frv., og út af fyrir sig hef ég ekkert við það að athuga að flytja það, en þar er fyrst og fremst um að ræða samsteypu hinna ýmsu rannsóknastofnanna og Iðnþróunarstofnunar Íslands. Þessar skýrslur hafa sem sé legið lengi hjá hæstv. ríkisstj. Það hefur miklu fjármagni og tíma verið eytt í þessar áætlunargerðir. Ég tel, að þær hafi verið vel unnar, og þá er spurning mín: Hvers vegna eru þessar till. ekki komnar lengra áleiðis en raun ber vitni um? Mér er raunar ljóst, að það hefur verið stofnuð n. til þess að athuga þessar áætlanir, en það er tæpast hægt að una við það, að einhver n. vinni mánuð eftir mánuð án þess að sjá neinn árangur af þeim störfum. Mér finnst, að það beri þess vegna brýna nauðsyn til þess, að Alþingi skori á hæstv. ríkisstj. að hraða framkvæmd þessarar iðnþróunaráætlunar, sem er hæði tæknilega og markaðslega gerð, og verði varla hjá því komist, ef á að líta alvarlega á þessi mál, að fara að lofa mönnum að sjá eitthvað í þessum efnum, því að ég tel, að atvinnuvegurinn sé í alvarlegri hættu. Mér hefur virst, að allir stjórnmálaflokkar hafi áhuga á því að efla iðnað í landinu, en mér finnst ganga ákaflega seint að gera það á þann hátt, að verulegur árangur sjáist.

Ég sé ekki ástæðu til að hafa um þetta fleiri orð herra forseti, en legg til, að umr. verði frestað og till. vísað til hv. atvmn.