20.03.1974
Efri deild: 84. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2986 í B-deild Alþingistíðinda. (2659)

113. mál, skipulag ferðamála

Frsm. (Páll Þorsteinsson):

Herra forseti. Ég vil nú ekki lengja þessar umr. og skal láta nægja að taka fram aðeins í örfáum orðum það, sem ég vildi segja um tvö atriði málsins. Það er fram tekið í nál., eins og ég skýrði frá, að einstakir nm. áskildu sér rétt til þess að flytja frekari brtt. heldur en þær, sem eru fluttar sameiginlega af n. Brtt. á þskj. 463 eru því fram bornar algerlega í samræmi við það, sem segir í nál., enda voru þau sjónarmið, sem þar koma fram í aðalatriðum kynnt í n. Efnisatriði í brtt. á þskj. 463 eru aðallega tvö. Annað er það, að Ferðaskrifstofa ríkisins verði látin starfa áfram sem sjálfstæð stofnun, og hitt er það, að ferðamálaráð verði með öllu lagt niður.

Það er eitt af meginatriðum frv. sjálfs, eins og það er úr garði gert, að sameina starfsemi nú. ferðamálaráðs og Ferðaskrifstofu ríkisins, og ég fyrir mitt leyti met þau rök, sem í frv. eru færð fyrir þessari skipulagsbreyt., og lét það koma fram í umr. í n. og mun því ekki fyrir mitt leyti geta fylgt þessum till. þeirra tveggja þm., sem flytja till. á þskj. 463.

Hitt efnisatriðið er að leggja ferðamálaráð niður. Mér þykir rétt í því sambandi að taka fram til skýringar, að þótt nafnið sé hið sama, ferðamálaráð, þá er miðað við, að það ferðamálaráð, sem starfa á samkv. frv., ef að lögum verður, sé allt önnur n, eða n. skipuð á allt annan veg heldur en það ferðamálaráð, sem starfar samkv. gildandi l., er þannig skipað, að það eru tilteknar stofnanir, sem velja menn í þá n. En það ferðamálaráð, sem á að koma á fót samkv. frv., verður framkvæmdanefnd ferðamálaþings. Það er kosið af því og á á milli ferðamálaþinga að fjalla um þau málefni, sem þar eru rædd og ályktað um.

Nú er það svo í félagsmálum hjá okkur, að það þykir sérhverjum félagssamtölum nauðsynlegt að kjósa stjórn eða framkvæmdanefnd, sem starfar milli þinga að þeim málum, sem rædd eru á þingum og snerta þá félagsmálastarfsemi, sem um er fjallað. Álit mitt er, að það muni styrkja aðstöðu ferðamálaþings að hafa slíka n. starfandi milli þinga. Þetta er það sjónarmið, sem mér þykir eðlilegt, að tekið sé til greina, og ég mun því ekki sjá mér fært að styðja það, að ferðamálaráð verði með öllu lagt niður í þeirri mynd, sem það á að starfa samkv. frv.

Út af aths. hæstv. ráðh. í sambandi við brtt. um skipun stjórnar Ferðamálastofnunar Íslands vil ég aðeins taka fram, að það sjónarmið, sem þar liggur til grundvallar, er vitanlega það, að hinir fegurstu og viðkvæmustu staðir hér á landi eru mjög eftirsóttir af ferðamönnum. Þetta eru þeir staðir, sem náttúruverndarráð á samkv. starfssviði sínu fyrst og fremst að hafa gætur á, að ekki sé ofboðið í sambandi við ferðamannahópa og umgengni þar sé eðlileg og þjóðinni ekki til vansæmdar, Með tilliti til þessa sjónarmiðs er lagt til, að náttúruverndarráð tilnefni einn mann í stjórn Ferðamálastofnunar Íslands til þess að það hafi á þann hátt bæði aðstöðu, rétt og skyldu til þess að gefa því gætur, að á þessu verði ekki misbrestur, þ.e. umgengni á hinum viðkvæmustu og fegurstu stöðum landsins í sambandi við straum innlendra og erlendra ferðamanna þangað.