20.03.1974
Neðri deild: 87. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2995 í B-deild Alþingistíðinda. (2678)

259. mál, skattkerfisbreyting

Bjarni Guðnason:

Herra forseti. Það sanngirnismál að létta níðþungri skattabyrði, tekjuskattsbyrði, af láglauna- og miðlungstekjufólki í landinu er leyst með þeirri óhæfu að hækka söluskatt um 4 stig. Landsmenn hafa að undanförnu kynnst þeim gífurlegu verðhækkunum, sem eiga sér stað og virðist enginu endir á. Getur það þá verið rétt stefna að auka enn á vöruverð í landinu með þessu móti? Ég er sannfærður um það, að það er óhæfa, röng stefna, að leggja á 4 söluskattsstig, eins og nú háttar í verðlagsmálum þjóðarinnar.

Ég get ekki látið hjá líða, úr því að þetta svokallaða skattkerfisbreytnigarmál er enn á vappi í þessari d., að víkja dálítið að kjarasamningum þeim, sem voru gerðir milli aðila ASÍ og vinnuveitenda fyrir skömmu. Ég hygg, að þessir kjarasamningar séu með eindæmum í sögu verkalýðshreyfingarinnar fyrir margra hluta sakir, og vil ég þá strax koma að meginatriðinu. Stefnan var fyrst og fremst að bæta kjör láglaunafólks í landinu. Þetta var meginstefnan. Síðan gerist það nokkrum dögum síðar, að það er viðurkennt af sjálfum höfuðmönnum samningagerðar Alþýðusambandsins, að þessi meginstefna hafi í verulegum atriðum brugðist. Á nokkrum dögum eru teknar af láglaunafólkinu og flestum launþegum þær kjarabætur, sem áttu að falla þeim í skaut.

Annað atriði, sem er e.t.v. merkilegra, er, að ljóst var við samningagerðina, að ætlunin var að velta kjarabótum launþega skjótlega yfir í verðlagið. Þetta lá fyrir, eins og þegar hefur komið fram með þeim hækkunum, sem orðið hafa á smásöluverði vörunnar. En það undarlega í þessu er það, að verkalýðssamtökin skuli leyfa sér undir þessum kringumstæðum að semja til rúmlega tveggja ára. Til hliðsjónar má hafa það, að samningar hafa átt sér stað í Svíþjóð nú fyrir skömmu, og það voru gerðir rammasamningar. Þar gerðu alþýðusamtökin samning til eins árs, vegna þess að efnahagsástandið þótti ótryggt, og þó er verðbólgan þar þrisvar sinnum minni. Það, sem ég á við, er þetta og væri vert að fá að vita, hvernig það getur átt sér stað, að verkalýðsforustan skuli við þær aðstæður, sem nú ríkja, vitandi vits, að af fólkinu eru kjarabæturnar teknar eftir 2—3 vikur, leyfa sér að semja til meira en tveggja ára. Er ekki svarið pólitískt? Þetta er ekki hagsmunabarátta launþeganna, heldur er þetta fyrst og fremst flokkspólitíska staðan í landsmálunum.

Síðan kemur þriðji anginn, og það eru þessar dæmalausu kerfisbreytingar, sem hér eru í skattamálum, sem eru angi af vandamálinu. Hér er um algera stefnubreytingu að ræða í skattamálum af hálfu Alþýðusambandsins, og þetta er samþ. á einni eða tveimur nóttum. Þá gerist það, að verkalýðshreyfingin hverfur frá því grundvallarsjónarmiði, að tekjuskatturinn eigi að vera til tekjujöfnunar í landinu, heldur almennur söluskattur, það sé helsta hagsmunamál launþegafólks. Þetta er með meiri endemum en mér er kunnugt um.

Og hverjir hagnast nú mest á skattkerfisbreyt.? Það eru fyrst og fremst hátekjumennirnir, auðvitað, eins og alltaf hefur verið .Og síðan þarf þessi ríkisstj., sem hefur verið svo óheppin, eða hvernig menn vilja orða það, — að búa til þessa níðþungu tekjuskattslöggjöf, að losa sig frá henni. Þá er ríkisstj. að kaupa sér samtakamátt verkalýðshreyfingarinnar til þess að koma sér út úr þessari tekjuskattslöggjöf og frá henni.

Ég held því fram, að þessi skattkerfisbreyt. er launþegum og aðilum innan Alþýðusambands Íslands til mikillar óþurftar og alls ekki í samræmi við hagsmuni þeirra. Hitt er svo annað mál, að það var þörf á tekjuskattslagfæringum, og það var krafa verkalýðsfélaganna. En hvað merkja lagfæringar á tekjuskatti? Það fyrst og fremst, að tekjuskatturinn sé lækkaður .og heildarskattbyrðin sé lækkuð. Og ég hygg, að það eigi eftir að verða þung raun fyrir forustumenn Alþýðusambandsins eða þeirra samningsaðila að sannfæra sína aðila síðar meir, þegar dýrtíðin vex í landinu og söluskattsstigið verður komið á annan milljarð, að þetta sé til mikilla hagsbóta fyrir launþega í landinu.

Síðan kemur svo stjórnmálahliðin á þessari vitleysu, þegar hæstv. fjmrh. fer að tala um, að það sé óvirðing við alþýðusamtökin að samþykkja ekki svona kerfisbreytingu, — óvirðing. Þetta er náttúrlega fáránlegt. Auðvitað setur Alþýðusambandið ekki löggjöf í þessu efni. Ég vil benda á það, að Alþýðusamband Íslands hefur innan sinna véhanda ekki helming af vinnandi fólki í landinu, og því skyldi þá þessi aðili taka sér það vald í hendur að leggja söluskatt á alla landsmenn. Síðan kemur hæstv. fjmrh. og er undrandi, að við skyldum óvirða alþýðusamtökin. Þetta er að snúa hlutunum við.

M.ö.o.: ég held því fram, að þessi stefnubreyting Alþýðusambands Íslands í skattamálum, eins og hún birtist, sé ekki aðilum þeirra til hagsbóta, og það sem enn verra er e.t.v., þegar á heildina er litið, er, að það er ekki til meiri fjarstæða, eins og sakir eru í efnahagsmálum, en að koma með 4 söluskattsstig ofan á það, sem fyrir er. Ég hef margsagt, að þessi stefna er fólgin í því að láta eins og ekkert sé að í efnahagsmálum þjóðarinnar.

Hæstv. fjmrh. hefur nú lagt fram till. fyrir hönd ríkisstj. um að fækka söluskattsstigunum í 4. Þetta breytir ekki minni afstöðu til þessa frv. Ég tel, að heildarstefnan sé röng, og mun því ekki styðja þetta. Hins vegar get ég ekki varist, að það kemur dálítið undarlega fyrir sjónir, þegar hæstv. fjmrh. er búinn að lýsa því yfir við öll tækifæri, í sjónvarpi, í útvarpi, hér á þingi, báðum d., hvar sem vera skal, alls staðar, að ekkert nema 5 stig koma til greina undir neinum kringumstæðum. Síðan eru stigin allt í einu orðin 4. En ég verð að segja það, að það er ekki von, að alþýða manna beri mikla virðingu fyrir stjórnmálamönnum, þegar þeir haga sér svona. Í raun og veru virðist mér ekkert að marka, hvað stjórnmálamenn segja. Þeir fullyrða hitt og þetta og síðan gerbreyta þeir um stefnu næsta dag. Það er ekki von, að þjóðin hafi mikið álit á forustumönnum sínum.

Ég fagna ummælum forsrh. varðandi niðurskurð á fjárl. Þetta er það, sem ég hef verið að prédika fyrir daufum eyrum í á annað ár, því að ég tel, að hin eina raunhæfa tekjuskattslækkun náist með niðurskurði á fjárl. Þá gerist nefnilega tvennt: Annars vegar tekjuskattslækkun og hins vegar verulegur þáttur í að sporna gegn verðþenslunni og verðbólgunni í landinu. Þetta gerist tvennt. Þetta merkir þá, að loksins eru stjórnarherrarnir farnir að vitkast ofurlítið og farnir að átta sig á þeim vanda, sem við er að glíma. Það er fram undan 40% verðbólga í landinu og nú loksins er farið að örla á því, að þeir hafi hug á því að gera einhverjar ráðstafanir í verðlagsmálum og verðbólgumálum. Batnandi manni er best að lifa. Ég fagna því mjög þessari yfirlýsingu hæstv. forsrh. og vona, að þessi niðurskurður verði einn liður í öðrum þeim aðgerðum, sem verða til þess að bægja á þessari verðbólgu. En ég vil aðeins leggja megináherslu á það, að ég tel söluskattshækkun hið mesta glapræði, hvernig sem á er litið. Það er algerlega í andstöðu við byggðastefnu ríkisstj. þ.e.a.s. það verður dýrari neysluvarningurinn fyrir fólkið úti á landsbyggðinni með hækkun söluskatts, því að hann leggst á flutningsgjöld, og þetta er í andstöðu við stefnu ríkisstj. Þetta er andstætt hagsmunum launafólks, þetta er andstætt heilbrigðum atvinnurekstri, og það eykur enn á erfiðleikana í verðlagsmálum, magnar verðbólguna. Hér er verið að velta vandanum á undan sér, og það þjónar ekki þjóðarhagsmunum.

Ég vil að lokum aðeins segja það, að mér virðist málin hafa þróast þannig, að það þurfi að gera róttækar og óvinsælar aðgerðir eða ráðstafanir í efnahagsmálum. Og ég hygg, að stjórnmálaflokkarnir muni vera ófúsir til þess að gera það rétt fyrir kosningar. Þess vegna tel ég nú eðlilegt og sjálfsagt, eins og málin standa, enda er ríkisstj. vængbrotin, að vísa þessum málum til þjóðarinnar, þannig að ný stjórn taki við og fái þá umboð um það langan tíma, að hægt sé að gera einhverjar raunverulegar ráðstafanir. Þess vegna verður ekki þjóðinni gerður meiri skaði en ef hér situr magnlítil ríkisstjórn, sem hefst ekkert að í þessum brýnu málum þjóðarinnar, og þess vegna er það ábyrgðarhluti að láta þetta dankast. Og þess vegna væri rétt, sjálfsagt og nauðsynlegt að hafa alþingiskosningar sem fyrst, þannig að það reynist þeim, sem við tækju, unnt að gera nauðsynlegar ráðstafanir í verðlags- og verðbólgumálum.