20.03.1974
Neðri deild: 87. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3012 í B-deild Alþingistíðinda. (2686)

259. mál, skattkerfisbreyting

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Í upphaflegu frv. hæstv. ríkisstj., var gert ráð fyrir hækkun söluskatts um 5 stig. Það jafngilti hækkun söluskatts um 4 þús. millj. kr. á ársgrundvelli. Þingfl. Alþfl. lagði til, að söluskatturinn hækkaði aðeins um 31/2 stig, eða um 1200 millj. kr. lægri upphæð. Nú hefur hæstv. fjmrh. lækkað upphaflegu till. sína í 4 stig eða sem svarar 800 millj. kr. Jafnframt hefur því verið lýst yfir, að fyrirhuguð hækkun landbúnaðarafurða, sem nema átti 400 millj. kr., komi ekki til framkvæmda. útgjöld almennings verða því 1200 millj. kr. minni en ráð var fyrir gert, þegar frv. var lagt fram, en að því stefndi till. Alþfl. Auk þess hefur því verið lýst yfir af hálfu ríkisstj., að ríkisútgjöld muni verða lækkuð á þessu ári, að því er hæstv. forsrh. sagði hv. Ed., um 1000–1500 millj. kr.

Þingflokkur Alþfl. telur því, að sjónarmið hans hafi orðið sigursæl í þessu máli. Þess vegna greiðir hann atkv. með till.