21.03.1974
Efri deild: 87. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3029 í B-deild Alþingistíðinda. (2697)

255. mál, lántökuheimildir erlendis

Heilbr.- og trmrh. (Magnús Kjartansson):

Herra forseti. Mér þótti næsta einkennileg ræða hjá hv. þm. Geir Hallgrímssyni. Það var engu líkara en þessi hv. þm. hefði ekki áttað sig á því, að nein breyt. hefði orðið varðandi orkumál á Íslandi á s.l. hálfu ári eða svo. Þegar í ljós kom í haust, að verðlag á olíu mundi hækka ákaflega mikið og það yrði jafnvel skortur á olíu, og búist var við því, að orkuverð mundi halda áfram að fara hækkandi á næstu árum, þótti ríkisstj. einsýnt, að það yrði að hefjast handa um ráðstafanir til að flýta nýtingu innlendra orkugjafa, til þess að hagnýta þá miklu örar en ráð hafði verið fyrir gert í upphafi. Ég fól í nóv. í fyrra verkfræðistofnun hér í bæ í samvinnu við Olíustofnun að gera áætlun um það, hvernig hægt væri að nýta innlenda orkugjafa í stað innfluttrar olíu með sem skjótustum hætti, og enn fremur fól ég Seðlabankanum að gera fjármögnunaráætlun í þessu sambandi. Eftir þennan tíma hafa komið hér fram á þingi fjölmargar till. um þetta efni, ekki síst frá hv. þm. Sjálfstfl. í margvíslegum myndum, sem hafa allar beinst að þessu sama verkefni. Engu að síður var svo að heyra sem þessi hv. þm., Geir Hallgrímsson, gerði sér ekki nokkra grein fyrir því, að slíkri stefnumörkun verður þó að fylgja eftir í verki.

Hann sagði í upphafi máls síns hér, að það væru óeðlileg vinnubrögð að skjóta inn á síðasta stigi fjárl. verulegum upphæðum til orkuframkvæmda. Þessu var bætt við að sjálfsögðu vegna þessa vandamáls. Ríkisstj. var það ljóst, að það þurfti að flýta ýmsum framkvæmdum og rannsóknum á sviði orkumála umfram það, sem áður var fyrirhugað, og þess vegna voru þessar till. fluttar við 3. umr. fjárl., og það var gerð grein fyrir því, í hvaða tilgangi þetta væri gert. Ég varð ekki var við það þá, að það væri neinn ágreiningur um að þannig skyldi að þessu máli staðið. Og ég varð ekki var við andstöðu hjá neinum hv. þm. við það að taka þessa liði inn í fjárlög. En nú kemur hv. þm., Geir Hallgrímsson og kvartar undan þessu, að það hafi verið tekið inn á fjárlög. Hann snýst gegn því, að varið sé fjármunum til orkurannsókna og framkvæmda á sviði orkumála. Hann virðist ekki hafa neinn áhuga á því, að við tökumst á við það ákaflega mikilvæga og brýna og stóra vandamál að nýta okkar eigin orkugjafa í stað innfluttrar olíu. Hann segist vilja skipulagsbundin vinnubrögð í þessu máli, og ég er þar alveg á sama máli. (Gripið fram í.) Hv. þm. var að gagnrýna, að þetta frv. væri flutt í þessu skyni. Hv. þm. var að gagnrýna það, hann teldi, að þetta væru óeðlileg vinnubrögð, og þetta mundi eingöngu valda þenslu og erfiðleikum í þjóðarbúinu. Hv. þm. var að kvarta undan því. Hv. þm. snerist gegn þessum fjármunum, sem við ætlum að veita til orkurannsókna og framkvæmda á sviði orkumála. Hv. þm, er staðinn að því að hafa snúist gegn þeirri stefnu ríkisstj., og það er staðreynd, sem vissulega er ástæða til að veita athygli.

Hv. þm. hafði allt á hornum sér í sambandi við þetta. Hann taldi t, d. ákaflega óeðlilegt að taka erlent lánsfé til þessara framkvæmda. Ég vil benda á það, að ef við getum nýtt innlenda orkugjafa í stað innfluttrar olíu, þá jafngildir það að sjálfsögðu gjaldeyrisskapandi framleiðslu. Og ef við getum tekið erlend lán til opinberra framkvæmda, þá eru það framkvæmdir af þessu tagi. Gagnrýni á það að taka erlend lán til slíkra hluta á engan rétt á sér. En þetta sýnir bara hina neikvæðu afstöðu þessa hv. þm.

Ég er hins vegar sammála hv. þm. um það, að við eigum að kappkosta við framkvæmdir af þessu tagi, m.a. við virkjunarframkvæmdir, að vera menn til þess að leggja fram fjármuni sjálfir. Í þjóðfélagi, þar sem þjóðartekjur á mann eru jafnháar og hér, eigum við að geta ráðist í ýmsar slíkar framkvæmdir án þess að þurfa að taka alltaf lán erlendis. En ég hef ekki orðið var við, að þessi hv. þm. eða flokksbræður hans hefðu mikinn áhuga á því, að þannig væri að verki staðið. Þeirra áhugamál beinist fyrst og fremst að því að koma í veg fyrir, að ríkið eða opinberir aðilar nái í fjármuni erlendis til þess að standa fyrir margvíslegum mikilvægum framkvæmdum, m.a. á sviði orkumála. Hann leggur til. að allt slíkt sé skorið niður og afkoma ríkissjóðs sé sem allra erfiðust, að fjárhæðunum verði varið í vaxandi einkaneyslu. Þetta er stefna þessa hv. þm. Og það situr sannarlega ekki á honum að kvarta undan því, að tekið sé lánsfé erlendis, í stað þess að við nýtum okkar eigin fjármuni. Ég er þeirrar skoðunar, að við þurfum að vera menn til þess að leggja fram mun meiri fjármuni sjálfir en við gerum til allra slíkra framkvæmda sem þessara.

Umtal hv. þm. um línuna norður er mál, sem búið er að deila um, þrátta um og þvarga um ákaflega lengi. Ég er satt að segja algerlega undrandi á því að heyra þessar gömlu röksemdir fluttar enn einu sinni. Í sambandi við það að flýta nýtingu innlendra orkugjafa, þá liggur sú staðreynd fyrir, að um það bil 2/3 hlutar þjóðarinnar geta fengið hitaveitu frá jarðvarma, en um það bil þriðjungur þjóðarinnar yrði að fá húshitun með raforku. Ég er þeirrar skoðunar, að við eigum að gera áætlun allmörg ár fram í tímann um það, hvernig við eigum að framkvæma þessi verkefni. Það er hægt að gera stórfellt átak að því er snertir hitaveitur á næstu þremur árum. Það tekur lengri tíma að koma á rafhitun, en engu að síður verðum við að stefna að því marki, ekki síst fyrir þau byggðarlög, sem ekki eiga kost á neinum jarðvarma, og þar er sem kunnugt er um að ræða Vestfirði og Austfirði, Til þess að geta ráðist í þetta verkefni er það algert frumskilyrði, að orkuveitusvæðin séu tengd saman og allt dreifikerfið verði styrkt til mikilla muna frá því, sem nú er. Ég mun væntanlega hér á þingi flytja skýrslu um þær athuganir, sem unnar hafa verið á vegum iðnrn. að undanförnu um slíka áætlun. En ég hygg, að ég fari þar rétt með, að það hefur verið gert ráð fyrir því, að stofnlínur og dreifilínur og styrking á dreifikerfi muni kosta um 4 milljarða kr. á núverandi verði, ef stefnt er að því marki, að um 80% þeirra, sem þurfa að fá rafhitun, verði búnir að fá hana 1981. Og til þess að hægt sé að koma á slíkri rafhitun, verður að leggja þessar stofnlínur. Menn, sem snúast gegn því, að lagðar séu slíkar stofnlínur eins og þessar, eru að snúast gegn því, að við nýtum orku til að híta upp húsakynni landsmanna. Svona einfalt er það. Það er alls ekki um það að ræða lengur að deila á þessum gömlu forsendum, hvernig eigi að afla venjulegrar orku handa Norðlendingum, — þessi gömlu deilumál, sem allir þm. þekkja og sem ég nenni ekki að fara ofan í enn þá einu sinni, það er búið að gera það svo oft, bæði hér á Alþ. og annars staðar. Viðhorfið er gerbreytt. Viðhorfið er orðið gerbreytt á þessari miklu nauðsyn, að við notum raforku til þess að hita upp húsakynni þeirra landsmanna, sem ekki eiga kost á hitaveitu. Og til þess að hægt sé að gera þetta, verður sem sé að koma upp þessu línukerfi. Það er alger forsenda. Og þeir menn, sem eru á móti því, að ráðist sé í þetta línukerfi, eru á móti því, að húsakynni á Íslandi séu hituð upp með raforku, að við nýtum okkar eigin raforku í stað þess að flytja inn olíu. Svona eru viðhorfin núna. Þær spurningar, sem hv. þm. er að beina til mín um alls konar samanburð miðað við aðstæður, sem voru hér fyrir 1–2 árum, eru því algerlega út í hött. En eins og ég sagði áðan, geri ég ráð fyrir því að geta tiltölulega fljótlega, eftir eina viku eða svo, flutt Alþ. skýrslu, áfangaskýrslu um það, hvernig hægt sé að standa að þessu ákaflega stóra og brýna verkefni, að nýta innlenda orkugjafa í stað erlendra. Og þar verður tækifæri til þess að ræða þetta mál í heild. Ég skal þá reyna að gera grein fyrir ýmsum þeim atriðum, sem hv. þm. vék að í ræðu sinni áðan. Ég geri ráð fyrir, að þessari skýrslu verði útbýtt prentaðri í þinginu, þannig að þm. eigi kost á að kynna sér hana, áður en hún yrði tekin til umr. hér á þingi.

Hér er verið að spyrja spurninga, sem búið er að svara margsinnis. Það er verið að spyrja um, af hverju hafi ekki verið ráðist í virkjun Svartár. Það liggja fyrir gögn, sem ég hef margsinnis gert grein fyrir, frá þeim mönnum, sem var falið að ræða við landeigendur. Þeirra niðurstaða var sú, að það væri ekki hægt að ná samkomulagi um þetta. Þau liggja fyrir í iðnrn., og það hefur margsinnis verið gerð grein fyrir því, að það voru allar horfur á því, að það væri aðeins að risa ný Laxárdeila. Ég held, að reynsla okkar af þeim vinnubrögðum, sem ástunduð voru í sambandi við virkjun Laxár, séu slík, að við eigum ekki að leika okkur að því að fara að gera slíka hluti aftur.

Hv. þm. taldi það vera handahófsvinnubrögð, að ég flytti nú till. um fjármagn til þess að tryggja, að hægt væri að ráðast í viðbótarvirkjun í Fljótaá. Ég hefði hafnað umsókn bæjarstjórnar Siglufjarðar um það efni. Það hefur ekki komið nein formleg umsókn um þetta til iðnrn. frá bæjarstjórn Siglufjarðar fyrr en 20. febr. s.l., og ég afgreiddi það mál með þeim hraða, sem ég taldi mestan geta orðið í því sambandi. Menn geta séð það með því að bera saman dagsetningar. En þessi gagnrýni á línuna norður er svo gersamlega út í hött, miðað við nýjar aðstæður, að ég hef hreinlega ekki geð í mér til þess að ræða málið á þeim forsendum.

Hv. þm. fór með mjög undarlegar staðhæfingar um það, að ég hefði talað um, að leggja ætti hálendislínu norður og hún yrði komin í gagnið 1973. Það var gerð samþykkt í ríkisstj. haustið 1971 um það að ákveða af hennar hálfu, að ráðist yrði í Sigölduvirkjun, og inn í þá samþykkt var tekin ákvörðun um samtengingu Suðurlands og Norðurlands. Það var í sambandi við virkjun Sigöldu, sem það mál var tekið fyrir, og rökstuðningur fyrir því var sá, að sem flestir landsmenn ættu að eiga kost á orku frá þessari nýju virkjun og markaður hennar ætti að stækka. Það hefur ekki verið fallið frá því að leggja hálendislínu. Rannsóknir á því máli eru í fullum gangi, og vitaskuld verður sú lína lögð. En byggðalínan þótti vera skynsamlegri ráðstöfun núna, og ég hygg, að ef menn hugsa sig um, þá geri sér allir ljóst, að þar er um að ræða framkvæmd, sem endist ekki bara í 1–2 ár, eins og þessi hv. þm. var að tala um, heldur framkvæmd, sem verður ein af máttarstoðunum í því kerfi, sem við komum upp hér á Íslandi, ef við ætlum að tryggja búshitun með raforku og tryggja jafnrétti byggðarlaga á þessu sviði. Slík samtenging er alger forsenda þess, að þetta sé hægt. Tal um, að hún nýtist ekki nema í 1–2 ár, er svo yfirgengileg röksemdarfærsla, að ég get ekki skilið, hvernig það getur komið upp úr hv. þm., sem er þó ákaflega vel að sér á sviði orkumála.

Ég vil sem sé endurtaka það, að ég lýsi undrun minni á þessum málflutningi, Ég skil ekki, hvernig menn geta raunar farið að því að bera hér á borð gamlar lummur, enda þótt augljóst sé hverjum manni, að aðstæðurnar hafa gerbreytt ástandinu og sannað, að þær ákvarðanir, sem teknar voru í þessu efni um samtengingu olíuveitusvæða, voru þær einu réttu.