21.03.1974
Efri deild: 87. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3036 í B-deild Alþingistíðinda. (2700)

255. mál, lántökuheimildir erlendis

Heilbr.- og trmrh. (Magnús Kjartansson):

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umr. Ég held, að það liggi ákaflega ljóst fyrir, að það er raunverulegur ágreiningur í þessu efni. Hv. þm. Geir Hallgrímsson og flokksbræður hans hafa í sífellu verið með neikvæð viðhorf til allra nýrra framkvæmda í orkumálum í tíð núv. stjórnar. Það er sama, hvað gert hefur verið, það hefur alltaf verið sama neikvæða viðhorfs. Ég minni á það t.d. í því sambandi, að Morgunblaðið hamaðist lengi gegn virkjun Mjólkár á Vestfjörðum, fór hinum verstu orðum um mig í því sambandi, að ég skyldi heimila þá virkjun. Þannig hefur verið um allar framkvæmdir á sviði þessara mála. (Gripið fram í) Já, það hefur lent á núv. ríkisstj. bæði að framkvæma Lagarfossvirkjun og Sigölduvirkjun, sem nú er hafin, eins og hv. þm. veit. Og ég vil benda hv. þm. á það, að ef maður ber saman framkvæmdir og fé til framkvæmda á sviði raforkumála, þá hygg ég, að það hafi þrefaldast frá því, sem var í tíð viðreisnarstjórnarinnar, þannig að framkvæmdir nú eru um það bil þrefalt meiri en þær voru þá. En hv. þm. talar aðeins um þetta sem vaxandi þenslu í þjóðfélaginu. Hann vill ekki, að það sé ráðist í framkvæmdir af þessu tagi, hann er andsnúinn því, enda hafði hann ekki neinn sérstakan áhuga á raforkumálum annan en þann að láta framleiða raforku til þess að selja útlendingum langt undir kostnaðarverði, eins og menn vita.

En ég stóð nú hér fyrst og fremst upp til að mótmæla því, sem þessi hv. þm. staðhæfði, að ég hefði lagt stein í götu Hitaveitu Reykjavíkur og Rafmagnsveitu Reykjavíkur. Því fer mjög fjarri. Það hefur verið leyst úr vandamálum þeirra stofnana á afar eðlilegan hátt, og það er mjög góð afkoma hjá þessum stofnunum. Rafmagnsveita Reykjavíkur hefur verið rekin með mjög góðum hagnaði. Hitt er svo annað mál. að það er ekkert óeðlilegt við það, þegar ráðist er í verulega dýrar framkvæmdir, að taka verði lán til þeirra, að það sé ekki hægt að taka það af tekjum hvers árs um sig og spara upp í mjög miklar og óvenjulegar framkvæmdir.

Í sambandi við hitaveituframkvæmdir í nágrannabyggðum Reykjavíkur, þá var það mál afgreitt á þann hátt, að ekki þarf að taka að láni nema u.þ.b. helming af kostnaði við þær framkvæmdir, en helminginn getur Hitaveitan framkvæmt af sínum eigin tekjum. Þetta eru að sjálfsögðu ákaflega góðar aðstæður til framkvæmda og miklu betri aðstæður en flestir aðilar búa við hér á landi. Það var farið ofan í umsóknir Hitaveitunnar um þetta efni, og málið var síðan af greitt skv. óskum Hitaveitunnar, — nákvæmlega skv. óskum Hitaveitunnar. Ég hef rætt um það við borgarstjórann í Reykjavík, að ef hægt sé að flýta þessum framkvæmdum umfram það, sem fyrirhugað er, þá væri ég mjög fús til samvinnu um það.

Hv. þm. spurði enn um Svartá í Skagafirði. Ég hef greint honum frá því, að það var falið mönnum að eiga viðræður við landeigendur, það var hópur manna undir forsæti Jóns Ísbergs sýslumanns, og hann skrifaði rn. bréf og taldi, að þessar samningaumleitanir hefðu orðið neikvæðar, það væri ekki unnt að ná neinu slíku samkomulagi. Á þeim forsendum þótti ekki ráðlegt að halda þar áfram vegna þeirrar herfilegu reynslu, sem fékkst af slíkum vinnubrögðum í sambandi við Laxá, og ég hygg, að allir þm. ættu að geta lært af, og ég tel, að menn eigi ekki að klifa á því, að reynt sé að leysa mál á svipaðan hátt og þar var gert.