21.03.1974
Neðri deild: 88. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3037 í B-deild Alþingistíðinda. (2708)

264. mál, heilbrigðisþjónusta

Flm. (Björn Pálsson):

Herra forseti. Við höfum leyft okkur að flytja hér frv. um breyt. á l. nr. 56 frá 1973, um heilbrigðisþjónustu. Efni frv. er það, að stofnað verði sjálfstætt læknishérað á Höfðakaupstað og í því læknishéraði yrðu þá Vindhælishreppur, Höfðahreppur og Skagahreppur. Þetta eru tveir sveitahreppar og eitt kauptún. Alls munu búa þar um 1000 einstaklingar. Við fluttum brtt. við heilbrigðislöggjöfina í fyrra um sama efni, og það var fellt hér í d. með eins atkv. mun. Við fengum almennar áskoranir frá íbúum Höfðakauptúns um, að þetta yrði sérstakt læknishérað. Það er fátt, sem fólkið úti í dreifbýlinu leggur meiri áherslu á heldur en öryggi í heilbrigðismálum. Það var búið að byggja þarna læknisbústað, svo að hann er fyrir hendi, en það gekk misjafnlega að fá lækna þar, áður en þessi breyting var gerð. Nú er ljóst, að það er ekki mikils virði fyrir fólkið að hafa sjálfstætt læknishérað, ef ekki fæst neinn læknir, en það virðist nú hafa orðið töluverð breyting á þessu. Læknanemum fjölgar mjög mikið, þannig að líklegt er, að læknunum í landinu fjölgi, og það hefur gengið betur að fá lækna út á landsbyggðina heldur en undanfarið. Vera má, að það sé því að þakka, að það hafi verið meiri dugnaður sýndur við að útvega læknana, en þó eru sennilega fleiri atriði, sem koma þar til greina.

Fólkinu er nú að fjölga á vissum stöðum úti á landi, fólkið er bjartsýnt og duglegt. Nú er nóg atvinna og mikill hugur í að byggja íbúðir hjá þessu fólki. T.d. var verið að byggja um 20 íbúðir í Höfðakauptúni s.l. ár, og líklegt, að það haldi áfram og jafnvel aukist, þannig að það er mjög líklegt, að fólkinu fjölgi þarna. Það er ekki hægt að ganga fram hjá því, að það er allmikill kostnaður fyrir fólk að fara langar leiðir til að leita læknis. Milli Blönduóss og Skagastrandar eru 25 km. Vegurinn er raunar sæmilegur, en að vetrinum getur oft verið mjög vont veður, norðaustanhríðarnar eru mjög vondar, og það getur verið þannig dag eftir dag, að það sjáist varla á milli húsa.

Nú er það þannig með okkur, sem heilbrigðir erum, að við finnum ekki svo mikið til þess, þó að það sé langt til læknisins, en þeir, sem eru heilsulitlir og þurfa á fárra daga fresti eða jafnvel daglega að hafa samband við lækni, finna ákaflega mikið til þess. Fæstir þessara einstaklinga geta ekið bíl sjálfir, þeir þurfa að fá bíl með sig og jafnvel að láta hann bíða, og þetta kostar ærið fé, þannig að það er ósköp eðlilegt, að fólkið leggi áherslu á að hafa öryggi í heilbrigðismálum.

Ég vona, að þið takið þessu frv. vinsamlega. Ég sé ekki ástæðu til að halda langa ræðu um það. Við stöndum allir að þessu, þm. úr þessu kjördæmi, sem erum hér í Nd., og þetta er ekkert pólitískt mál, heldur er þetta gert fyrir íbúana í heild. Ég vil enn fremur mælast til þess.við þá n., sem fjallar um þetta frv., að það verði afgreitt fljótt, — málið er ekki flókið — svo að það fáist úr því skorið, hvort Alþ. getur fallist á þetta eða ekki. Við vitum, að ríkið á að sjá um þessi heilbrigðismál að öllu leyti, og það á ekki að hafa ákvæði í löggjöf, að það hindri, að þau mál séu í góðu lagi.

Ég legg svo til. að frv. verði vísað til heilbr.og trn. að loknum umr.