20.03.1974
Efri deild: 84. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2980 í B-deild Alþingistíðinda. (2657)

113. mál, skipulag ferðamála

Félmrh. (Björn Jónsson):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. samgn, fyrir afgreiðslu hennar á þessu máli. Hún hefur að vísu tekið nokkurn tíma, eins og vænta mátti, og það hefur vafist fyrir, að málið gæti verið tekið hér til umr., líka nokkurn tíma til viðbótar, þó að það sé búið að vera á dagskrá hér í um það bil hálfan mánuð. Ég vona, að þetta komi ekki að sök og að málið geti fengið framgang á þessu þingi, enda tel ég mjög mikilsvert, að það líði ekki annað þing svo eða við þurfum ekki þriðja þingið til þess að geta komið þessu máli heilu til hafnar.

Ég vil þá jafnframt lýsa sérstakri ánægju minni yfir því, að hv. samgn, hefur orðið sammála um öll þau atriði, sem ég tel meginmáll skipta varðandi þetta frv., megintilgang þess, og að hér sé um spor í rétta átt að ræða til þess að skipuleggja ferðamálin með þeim hætti, sem okkur er sæmandi, og með sérstöku tilliti til náttúruverndarsjónarmiða. En í eldri l. var yfirleitt ekki minnst á náttúruvernd, en með þessum nýju l. var það gert að einu höfuðverkefni Ferðamálastofnunarinnar að samræma eðlilega þróun ferðamála við náttúruverndarsjónarmið.

Þrátt fyrir þetta hafa verið fluttar allmargar brtt. við frv., og er ég ekkert hissa á því. Hér er um stóran lagabálk að ræða og ekki nema eðlilegt, að skiptar skoðanir geti verið um einstök atriði, enda auðséð, að það geti vafist fyrir ýmsum afstaða til sumra þeirra brtt., sem hér eru fluttar. Ég tel enga þessara brtt. vera þess eðlis, að þær muni spilla þeim megintilgangi, sem í frv. felst, og ætla mér því ekki að leggja neitt ofurkapp á það, hvernig fer um afgreiðslu þeirra. Þó vil ég segja, að ég tel þær till., sem koma frá samgn., yfirleitt ekki neitt veigamiklar, en þær séu yfirleitt til bóta, og sé ekki ástæðu til þess að fjalla sérstaklega um þær, að undantekinni 2. brtt., sem ég fyrir mitt leyti er andvígur, ekki sérstaklega kannske vegna þess, að hún hafi svo mikil áhrif á þetta frv., heldur tel ég hér vera um óeðlilega skipan að ræða, þ.e.a.s. nú, þegar tekin eru inn í íslenska ferðamálalöggjöf sérstaklega mikilsverð ákvæði um náttúruvernd, þá sé ekki jafnframt sérstök ástæða til þess að skipa eins konar sérstakan pössunarmann frá náttúruverndarráði í stjórn Ferðamálastofnunarinnar. Ég verð að segja, að ef það er ástæða til þess, að náttúruverndarráð skipi mann í stjórn þessarar stofnunar, þá væri miklu ríkari ástæða til þess, að náttúruverndarráð skipaði mann í stjórn þessarar stofnunar, til þess að gæta náttúruverndarsjónarmiða t.d. í stjórn fyrirtækja eins og álverksmiðjunnar, áburðarverksmiðjunnar eða einhvers þvílíks, sem vafi getur leikið á, að ekki sé háskalegt umhverfinu, því að ég vil ekki viðurkenna, að ferðamenn almennt, hvorki útlendingar né innlendir, séu sérstakir skaðvaldar gagnvart íslenskri náttúru. Og ég held, að ef ofan í það væri farið, hvar ljótust eru viðskipti okkar við náttúruna, þá séu það ekki ferðamenn, sem þar eiga hlut að máli, heldur allt aðrir aðilar. Ég tel líka, að það sé kveðið svo fast á um það í þessum l. og það sé meining allra, að það sé gott samstarf við ferðamálaráð og náttúruverndarsjónarmiða gætt svo ítarlega sem kostur er, að ekki sé nein sérstök ástæða fyrir þessari einstæðu stjórnarþátttöku náttúruverndarráðs.

Ég segi þetta ekki vegna þess, að ég telji neina hættu stafa af þessu út af fyrir sig. Það hefur verið mjög gott samband og samstarf með náttúruverndarráði og samgrn. um ferðamál og önnur þau mál, sem það varðar sérstaklega, og m.a. hefur verið komið á sérstakri samstarfsnefnd með samgrn. og náttúruverndarráði. Og ég tel það ásamt þeim lagaákvæðum, sem hér er um að ræða og eiga að tryggja einmitt sénstakt tillit til náttúruverndar, vera nægilegt, þó að ekki komi til sérstök þátttaka. Ég bendi fyrst og fremst á þetta vegna þess, að sé þetta samþykkt núna, þ.e.a.s. 2. brtt. á þskj. 451, þá hygg ég, að með samjöfnuði muni leiða af því mjög viðtæka þátttöku náttúruverndarráðs í stjórnum margs konar annarra fyrirtækja en þeirra, sem fjalla um ferðamál, og það tel ég hæpið. Náttúruverndarráð hefur miklum og mjög mikilsverðum málum að sinna, og það er ekki nema gott um það að segja á allan hátt og sjálfsagt fyrir alla aðila, sem um slík mál fjalla, sem það snerta, að eiga við það góða samvinnu. En mér sýnist ekki, að það þurfi endilega að þýða, að náttúruverndarráð sé sjálfkjörinn stjórnaraðili í hinum ýmsu stofnunum, sem hér gæti verið um að ræða. Það er þess vegna síður en svo, að það sé af einhverri óvild til náttúruverndarráðs, sem ég bendi á þetta, og ég lýsi yfir, að ég er lítið hrifinn af þessari brtt., þó að ég hins vegar óttist á engan hátt, að gott samstarf geti ekki orðið með náttúruverndarráði og þeirri nýju stofnun, sem hér er gert ráð fyrir, að stofnuð verði.

Um aðrar till. á þskj. 451 ætla ég ekki að fjölyrða. Ég tel þó varðandi 5. brtt., að ef ferðamálaráð á á annað borð að vera til og starfa, sem hv. þm. Jón Árnason og Steinþór Gestsson leggja hins vegar til, að verða lagt niður, þá tel ég það vera til þess að styrkja ferðamálaráðið og samband þess milli ferðamálaþings annars vegar og Ferðamálastofnunarinnar hins vegar, að ferðamálaþingið kysi formann þess, en ekki ferðamálaráðið sjálft, en þetta er auðvitað smáatriði, sem ég ætla ekki að gera að neinu kappsmáli.

En það eru þá aðeins örfá orð líka um till. þeirra hv. þm. Jóns Árnasonar og Steinþórs Gestssonar. Þær till., sem þar skipta höfuðmáli, eru tvær. Það er annars vegar, að ferðamálaráð verði lagt niður, og hins vegar, að kaflinn um sölustarfsemi verði felldur niður úr verkefnaskrá Ferðamálastofnunarinnar, en í stað þess verði heimilað, að ríkið reki venjulega ferðaskrifstofu. Ég játa það alveg fúslega, að fyrir þeirri afstöðu, að Ferðaskrifstofan skuli ekki vera undirdeild í Ferðamálastofnun Íslands, eru talsverð rök, sem má færa, og hér getur verið um fullkomið álitamál að ræða. En það, sem gerir það, að ég tel þann hátt hefur við hæfi og heppilegri, sem lagður er til í frv., heldur en þeir hv. þm. Jón Árnason og Steinþór Gestsson leggja til, eru fyrst og fremst praktískar ástæður, fjármálalegar ástæður. Það hefur verið hugmyndin, að þó að þetta frv. verði samþ., verði ekki farið að búa til neitt stórkostlegt mál, sem væri stærra eða kostnaðarmeira en það, sem nú á sér stað, þ.e.a.s. það, sem nú er falið annars vegar í starfsemi Ferðaskrifstofunnar og hins vegar í starfsemi og skrifstofuhaldi ferðamálaráðs. Hér væri fyrst og fremst um að ræða sameiningu þessara tveggja þátta í okkar ferðamálastarfsemi og ætti ekki að verða miklu kostnaðarfrekara heldur en þessar tvær stofnanir eru nú. En hitt er svo rétt hjá hv. þm. Jóni Árnasyni, að venjulegum samkeppnissjónarmiðum væri e.t.v. betur þjónað með því, að þau væru algerlega aðskilin og væru rekin á nákvæmlega sama grundvelli og aðrar ferðaskrifstofur, en þó með sérstökum verkefnum, sem hann nefndi, þ.e.a.s. að sjá um farmiðaútveganir og aðra fyrirgreiðslu fyrir opinbera starfsmenn, sem ferðast til útlanda á vegum hins opinbera, og hins vegar rekstur á hótelum í heimavistarskólum. En ég tel það vera alveg auðsætt, að ef hér á að skilja algerlega í milli og hér á að vera um algerlega sjálfstæða ferðaskrifstofu að ræða, sem rekin er í svipuðum tilgangi og aðrar ferðaskrifstofur, þá verði um aukinn kostnað að ræða í sambandi við þessa starfsemi samanlagða, og það tel ég, að beri að forðast, eftir því sem frekast er unnt.

Það verður líka að gæta þess, að Ferðaskrifstofa ríkisins hefur haft og hefur allmikla sérstöðu meðal íslenskra ferðaskrifstofa. Almennar ferðaskrifstofur hafa fyrst og fremst verið reknar í þeim tilgangi að greiða fyrir ferðum Íslenginga til útlanda. En það má segja, að ferðaskrifstofur, að líklega fleiri en einni ferðaskrifstofu undantekinni, hafi einbeitt sér að þessu verkefni, en ekki að því að greiða fyrir komu útlendinga hingað. Enda er það nú svo, að það hallar heldur á. Ferðalög Íslendinga til útlanda vaxa miklu örar en ferðalög útlendinga til Íslands, þannig að þar er verulegur áhalli. Meining þeirra, sem sömdu frv. með þessari skipan, sem lögð er til þar um þessi mál, hefur áreiðanlega verið sú að spara fé, umstang og fyrirhöfn með því að hafa þetta undir einu þaki og reka þetta að nokkru leyti sem eina stofnun. Og ég, eins og ég sagði, viðurkenni, að gegn því eru nokkuð gild rök, sem ég tel þó ekki það veigamikil, að þau jafni þarna þau fjárhagslegu met, sem um getur verið að ræða. Þess er líka að geta varðandi Ferðaskrifstofu ríkisins, að hún hefur tekið að sér verkefni, sem einkaframtakið og aðrar ferðaskrifstofur mundu ekki vera fúsar til að taka að sér, m.a. rekstur sumarhótelanna, sem hafa orðið til þess að halda uppi talsvert góðum „standard“, ef svo illa má að orði komast, í hótelrekstri úti um landið, og það væri tæpast fýsilegt að bjóða hingað útlendum ferðamönnum og skipuleggja ferðir þeirra um landið, ef ekki væri þessi hótelrekstur, sem yfirleitt hefur verið til fyrirmyndar, En þar hefur þessi stofnun orðið að taka súrt með sætu, og til þess að geta myndað nokkuð samfellt og verulegt hótelkerfi um landið, þá hefur hún líka orðið að taka á sig að reka hótel, sem hefur verið gefið tap á og ekkert einstaklingsfyrirtæki mundi hafa tekið að sér að reka.

Það er kannske rétt að koma aðeins inn á fjármál Ferðaskrifstofunnar. Ég tel það alveg rétt hjá hv. þm. Jóni Árnasyni, að þau rök, sem færð eru í frv., voru kannske gild á sinni tíð, að Ferðaskrifstofan væri mjög arðgefandi fyrirtæki og væri til þess fallin að standa undir öðrum rekstri en ferðamálum stofnunarinnar. En því er ekki fyrir að fara, eins og ástandið er núna. Það er rétt hjá honum, að fjárhagur Ferðaskrifstofu ríkisins er ákaflega erfiður um þessar mundir og ekki trúlegt, að rætist úr því a.m.k. á þessu ári, því að ferðamannastraumur til landsins mun fara sennilega minnkandi. Landið er orðið dýrt ferðamannaland núna, og allt bendir til þess, að Ferðaskrifstofa ríkisins verði ekki rekin með hagnaði þrátt fyrir þann tekjustofn, sem hún hefur, reyndar mun nú verða trúlega klipið eitthvað af, vegna þess að viðkomandi aðilar virðast ekki vera færir um að inna þær greiðslur af hendi, Þar er ekki um að ræða tekjustofn fyrir hina almennu ferðastarfsemi.

Hitt er svo annað mál, að allir, sem koma nálægt ferðamálum og eiga þar ríkastra hagsmuna að gæta eins og flugfélögin og margir slíkir, sem eiga þar mikinn hlut að máli, leggja ákaflega mikið kapp á, að Ferðaskrifstofan haldi áfram starfsemi sinni, hæði landkynningarstarfsemi og, alveg sérstaklega þeim hótelrekstri, sem fer fram í hinum svokölluðu Edduhótelum og gerir mögulegra en annars væri að laða útlenda ferðamenn til landsins. En ég tel það alveg rétt hjá hv. þm., að hér getur ekki verið um að ræða a.m.k. í bili, — við skulum vona, að úr rætist, — að Ferðaskrifstofa ríkisins geti lagt mikið fé til þessara mála, og munar minna en ekkert. En sem sagt, ég er heldur andvígur þessari till. og geri ráð fyrir, að ég greiði atkv. á móti henni, að Ferðaskrifstofan verði ekki þáttur í hinni almennu ferðamálastofnun landsins og verði gerð að sérstakri ferðaskrifstofu í beinni samkeppni við aðrar ferðaskrifstofur, sem hún raunar ekki er nema að ákaflega litlu leyti nú, því að hennar starfssvið er annað. Hún hefur lagt áherslu á svið, sem hinar ferðaskrifstofurnar hafa ekki kært sig um að sinna nema þá í ákaflega litlum mæli, en hefur hins vegar fjárhagslega og þjóðhagslega þýðingu og fjárhagslega þýðingu fyrir ýmsa, sem að ferðamálum starfa.

Um það, hvort ferðamálaráð skuli lagt niður, sem er önnur aðaltill. þeirra hv. þm. Jóns Árnasonar og Steinþórs Gestssonar, þá er ég því heldur andvígur. Ég álít, að ferðamálaráð sé og geti verið — eigi að vera samkv. frv. fastur tengiliður m.a. milli ferðamálaþings, sem ég geri ráð fyrir, að verði að verulegu leyti setið af þeim, sem hafa stundað ferðaskrifstofurekstur og hafa beina hagsmuni í sambandi við ferðamálin, og sé ekki nægilegt, að þessir aðilar komi saman árlega, ef ekki er neinn sá tengiliður, sem bindur þetta saman frá degi til dags og frá mánuði til mánaðar, þannig að ég tel tilvist ferðamálaráðs vera til bóta. Frv. gerir í raun og veru ráð fyrir, að ferðamálaráð starfi á svipaðan hátt og það nú gerir, og ég tel, að það hafi verið oft og tíðum hollur ráðgjafi og hafi haldið ýmsum málum lifandi, sem annars hefðu á ýmsan hátt orðið út undan.

Það er svo annað mál, að mér finnst ferðamálaráð ekki hafa staðið sig sérstaklega vel í sambandi við umsögn um þetta frv., og get tekið undir með hv. þm. Jóni Árnasyni um það, að mér finnst nokkuð seint, að þeir séu að tilkynna nú, þegar málið er komið úr n., að þá muni þeir einhvern tíma síðar skila sínu áliti. Hins vegar kemst ég þá ekki hjá að nefna það, að einn af þeim mönnum, sem lögðu mikið í að semja þetta frv., var framkvæmdastjóri ferðamálaráðs, og ég geri ráð fyrir því, að á hverju stigi málsins hafi ferðamálaráði verið vel kunnugt um, hvernig með það var farið, og a.m.k. hefur það haft ærinn tíma nú til þess að skoða frv. niður í kjölinn og gera sínar till. Hins vegar er skipan ferðamálaráðs þannig núna, að þess er kannske ekki að vænta, nema það taki nokkurn tíma, tekst kannske tiltölulega sjaldan, að það geti verið algjörlega einhuga í slíkum málum. Og það er ekkert óeðlilegt við það, að samkomulagið geti verið þar svolítið misjafnt. Hins vegar gerir frv. ráð fyrir öðruvísi skipan ferðamálaráðs en áður hefur verið, sem ég tel heldur til bóta þessu fyrirtæki, að þessari stofnun færi frekar fram við þá breytingu heldur en því færi aftur. Þessum tveimur till. þeirra hv. fulltrúa Sjálfstfl. í samgn. er ég þess vegna heldur andvígur, en get hins vegar verið samþykkur sumum till. þeirra, eins og t.d. varðandi 8. gr., og jafnvel sumum fleiri, sem mér finnst frekar vera til bóta. En eins og ég sagði áður, þá tel ég um afdrif þessara till., bæði þeirra, sem eru frá samgn., og reyndar rekast þær að nokkru leyti á við till. þeirra minnihlutamanna, en hvernig sem um þær fer, þá tel ég, að enginn sérstakur skaði sé skeður varðandi það meginefni, sem frv. fjallar um.

Ég vil taka undir með hv. þm. Jóni Árnasyni, að ég er alveg samþykkur þeirri till., sem er á þskj. 420 frá Ragnari Arnalds varðandi húsnæði heimavistarskóla. En það má vel vera, að það sé rétt hjá honum, að sú brtt. eigi heldur heima í öðrum 1., um það skal ég ekki dæma. Mér var einu sinni kennt, að það mætti allt standa í lögum, sem ekki væri bannað í stjórnarskránni, og ekki hugsa ég, að þetta sé stjórnarskrárbrot, að þetta væri í þessum lögum. En það má vera, að það sé ekki alfullkomið, óaðfinnanlegt lagaform, að þetta sé í þessum l., en ég sé þó ekki, að neinn skaði væri skeður við það. En það er auðvitað rétt, að það er annað rn., sem þarna kemur við sögu.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til þess að hafa um þetta fleiri orð, en ég vil endurtaka þakkir mínar til n, og ánægju mína yfir því, að menn eru sammála um aðalatriði þessa mikilvæga máls, sem hér er verið að ræða um.