21.03.1974
Neðri deild: 88. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3039 í B-deild Alþingistíðinda. (2714)

46. mál, jarðalög

Fjmrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Á þskj. 492 og 519 er að finna frv. til jarðalaga, eins og hv. Ed. gekk frá frv. til þessarar hv. d. Forsaga þessa máls er sú, að búnaðarþing 1971 samþykkti ályktun að fela stjórn sinni og búnaðarmálastjóra að hlutast til um við landbrh., að hann skipaði n. til þess að endurskoða eftirtalin lög:

1. Lög um kauprétt á jörðum, nr. 40 frá 5, apríl 1948.

2. Ábúðarlög, nr. 36 29. mars 1961.

3. Lög um ættaróðul, ættarjarðir, erfðaábúð og sölu þjóð- og kirkjujarða, nr. 102 21, des. 1961.

4. Lög um jarðeignasjóð ríkisins nr. 54 27. apríl 1967.

Hlutverk n. var að semja frv. til nýrra l. um framangreint efni eða með brtt. að breyta gildandi l. Tilgangurinn var að aðstoða sveitarfélög eða einstaklinga til búsetu innan þeirra sveitarfélaga, sem jörðin er i, og yrði það tryggt með löggjöf, að bændur hefðu forgangsrétt að jörðum til búskapar.

Hinn 18. ágúst 1971 skipaði landbrh. n. til að endurskoða þessi lög, sem ég áður greindi. Nm. voru Ásgeir Bjarnason, formaður Búnaðarfélags Íslands, Árni Jónasson, sem var tilnefndur af Stéttarsambandi bænda, en er erindreki sambandsins, og Sveinbjörn Dagfinnsson, núv. ráðuneytisstjóri í landbrn., sem var tilnefndur af ráðh. án tilnefningar frá öðrum. Ásgeir Bjarnason var skipaður formaður. N. hefur samið tvö lagafrv., sem bæði eru nú til meðferðar hér í hv. d. Auk jarðalagafrv. er frv. til ábúðarlaga, sem einnig er hér til meðferðar. Frv. voru lögð fram á síðasta búnaðarþingi, og mælti búnaðarþing með samþykkt þeirra beggja og gerði minni háttar breytingar á þeim, sem hafa verið teknar að mestu til greina í þeim frv., sem lögð hafa verið fyrir Alþingi það, sem nú situr. Þá hefur Stéttarsamband bænda mælt eindregið með samþykkt frv., en frv. höfðu áður verið kynnt á kjörmannafundum víðs vegar um landið.

Í frv. að jarðal. er tekið saman efni, sem nú er að finna í fernum lögum, auk nýmæla, sem hafa ekki áður verið í íslenskri löggjöf.

Á undanförnum árum hefur eftirspurn eftir landi til annarra nota en landbúnaðar farið stórvaxandi. Einkum hafa jarðir veríð keyptar háu verði, þar sem góð aðstaða er til að setja niður sumarbústaði eða eftirsóknarverð hlunnindi fylgja jörðunum, svo sem veiði. Verð slíkra jarða er þegar orðið svo hátt, að sjaldan er viðráðanlegt fyrir bændur að kaupa þær, og reynist oft fullerfitt fyrir viðkomandi sveitarfélög, þrátt fyrir það að þau eigi lögboðinn forkaupsrétt. Afleiðingin er því sú, að margar vildisbújarðir hafa verið skákaðar niður, og það hefur torveldað eðlilegan búrekstur á mörgum þeirra, vegna þess að ekki voru möguleikar til þess að ná kaupum á jörðinni til búskapar. Ég vil taka það fram, að ég tel, að nauðsyn beri til að gefa þéttbýlisbúum og öðrum, sem sækja eftir, kost á landspildum til ræktunar og útivistar og til að reisa sumardvalarhús, Reynslan sýnir hins vegar nú þegar, að brýn þörf er á að fylgjast með slíkum ráðstöfunum lands og hafa áhrif á, hvar og hvernig landi er ráðstafað á þennan hátt. Að öðrum kosti vofir yfir stórfelld röskun á búsetuaðstöðu fólks á dreifbýlissvæðum umfram það, sem þegar er orðið, og óeðlileg verðhækkun lands.

Frv. þessu, ef að l. verður, er ætlað að veita byggðarlögum meira áhrifavald í þessu efni, styrkja aðstöðu bænda, bændaefna og sveitarfélaga til jarðakaupa, skapa aðstöðu til að fylgjast með öllum ráðstöfunum fasteigna og fasteignaréttinda utan skipulagðra þéttbýlissvæða og hafa áhrif á verðlag þeirra.

Í ákvæðum, sem eru í þessu lagafrv., eru viss hamlandi áhrif á ráðstöfun jarða umfram það, sem verið hefur, og eiga sér hliðstæðu í löggjöf nágrannaþjóða okkar, sem hafa sett lög og reglur um þetta efni. Í því sambandi vil ég leyfa mér að vitna til Norðurlandanna.

Noregur hefur allt frá árinu 1909 samkv. 1. visst eftirlit og aðhald varðandi eigendaskipti á jörðum og landi utan skipulagðra svæða. M.a. þarf leyfi landbrh. hverju sinni, þegar kaup eru áformuð. Tilgangurinn með slíkum lögum er að hafa hamlandi áhrif á verðhækkanir lands. Norska landbrn. hefur margsinnis neitað um leyfi til sölu, þykir söluverð lands of hátt eða ætla megi, að land eigi að kaupa í hagnaðarskyni, t.d. að ávaxta fjármagn á þann hátt eða skáka landið niður og selja lóðir.

Í Svíþjóð gilda að sumu leyti svipaðar reglur og í Noregi að því leyti, að óheimilt er að selja bújarðir og lönd án heimildar frá landbrn., og lögð er áhersla á, að eigendaskipti eigi sér fyrst og fremst stað þannig, að kaupendur jarðar muni stunda landbúnað sem aðalstarf. Um leyfi til sölu á landi er að jafnaði neitað, ef ástæða þykir til að ætla, að hún sé einkum áformuð til þess að hafa af því fjárhagslegan ávinning.

Danir hafa á síðustu tveimur árum endurskoðað löggjöf um bújarðir og land utan þéttbýlissvæða. Samkv. l. frá þessu ári um bújarðir og skilyrði fyrir því að geta fengið jörð til eignar eða umráða samkv. leigusamningi án leyfis landbrn. þarf m.a. viðkomandi að vera minnst 20 ára gamall, taka sér fasta búsetu á eigninni og hafa búrekstur að aðalatvinnu. Að öðrum kosti þarf sérstakt leyfi landbrn. Í l. er tekið fram, að slíkt leyfi skuli ekki veita, ef ástæða er til að ætla, að stefnt sé að því að ná umráðum yfir eign til þess að ávaxta á þann hátt fé, ef mikið ósamræmi er á milli kaupverðs eigna og raunverðs, ef eign telst óheppileg til sjálfstæðs búrekstrar og jörðinni yrði betur ráðstafað til að bæta rekstur, sem þegar er fyrir á svæðinu. Félagssamtök, stofnanir, jafnt opinberar sem einkastofnanir, geta ekki fengið ráð á jörðum eða jarðahlutum nema að fengnu samþykki landbrn.

Þau nýmæli, sem fyrst og fremst eru í þessu frv., eru í Il. kafla þess, og er tilgangurinn með þeim að koma fastari skipan á heldur en verið hefur um eigendaskipti og aðra ráðstöfun bújarða og lands utan þéttbýlissvæða í því skyni, að hagsmuna bænda og annarra dreifbýlisbúa sé betur gætt en verið hefur, auk þess sem með lagafrv. þessu er stigið skref í þá átt að halda landverði niðri og hindra brask með land. En til þess að slíkt verði sem mest hindrað, þarf að auki að setja ákvæði í skattalög, ákvæði um, hvernig gróði, annar en sá, sem stafar af eðlilegum verðlagsbreytingum, skuli skattlagður. Með frv. þessu er verið að færa út í byggðarlögin visst vald, sem þau hafa alls ekki haft til þessa, þ.e. að hafa áhrif á, hvernig land er notað, og hafa áhrif á verðlag, eignar- og umráðarétt þess.

Til þess að framkvæma þetta vald úti í byggðarlögunum var gert ráð fyrir skipun byggðaráða í hverri sýslu. í þeim mega aðeins starfa menn, sem búsettir eru í viðkomandi sýslu. Þyki einhverjum mörg ráð sett á fót samkv. frv. þessu, er rétt að benda á, að jafnmargar n. eru samtímis lagðar niður, því að samkv. 27. gr. l. nr. 45 1971, um Landnám ríkisins, skal landnámsnefnd skipuð 3 mönnum og starfa í hverri sýslu. Verði frv. þetta að l., eru dagar þessara n. þar með taldir. Auk þess að fylgjast með og hafa áhrif á eigendaskipti lands og verð þess, verði frv. að l., verði meiri aðgát höfð en verið hefur um skiptingu jarða, sem mörg dæmi eru um, að hafi verið gerð án nægilegrar forsjár. Þá er gert ráð fyrir í frv., að hægt sé að sameina að nýju jarðahluta, sem skiptir hafa verið út úr jörðum, sé bú ekki rekið á þeim. Dæmi eru þess, að sameign að jörðum, þar sem einn sameignareigenda situr jörðina, hafi skapað erfiðleika fyrir hann við rekstur bús og framkvæmdir á jörð. Í frv. þessu er opnuð leið út úr slíkum vandræðum og ráðherra unnt að heimila, að hann leysi til sín eignarhluta.

III. kafli frv. fjallar um forkaupsrétt á jörðum og jarðarhlutum. Um það gilda l. nr. 40 frá 1948. Var upphaflega gert ráð fyrir því, að til þess að ábúandi fengi forkaupsrétt á jörð, yrði bann að hafa setið hana í 10 ár, en með breytingu, sem var gerð í hv. Ed., var tíminn lækkaður í 8 ár, en hafði áður verið 3 ár.

Þá er einnig í þessu frv., — og var það atriði einnig tekið til meðferðar í hv. Ed., — ákvæði um það, að ef sveitarstjórn þyki verð hátt, þá megi kveðja menn til þess að meta, hvort um raunverulegt tilboð sé að ræða, sem eigandi eignarinnar telur sig hafa, og samkv. því, sem samþ. var í hv. Ed., ber við það mat ekki að taka tillit til þeirrar hækkunar á landinu, sem stafar af þeim framkvæmdum, sem ríkið hefur gert, eða stafa af nálægð þéttbýlis, eins og það er orðað í frv. nú.

Þá er í þessu frv. rýmkuð heimild ríkisins eða stjórnvalda til ákvörðunar í sambandi við jarðasölu, svo að um hana þurfi ekki að vera sérstök lög, enda eru önnur takmörk, sem þrengja hana svo mjög, þar sem byggðaráðin eru, að ekki þykir ástæða til að hafa þetta ákvæði í l. lengur.

Þá er í 30. gr. frv. nýmæli, sem stafar af því, að um áratugaskeið hefur ven,ja verið fyrir því, að ríkið leigði jarðir, lóðir og lendur án sérstakra lagaheimilda, og af þeirri ástæðu hefur tímalengd samninga og ýmis kjör verið mjög mismunandi. Ákvæðin í 2, mgr. 30. gr. eru um hámark þess tíma, sem leigusamningar mega gilda hverju sinni. Samkv. núgildandi l. eiga ábúendur rétt á að fá ábúðarjörð sína keypta að uppfylltum vissum skilyrðum. En eins og ég gat um áðan, hefur þessi réttur nú verið þrengdur frá því, sem er í gildandi lögum.

V. kafli frv. er um jarðasjóð. Í frv. er að finna verulegar breytingar frá því, sem nú er í l. nr. 54 1967, um Jarðeignasjóð ríkisins. Sumar af þeim breytingum hafa verið í gildi, frá því að sett voru l. nr. 11 1972, um breyt, á l. nr. 54 1967, og Jarðeignasjóður hefur nú rýmri heimildir til að kaupa jarðir heldur en áður. M.a. hefur sjóðurinn samkv. lagaheimild frá 1972 keypt um 20 jarðir af bændum, sem ekkert annað blasti við en yfirgefa jarðir sínar vegna fjárhagserfiðleika þrátt fyrir vilja þeirra að halda áfram búskap.

Í kaflanum um Jarðasjóð er veitt sérheimild til að lána sveitarfélögum til þess að neyta forkaupsréttar á jörð. Gert er ráð fyrir að hækka árlega fjárveitingu til sjóðsins úr 6 millj. í 12 millj., til þess að hann verði betur fær um að gegna hlutverki sínu, einkum með lánum til sveitarfélaganna.

VI. kafli frv. fjallar um óðalsjarðir. Um það efni gilda í dag 1. nr. 102 frá 1962 með breyt. frá 1968. Ekki er um neinar meiri háttar efnisbreytingar að ræða frá gildandi l. í þessum kafla.

Hv. Ed., sem fékk þetta mál til meðferðar, sendi það til umsagnar til allra búnaðarsambanda landsins, Sambands ísl. sveitarfélaga og landshlutasamtaka sveitarfélaga. Að fenginni umsögn þessara og fleiri aðila voru í Ed. samþ. nokkrar breyt. á frv., þannig, að nú er sveitarstjórn viðkomandi byggðarlags ásamt Búnaðarfélagi Íslands og byggðaráði aðili að allri ákvörðunartöku um jarðir, svo sem um stofnun nýrra býla, sameiningu jarða, skiptingu jarða og innlausn á eignarhlutum, þar sem jörð er í sameign. Þá eiga að vera felld úr frv. ákvæði um afskipti byggðaráðs af skipulagsmálum dreifbýlis. Byggða ráðum hafði verið ætlað að gera till. um skipulagsmál dreifbýlis til viðkomandi sveitarstjórna. Þetta var af sumum, sem umsagnir gáfu um frv., túlkað á þann veg, að verið væri að seilast inn á valdsvið sveitarstjórna og skipulagsyfirvalda. Svo var alls ekki, eins og ráða má af því, að byggðaráðum var aðeins ætlað að gera till. um skipulagsmál. en samkv. l. nr. 45 1971 skal landnámsstjóri gera till. um skipulag í sveitum, leita umsagna sveitarstjórna, landnámsnefnda Búnaðarfélags Íslands og Byggingastofnunar landbúnaðarins. Þannig hefur Landnám ríkisins nú samkv. gildandi l. haft miklu meiri áhrif á skipulagsmál dreifbýlisins, þar sem viðkomandi hreppsnefndir höfðu aðeins umsagnarheimild, heldur en gert var ráð fyrir, að byggðaráðin hefðu.

Það má segja, að nokkur ástæða sé til þess, að skipulagsmál séu að verulegu leyti á einni hendi. Þó tel ég, að brýna nauðsyn beri til þess, að viðkomandi aðilar heima fyrir, bæði sveitarstjórnir og byggðaráðin, hafi þar mikið um að segja, þó að ég hins vegar geti fallist á þær breytingar, sem hafa verið gerðar í hv. Ed., til þess að hitt yrði ekki til að tefja framgang þessa máls.

Þá hafa verið gerðar breytingar á 10. gr. og 27. gr., sem fjalla um matsgerðir, sem mælt er fyrir um. Möt, eins og ég vék að áðan, skulu framkvæmd samkv. reglum IX. kafla l. nr. 36 1971, um ábúð jarða, þannig að sömu aðilar meta samkv. sömu reglum, þegar metnar eru eignir leiguliða, sem stendur upp af jörð. Auk þess hefur verið samþ. það viðbótarákvæði, sem ég gat um áðan, að við mat á fasteignum, sem sveitarstjórn hyggst neyta forkaupsréttar á og óskað er mats á eigninni, þar sem kaupverð sé hátt, skuli ekki taka tillit til verðhækkana landsins, sem stafa af nálægð þéttbýlis. Þetta atriði kom inn í frv. í meðferð hv. Ed.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að kynna þetta mál fyrir þessari hv. d. öllu meira en þegar er orðið, enda tel ég mig hafa drepið hér á helstu atriði málsins. Auk þess fylgir frv. löng grg., og það hefur verið til meðferðar, eins og ég gat um áðan, á búnaðarþingi, á aðalfundi Stéttarsambands bænda, á kjörmannafundum og víðs vegar um landið og hefur auk þess nú fengið umsagnir búnaðarsambanda.

Ég legg svo til. að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til 2. umr. og hv. landbn.