21.03.1974
Efri deild: 87. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3014 í B-deild Alþingistíðinda. (2692)

239. mál, gjaldmiðill Íslands

Frsm. (Bjarni Guðbjörnsson):

Herra forseti. Fjh.- og viðskn. þessarar hv. d. hefur á fundum sínum fjallað um frv. það, sem hér liggur fyrir. Frv. þetta var sent öllum viðskiptabönkum hér í höfuðborginni og leitað umsagnar þeirra, og hafa bankastjórnir allra þeirra svarað og þær eru sammála um að leggja til, að frv. verði samþ.

Frv. þetta er flutt að tilhlutan Seðlabanka Íslands, og samkv. beiðni Seðlabankans hefur viðskrn. komið á framfæri við fjh: og viðskn. smábreytingu, sem n. hefur tekið upp og flutt sem sína till. á sérstöku þskj.

Efni þessa frv. er í fáum orðum sagt það, að hætt skuli að slá mynt með lægra gildi en krónu. Rökin fyrir þeirri lagabreyt., sem hér er lagt til, að gerð verði, eru m.a. þau, að það er í mjög vaxandi mæli, að heil króna er almennt notuð sem lægsta eining kröfu, reiknings eða verðlagningar. Tíeyringur er orðinn svo lítils virði, að fólk er almennt hætt að nota eða hirða um hann. Hins vegar er það svo, að meðan tíeyringurinn er lögeyrir í allar greiðslur, er Seðlabankanum skylt að halda áfram sláttu þessarar myntar, þótt kostnaður við sláttu hvers tíeyrings kosti nær fjórfalt verðgildi hans. Enda þótt sláttu tíeyringa og 50 aura peninga verði hætt, þykir ekki fært að afnema aura sem einingu í gjaldmiðlinum. Þó má segja, að allt mæli með því, að krónan verði lægsta einingin, bæði reikningslega og greiðslulega, og að ekki sé gerður á munur, hvort greitt er í reiðufé eða t.d. með ávísun á bankareikninga. Þótt þetta frv. verði að lögum, mega einstakir liðir vera í aurum, en samtala reiknings skal ávallt sléttuð út miðað við lægstu slegna einingu, þ.e. krónu samkv. þessu frv.

Brtt. sú, sem n. flytur, er tæknilegs eðlis, því að tölvutæknin lætur ekki að sér hæða hér frekar en annars staðar. Ástæðan er sú, sem fram kemur í bréfi frá viðskrn., að ef 50 aurum eða lægri upphæð er sleppt, eins og það er orðað upphaflega í frv., þyrfti að breyta öllum forskriftum, sem til eru hér á landi, og tölvunotendur mundu ekki geta notfært sér sjálfkrafa upphækkun á alþjóðlegum forskriftum eða stjórnforskriftum. En ef 50 aurar eða hærri fjárhæð er hækkuð, koma þessar forskriftir allar að fullum notum. Breyt. er sem sagt sú frá því, sem frv. gerir ráð fyrir, að 50 aurar og hærri upphæð skal hækka, í stað þess að frv. gerir upphaflega ráð fyrir, að 50 aurum og lægri upphæð verði sleppt. N. hefur orðið sammála um að verða við þessum tilmælum viðskrn. að flytja brtt., og að henni samþykktri mælir n. einróma með samþykkt frv.