19.03.1974
Sameinað þing: 68. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2964 í B-deild Alþingistíðinda. (2641)

243. mál, hagnýting vindorku með vindrafstöðvum

Flm. (Ásberg Sigurðsson):

Herra forseti. Á þskj. 413 hef ég leyft mér að flytja till. til þál. um hagnýtingu vindorku með vindrafstöðvum. Tillgr. hljóðar þannig, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að gera nú þegar ráðstafanir til, að fylgst verði með þeim tækniframförum, sem átt hafa sér stað í hagnýtingu vindorku til raforkuframleiðslu, ef vera má, að nýtísku vindrafstöðvar séu hugsanlegur raforkugjafi á afskekktum sveitabýlum, sem erfitt er að tengja samveitum.“

Fyrsti orkugjafinn, sem mannkynið tók í þjónustu sína, er sennilega vindorkan. Frá órofi alda hafa menn fleytt sér áfram á trjábolum, flekum og bátum með vindorku. Allt fram á þessa öld sigldu seglskip um öll heimsins höf á vindorku einni saman. Við Íslendingar áttum fiskiskútur eða kúttera, sem eingöngu voru búnir seglum fram yfir aldamót, en þá var almennt farið að hafa hjálparvélar í seglskipum, sem notaðar voru, þegar byr gaf ekki.

Öldum saman hafa menn notað vindmyllur til margs konar starfsemi, t.d. til að dæla upp vatni til áveitna, mala korn o.s.frv. Vindmyllurnar voru yfirleitt mjög þungbyggðar og því afkastalitlar, en eru þó enn notaðar víða í suðurlöndum.

Á árunum fyrir síðari heimsstyrjöld komu hingað til lands vindrafstöðvar og voru nokkuð víða notaðar til þess að framleiða rafmagn til ljósa. Vindrafstöðvar þessar voru mjög afkastalitlar og komu að mjög takmörkuðu gagni. Þær þurftu verulegan vindhraða til að skila fullum afköstum, en þoldu hins vegar illa stórviðri og vildu jafnvel brotna og eyðileggjast. Þessar vindrafstöðvar hafa fyrir löngu lagst niður með öllu hér á landi.

Á síðari árum hafa orðið verulegar tækiframfarir í gerð vindrafstöðva. Menn hafa gert sér grein fyrir, að í vindraforkunni er fólgið ódýrt afl, sem alls staðar er fyrir hendi. Það eru einkum Frakkar, sem hafa unnið að endurbótum á vindrafstöðvum, og eru þær nú all algengar í Frakklandi og viðar, t.d. í Noregi, Spitsbergen, Grænlandi og Alaska. Vindrafstöðvar eru aðallega settar upp á afskekktum stöðum, þar sem ekki er hægt að fá raforku frá samveitum eða þar sem erfitt er að koma við öðrum orkugjöfum, m.a. vegna erfiðleika á flutningi á eldsneyti og á eftirliti með vélaorku. Þannig eru t.d. vitar á afskekktum stöðum og eyjum lýstir með vindrafstöðvum, sömuleiðis ljósbaujur á skerjum og innsiglingarljós í þröngum fjörðum. Sama er að segja um endurvarpsstöðvar síma og sjónvarps á afskekktum stöðum á fjöllum uppi, svo að dæmi séu nefnd.

Ekki er vafi á, að til mála kemur að nota vindrafstöðvar í svipuðu skyni hér á landi. Auk þess verður að telja athugandi að koma upp vindrafstöðvum í eyjum hér á landi, sem enn eru byggðar, enda verða þær vart tengdar samveitu. Hér á landi eru mörg sveitarbýll, sem erfitt er að tengja samveitum vegna mikilla fjarlægða. Þá má nefna raflýsingu og hitun sumarhúsa, skíða- og fjallaskála.

Nýtísku vindrafstöðvar eru mun afkastameiri en áður var. Á markaðnum í dag eru aðallega stöðvar frá 1 kw upp í rúm 4 kw. En ekkert mun til fyrirstöðu að framleiða vindrafstöðvar, sem framleitt geta 12–15 kw. Stöðvar þessar eru mjög léttbyggðar og þurfa því mjög lítinn vind til að skila fullum afköstum, eða vindhraða frá 2 m á sek. til 7 m á sek., en það mun þýða golu til stinningsgolu eða 2–4 vindstig.

Hér á landi er mjög vindasamt. Logn heilan sólarhring eða lengur er sjaldgæft fyrirbæri. Nú þola vindrafstöðvar mikinn vindhraða án þess að brotna og eyðileggjast, enda eru þær oftast á fjallatoppum, t.d. í Ölpunum, þar sem stórviðri eru tíð. Allar vindrafstöðvar eru nú þolreyndar fyrir um 56 m vind á sek, eða um 200 km vindhraða á klst. og jafnvel allt upp í 300 km. vindhraða á klst., eða fárviðri. Ef algjört logn er, framleiða vindrafstöðvar ekki rafmagn. En nú eru þær tengdar rafgeymum, sem hlaðnir eru, þegar vindur er, og miðla orku í logni. Rafgeymarnir eru eins og hjálparvélar seglskipanna voru, þegar ekki gaf byr. Vindrafstöðvar endast lengi og þurfa lítið viðhald og eftirlit. Rafleiðslur frá þeim eru stuttar, og því lítil hætta á línubilunum í hörðum vetrarveðrum. Það er vandamál, sem hætt er við að verði síst minna, eftir því sem afskekktari staðir eru tengdir samveitum. Vindrafstöðvar eru loks auðveldar í uppsetningu, og þær má taka niður fyrirhafnarlítið og flytja á annan stað, ef þörf krefur.

Án rafmagns er ekki hægt að búa á Íslandi lengur. Ekki er ólíklegt, að með vindrafstöðvum megi fyrr en ella leysa raforkuþörf afskekktra býla og byggða.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að hafa frekari orð um þessa till. Aðalatriðið er, að fylgst verði með þeim tækniframförum, sem eru að verða í hagnýtingu vindorku til rafmagnsframleiðslu, og kannað, hvort vindrafstöðvar geti komið að notum hér á landi.

Ég vil að lokum óska þess, að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til atvmn.