20.03.1974
Efri deild: 84. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2969 í B-deild Alþingistíðinda. (2649)

267. mál, aðstoð við kaupstaði eða kauptún vegna landakaupa

Félmrh. (Björn Jónsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir stjfrv. til l. um breyt. á l. nr. 41 27. apríl 1963, um aðstoð ríkisins við kaupstaði og kauptún vegna landakaupa. Þetta mál þarfnast ekki langrar skýringar eða mikillar framsöguræðu. Hér er aðeins um að ræða breytingu á tveimur efnisatriðum í viðkomandi lögum og það er í fyrsta lagi, að lánstíminn, sem hefur verið 25 ár samkv. l., verði styttur í 15 ár, og enn fremur, að vaxtakjörunum verði breytt þannig, að í stað þess, að á lánum til landakaupa hafa verið 5% ársvextir, er með frv. gert ráð fyrir, að þeir verði hækkaðir, þannig að þeir verði 3% lægri en almennir útlánsvextir lánastofnana. Aðrar breytingar felast ekki í þessu frv.

Ég ætla, að mönnum sé ljóst, að þau lánakjör, sem lögfest voru árið 1963 með þessum l., sem þá voru sett, séu orðin úrelt miðað við almenna útlánsvexti og þá verðlagsþróun, sem nú er í landinu. Þessi breyting er fyrst og fremst flutt til þess að drýgja það fé, sem til þessara mála er veitt á fjárlögum, og reyna að bjarga því að nokkru leyti, að það brenni ekki allt upp í þeirri verðbólgu, sem hér hefur geisað.

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að þörf sveitarfélaganna fyrir fyrirgreiðslu af þessu tagi hefur farið mjög vaxandi, og menn þurfa varla annað en að líta á fskj., þar sem er skrá yfir óafgreiddar lánsumsóknir vegna landakaupa 1. mars s.l., til þess að gera sér ljóst, að 10 millj. á ári hrökkva skammt, ef lítið kemur til baka af raunverulegum verðmætum, vegna þess að lánakjörin séu miklu lægri en almennt gerist hjá lánastofnunum.

Áður en frá þessu frv. var gengið, var haft samband við þann aðila, sem kemur fram fyrir sveitarfélögin varðandi þetta mál, þ.e.a.s. stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga, og tjáði stjórnin sig samþykka efnisatriðum frv.

Ég vænti þess, að þetta mál fái greiða afgreiðslu hér í hv. þd. og hv. þn. og geti orðið afgr. fljótlega sem lög frá Alþingi, þar sem hefur verið gert ráð fyrir því, að þessi breyting taki gildi við þá úthlutun, sem fram fer nú á þessu ári.

Ég held, að ég sjái ekki ástæðu til, herra forseti, nema sérstakt tilefni gefist, til að fara frekar út í þetta mál, það er einfalt og ætti öllum að vera augljóst, en legg til, að því verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. félmn.