20.03.1974
Neðri deild: 87. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3012 í B-deild Alþingistíðinda. (2684)

259. mál, skattkerfisbreyting

Fjmrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Ég ætla ekki út í umr, í sambandi við það, sem fram hefur komið hér. Ég vil aðeins svara fsp. hv. 9. landsk. þm, um framkvæmdina á kössum þeim, sem gert er ráð fyrir í lagafrv., að upp verði settir vegna söluskattsinnheimtu. Að sjálfsögðu hafa ekki endanlegar reglur verið samdar um þetta í rn., en það, sem hefur verið rætt um í því sambandi, er í fyrsta lagi að kynna sér í samstarfi við hlutaðeigandi innheimtumenn, þar af leiðandi seljendur í smásölu, hvaða kössum væri hægt að breyta, og taka þá svo eitthvað af kössum til þess að prófa í þessu kerfi.

Það er gert ráð fyrir því, að ríkissjóður verði að hafa einhvern kostnað af þessari tilraun, sem þarna verður gerð. En í stórum mæli verður ekki farið út í þetta, heldur að prófa þetta kerfi, og þá gæti það orðið hreyfanlegt. Þetta er hugsunin, sem á bak við þetta liggur, án þess að fullkomin vinna hafi verið unnin í þessu máli.