19.03.1974
Sameinað þing: 68. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2963 í B-deild Alþingistíðinda. (2639)

236. mál, framkvæmd iðnþróunaráætlunar

Oddur Ólafsson:

Herra forseti. Þegar brestur í smáiðnaðinum, þá er stutt í örðugleika almennings. Það er enginn vafi á því, að iðnaðurinn veitir fleirum atvinnu en aðrar atvinnugreinar. Það er einnig annað um iðnaðinn, þar er fjölbreytni í störfum miklu meiri en í öðrum atvinnugreinum. Þess vegna er mikil nauðsyn, að vel sé að iðnaði búið, ekki síst hjá smáþjóð. Okkur er það nauðsynlegra en öðrum, að allar hendur, sem unnið geta, hafi störf. Það er enginn vafi á því, að það er verr búið að iðnaðinum í þessu landi en öðrum atvinnugreinum, og þótt gerðar hafa verið tilraunir til lagfæringar á ýmsum sviðum, þá er það víst, að óðaverðbólgan eyðileggur jafnóðum það, sem verið er að reyna að bæta.

Iðnaðurinn hefur árum saman búið við léleg lánakjör og lítil, og hafi eitthvað átt um að bæta, þá hefur það verið hrifið með hinni hendinni jafnóðum til baka í formi óðaverðbólgu. Þá eru háir vextir iðnaðinum þyngri í skauti en flestum öðrum atvinnuvegum. Allt þetta veldur því, að svo er nú í að sjá sem samdráttur í iðnaði sé á næsta leyti. Þetta mun fljótlega hafa í för með sér verri atvinnukjör og jafnvel atvinnuleysi, ekki síst hjá þeim, sem hafa mjög takmarkað vinnusvið og vinnugetu.

Hér hafði fyrir nokkrum árum komist á vísir að útflutningsiðnaði á ýmsum sviðum: í lagmeti, í húsgögnum, bæði úr tré og stáli, í prjónlesi og á ýmsum fleiri sviðum. En það virðist svo sem vanbúnaður af hálfu stjórnvalda eigi sinn stóra þátt í því, að þessi vísir að útflutningi býr við svo þröngan kost, að sjáanlegur er samdráttur og jafnvel stöðvun.

Það er enginn vafi á því, að sú mikla verðbólga, sem hér ríkir, er iðnaðinum sérstaklega óhagstæð, og enda þótt við þurfum ekki að búast við því, að úr því verði bætt til fullnustu á næstunni, þá er enginn vafi á því, að haldi svo áfram sem horfir, þá á iðnaðurinn við ófyrirsjáanlega örðugleika að stríða í náinni framtíð.

Það hefur flogið fyrir, að greitt verði fyrir vissum grenum iðnaðarins varðandi útflutning. Þetta er í sjálfu sér stórhættulegt fyrirbrigði, sem við höfum reynt áður, og ég hélt, að allir væru komnir yfir og mundi ekki verða horfið að aftur. Hér verður sýnilega vart um annað að ræða en að almennar ráðstafanir verði gerðar til leiðréttingar á þeim erfiðleikum, sem iðnaðurinn á við að búa og að fært verði í það horf, að iðnaðarvörur geti aftur orðið samkeppnisfærar á markaðnum. Okkur er fyrir öllu í þessu landi að halda uppi nægri atvinnu, ekki aðeins fyrir þá, sem eru hinir góðu og viðurkenndu iðnverkamenn og konur, heldur einnig fyrir hið afbrigðilega vinnuafl, sem öllum stundum hefur átt innhlaup hjá íslenskum iðnaði og kannske í ríkari mæli hjá íslenskum iðnaði en víða annars staðar. Þetta er mikið og dýrmætt vinnuafl þessari litlu þjóð, en það verður það vinnuafl, sem fyrst finnur fyrir því, er verulega sverfur að.