21.03.1974
Efri deild: 87. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3015 í B-deild Alþingistíðinda. (2694)

255. mál, lántökuheimildir erlendis

Heilbr.- og trmrh. (Magnús Kjartansson):

Herra forseti. Á þskj. 500 hef ég lagt fram brtt. við þetta frv. um, að þar bætist við nýr stafi., sem hljóði svo: „Til Siglufjarðarkaupstaðar vegna virkjunar í Fljótaá 75 millj. kr.“ — Og í annan stað, að heildarupphæðin breytist í samræmi við þetta.

Um þessa brtt. vil ég fara örfáum orðum. Ég hef áður lýst því yfir hér í hv. þd., að ég mundi fyrir mitt leyti vilja á það fallast, að heimila viðbótarvirkjun í Fljótaá, ef eftir því yrði óskað af bæjarstjórn Siglufjarðar, og bæjarstjórnin óskaði slíkrar heimildar 20. febr. 1974. Þarna er um að ræða 1600 kw. viðbótarvirkjun, og samkv. orkul. hefur ráðh. heimild til þess að leyfa slíkt án þess að leggja það sérstaklega fyrir Alþ. Hins vegar þarf, ef í þetta á að ráðast nú þegar, eins og nauðsynlegt er, að tryggja fjármagn til þessara framkvæmda, og þess vegna er þessi brtt. flutt.

Samkv. niðurstöðum rannsókna hækkar orkuvinnslugeta vatnsaflsstöðvanna í Fljótaá um 8 gwst. á ári með tilkomu þeirrar nývirkjunar, sem hér er um að ræða. Þessi tala felur í sér þá aukningu á orkuvinnslugetu núverandi Skeiðsfossvirkjunar, sem af nývirkjuninni leiðir, enda er rétt að telja henni til tekna alla þá viðbótarorkuvinnslugetu, sem leiðir af tilkomu hennar, án tillits til þess, hvar sú aukning kemur fram.

Svo er að sjá sem ekki fylgi nein náttúruspjöll þessari virkjun, og hefur náttúruverndarnefnd héraðsins gefið okkur yfirlýsingu um það. Þó hefur málið ekki enn komið til afgreiðslu hjá náttúruverndarráði, en það verður væntanlega mjög bráðlega, þar eð ráðið hefur fengið þetta mál til meðferðar. Í grg. rafveitustjóra eru áhrif virkjunarinnar á laxveiði Fljótaár talin vera engin. Það kemur ekki fram, að þetta hafi beinlínis verið kannað, þó að vel megi vera, að það hafi verið gert, en aths. um þetta atriði koma væntanlega fram, þegar virkjunin verður auglýst, — það er raunar þegar búið að auglýsa hana, — svo fremi hún verði talin hafa einhver áhrif á laxveiðar.

Samkv. endurskoðaðri kostnaðaráætlun er stofnkostnaður við þessa virkjun rúmar 105 millj. kr. á verðlagi í byrjun þessa árs, og við árskostnað miðað við 10% stofnkostnað yrði orkukostnaður við fulla nýtingu orkuvinnslugetunnar 1.32 kr. á kwst. við stöðvarvegg. Þarna er, eins og menn heyra, ekki um ódýra raforku að ræða frá vatnsaflsstöð að vera, en kostnaður hennar er þó miklum mun lægri en breytilegur kostnaður við dísilorkuvinnslu, hvað þá heildarkostnaður slíkrar orkuvinnslu. Orkuþörfin á Norðurlandi vex nú mjög ört, eins og menn vita, ekki hvað síst vegna aukinnar húshitunar með raforku. Þess vegna nýtist vinnslugeta þessarar virkjunar mjög fljótt, ef hún er tengd við aðra hluta Norðurlands. Kostnaður við þá tengingu er ekki meðtalinn í þeim áætlunartölum, sem ég hef getið hér um, en hins vegar þarf að framkvæma þessa tengingu, jafnvel þótt engin ný virkjun sé gerð við Fljótaá. Eftir að samtenging Norðurl. e. og Norðurl. v. er komin á, virðist heppilegast að tengja Skeiðsfosssvæðið við Eyjafjörð með línu frá Dalvík um Ólafsfjörð að Skeiðsfossvirkjun. Sú lína leysir þá jafnframt flutningsþörfina frá virkjunum til Ólafsfjarðar, en núv. lína þar á milli er ófullnægjandi. Rétt er að hanna þessa línu með það fyrir augum, að hún verði liður í víðtækara flutningakerfi á þessum slóðum síðar. Talið hefur verið, að ljúka megi virkjun þeirri í Fljótaá, sem hér um ræðir, á tiltölulega mjög skömmum tíma, mun skemmri tíma en það tekur að afla Norðurlandi raforku til lengri framtíðar, og þetta er að sjálfsögðu meginkostur þessarar virkjunar og fullkomin réttlæting hennar þrátt fyrir hátt kostnaðarverð.

Það liggur fyrir, að það er hægt að fá sæmilega hagstæð lán til þessarar framkvæmdar hjá þeim, sem selja vélar og búnað erlendis, og gætu þau lán numið um 30 millj. kr., en sú lántökuheimild, sem hér er farið fram á, nemur þá mismuninum eða um 75 millj. kr.

Ég vil svo geta þess, eins og menn hafa veitt athygli, að í þessum lántökuheimildum er einnig gert ráð fyrir framkvæmdum varðandi Smyrlabjargaárvirkjun, — miðlunarframkvæmdum, sem geta aukið framleiðslugetu þeirrar virkjunar nokkuð, og er áætlað, að hægt sé að ljúka þeim framkvæmdum á þessu sumri, og á sama hátt er til þess vonast, að hægt sé að framkvæma þessa stækkun á virkjun í Fljótaá á þessu ári.