05.11.1973
Efri deild: 12. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 342 í B-deild Alþingistíðinda. (265)

Umræður utan dagskrár

Oddur Ólafsson:

Herra forseti. Ég hef kvatt mér hljóðs hér utan dagskrár vegna málefna læknanema, er nú hafa gripið til örþrifaráða til þess að vekja athygli á þeirri óviðunandi aðstöðu, er þeir búa við. Mig langar í því tilefni að beina nokkrum spurningum til hæstv. menntmrh., einkum varðandi byggingarmál Háskóla Íslands og Landsspítalans.

Málefni læknanema eru að sjálfsögðu engin sérmálefni þeirra. Þeirra vandkvæði eru vandkvæði allrar þjóðarinnar. Á undanförnum árum höfum við hér á Alþ. hvað eftir annað rætt læknaskortinn í dreifbýlinu og læknaskort allra landsmanna. Ég held, að menn hafi verið ásáttir um það, að byggð í landinu væri háð því skilyrði, að þar gæti verið sómasamleg heilbrigðisþjónusta og meðan læknaskortur ríkti í svo ríkum mæli sem hefur verið undanfarin ár, væri stórhætta á því, að byggðaröskun yrði enn þá alvarlegri og geigvænlegri en verið hefur. Eitt af þeim úrræðum, sem komu til umr. hér á Alþ. fyrir alllöngu, var stórfjölgun í læknadeild, og ég held, að þm. hafi allir fallist á, að þar væri gripið rétt á málunum, að fjölgun í læknadeild mundi verða með tímanum til þess að bæta úr þeim læknaskorti, sem er í landinu. En að sjálfsögðu fylgdi því það, að skapa varð aðstöðu fyrir þá nýju nemendur, sem inn kæmu, til þess að geta starfað.

Það gleðilega gerðist, að fjölgun nemenda varð í læknadeild, svo stórfelld, að nú hefur allt lent í miklum vanda. Það hefur láðst að sjá læknanemum fyrir kennslurými, það hefur láðst að sjá læknanemum fyrir hæfilegum fjölda kennara, og það hefur láðst að sjá læknanemum fyrir hæfilegri og nægilegri kennsluaðstöðu á sjúkrahúsum landsins. Þetta er svo alvarlegt, að læknanemar hafa ekki séð sér annað úrkosta en að gripa til þeirra örþrifaráða að mótmæla þeirri takmörkun á fjölgun, sem Háskólinn hefur nú gripið til eða hyggst grípa til á þeim grundvelli, að engin aðstaða sé til að kenna læknanemum, svo að viðunandi sé.

Undirrót þessa máls er að sjálfsögðu byggingarmál Háskólans. 1958 réð Háskólinn sérstakan arkitekt, Gunnlaug Halldórsson, til þess að teikna læknadeild Háskólans, læknadeildarhús. Hann vann að þessu verkefni árum saman, hann hafði teiknað 11 þús. rúmmetra læknadeildarhús, er skyldi byggjast á Landsspítalalóðinni. Svo datt málið niður, læknadeildarhúsið var flutt yfir á háskólalóðina. Þar var gerður skipulagsuppdráttur, er sýndi stöðu þess. Nú síðustu árin er aftur búið að flytja læknadeildarhúsið inn á Landsspítalalóðina, en það eru ekki til nema kubbarnir. Og enn mun þannig vera ástatt í dag, að ekki er byrjað að endurteikna læknadeildarhús og þess vegna hefur verið gripið til þess ráðs að leigja kjallaraíbúðir sem aðstöðu fyrir læknanema, að kaupa hús úti í bæ handa þeim til að lesa í og leigja húsnæði til kennslu þeirra hér og hvar um bæinn við algerlega ófullnægjandi aðstöðu.

Fjöldatakmörkun er að sjálfsögðu hreint neyðarúrræði, og ég veit, að það er algerlega gegn vilja Háskólans að fara inn á slíkar brautir. Við höfum reynt þessa leið í menntaskólanum fyrir mörgum árum. Það gafst illa, olli óánægju og mismunun, og ég vona, að hæstv. menntmrh. sjái sér fært að finna aðrar leiðir til úrlausnar á þessum vanda en að grípa til þess að takmarka fjölda nemenda á þessu sviði, þar sem þörfin er brýn, og í raun og veru bíður öll þjóðin eftir lausn á læknaskortinum.

Varla getur verið fjárskorti um að kenna, vegna þess að á undanförnum árum hefur háskólahappdrættið haft tugi millj. kr. í tekjur. Þessum tugmillj. kr. tekjum árlega hefur verið varið til ýmissar byggingarstarfsemi innan Háskólans. Það hefur verið byggt yfir lögfræðideildina, það er verið að byggja yfir verkfræðideildina, það hefur verið byggð raunvísindadeild, það hefur verið keypt húsnæði undir náttúrugripasafn og ýmsar aðrar ráðstafanir gerðar, en læknadeildin virðist hafa farið gersamlega varhluta af þessum framkvæmdum. Og nú vildi ég gjarnan fá upplýst, hvernig á þessu stendur. Það getur varla verið, að deildin hafi ekki verið tilbúin til byggingar, vegna þess að það eru 15 ár síðan læknadeildarhús var í raun og veru teiknað, og ég fæ ekki séð neinar eðlilegar ástæður fyrir þessu, hve gífurleg hornreka læknadeildin virðist hafa verið innan Háskólans.

Hvað ástandið er alvarlegt í þessum efnum, kemur kannski best fram í áliti, sem háskólaráð hefur látið frá sér fara og með leyfi hæstv. forseta langar mig til að lesa hér skýrslu frá fundi háskólaráðs, er haldinn var 1. nóv. 1973, þar sem hann beinir þeim tilmælum til menntmrn. og læknadeildar, að kannaðar verði til hlítar hugsanlegar leiðir til þess að komast hjá að beita heimildum um takmörkun á tölu stúdenta, sem halda áfram námi í læknadeild að afloknu prófi fyrsta árs 1974.

„Háskólaráði er ljóst, að til þess að komast hjá takmörkunum, er brýn nauðsyn, að eftirfarandi ráðstafanir verði gerðar:

a. Hinn bráði húsnæðisskortur pre- og paraklínískra greina verði leystur með verksmiðjuframleiddum einingahúsum, sem notuð verði sem rannsóknarstofur og kennsluhúsnæði fyrir áðurnefndar greinar, þannig að þeim séu sköpuð nokkur þróunarskilyrði og kennurum greinanna starfsaðstaða, á meðan undirbúningur og framkvæmdir nýbygginga standa yfir. Nauðsynlegt er að taka í notkun fyrsta húsrými af þessu tagi fyrir rannsóknarstarfsemi og kennslu haustið 1974.

b. Nauðsynlegt er, að klínísk kennsla á Borgarspítala og St. Jósefsspítala komist á fastan grundvöll, en frumskilyrði þess er, að læknadeild fái allar þær 8 hlutadósentsstöður við sjúkrahúsin, sem um var beðið á þessu ári. Einnig er nauðsynlegt, að eftirtaldar kennarastöður, sem synjað hefur verið um, fáist inn á fjárl. fyrir árið 1974:

1. Tveir lektorar í heimilislækningum, að öðrum kosti verður ekki unnt að hefja kennslu í heimilislækningum eins og fyrirhugað er, og mundi þá kennsla í læknadeild á 5. ári að líkindum stöðvast um áramótin 1974–1975.

2. Prófessorsembætti í félagslækningum. Samkv. þróunaráætlunum læknadeildar á kennsla í þeirri grein að hefjast árið 1975. Minnsti undirbúningstími fyrir þetta starf er eitt ár.

3. Einn dósent í hálfu starfi í lífeðlisfræði. Staða þessi er óhjákvæmileg vegna breyttra kennsluhátta á 1. námsári.

Aðrar kennarastöður og fjárveitingar, sem synjað hefur verið um, þola aðeins skamma bið. Niðurskurður á fé til tækjakaupa læknadeildar á s. l. árum háir nú kennslu og rannsóknargetu læknadeildar. Þá er brýn nauðsyn að fá nú þegar deildarfulltrúa og ritara í hálfu starfi fyrir læknadeild. Við núv. aðstæður er óhæfilega mikill starfstími kennara bundinn við stjórnunarstörf.

c. Gengið verði nú þegar frá byggingaráætlun og endanlegu skipulagi á sameiginlegri lóð Landsspítala og læknadeildar og verði ákvarðanir í þessum efnum teknar í samráði við Háskóla Íslands.

d. Gerð verði framkvæmda- og fjármögnunaráætlun fyrir næstu 6–10 árin. Fjárveitingar verði veittar til bygginga í heild og stofnaður verði framkvæmdasjóður fyrir allar byggingar á nefndri lóð. Þetta fyrirkomulag mun tryggja best hagkvæma nýtingu fjármagns og samfelldar framkvæmdir með eðlilegum hraða, þannig að áætlunin geti staðist. Allar framkvæmdir verði undir einni yfirstjórn mannvirkjagerðar á sameiginlegri lóð Landsspítala og Háskóla, því að ætla má, að þetta fyrirkomulag sé öruggasta leiðin til þess að fá samfellda og skipulega uppbyggingu, er tryggi samfellda nýtingu mannvirkja.

f. Ráðnir verði arkitektar á frjálsum markaði og skipaðar nú þegar hönnunarnefndir til byggingar A og C. Undirbúningi öllum að byggingum þessum verði flýtt svo sem unnt er, svo að unnt verði að hefja framkvæmdir í lok næsta árs eða byrjun ársins 1975.“

Af þessu sést, að ekki einungis hefur verið sleifarlag á byggingarframkvæmdum Háskólans eða læknadeildar Háskólans, heldur kemur hér einnig greinilega fram, að neita þurfi um bráðnauðsynlega útfærslu og aukna starfsemi við kennsluna. Neitað hefur verið um ýmsar þær fjárveitingar, sem læknadeildin hefur farið fram á til síns rekstrar, og þar með tafið t. d. það mikilvæga hlutverk Háskólans að stofna sérkennslu í heimilislækningum, sem öllum ber þó saman um, að sé mikil nauðsyn vegna dreifbýlisins. Í þessu skjali kemur greinilega fram, að það er bæði rekstur læknadeildarinnar og byggingarstarfsemi hennar, sem er hörmulega vanrækt, og vænti ég, að hæstv. menntmrh. geti gefið okkur þm. einhverja skýringu á þessu háttalagi.