21.03.1974
Neðri deild: 88. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3053 í B-deild Alþingistíðinda. (2717)

46. mál, jarðalög

Fjmrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Ég kippi mér ekkert upp við það, þó að hv. 5. þm. Norðurl. v. eða aðrir hv. stjórnarandstæðingar flytji hér langar og stóryrtar ræðum á hv. Alþ. um það, að mál séu illa undirbúin og það þurfi að koma í veg fyrir, að þau verði samþ. á þessu þingi. Um þetta efni í ræðu þeirra hv. stjórnarandstæðinga mætti segja það sama og sagt var um Friðfinn heitinn Guðjónsson, þegar hann var á leiksviði hér í Reykjavík á síðustu árum sínum, þegar hann var orðinn gamall maður og gleyminn. Þá henti það hann, að hann endurtók sömu setninguna aftur og aftur. Haraldur Á. Sigurðsson, sem lék á móti honum og beið þess að fá hina réttu setningu, gekk þá til hans, klappandi á herðarnar á honum og sagði: „Þetta sagðirðu nú áðan, Friðfinnur minn.“ Og þó hló enginn maður. Þannig hefur það verið með flestar ræður þeirra hv. stjórnarandstæðinga hér í vetur, sérstaklega sjálfstæðismanna, að efnið í ræðum þeirra hefur allt verið á einn veg, svona álíka og efnið í ræðu hv. 5. þm. Norðl. v. Það er endurtekning um illa undirbúin mál, fullyrðingar og aðdróttanir um það, að ekki hafi verið rétt frá skýrt um meðferð málsins, þó að skjallegar sannanir liggi fyrir, og það er ekki á valdi mínu eða annarra manna, þó að einhverjir menn kunni að hafa vinnubrögð á annan veg en venja er til.

Þetta frv. var lagt hér fyrir á hv. Alþ. í fyrra. Það var gert til þess að þeir aðilar, sem málið varðaði, gætu notað tímann á milli þinga til þess að kynna sér það, m.a. sýslunefndirnar. Þær höfðu alla möguleika á að kynna sér þetta mál, ef það var frá þeirra bæjardyrum séð svo stórt mál, að þær vildu hafa áhrif á það. Það var ekki að ástæðulausu, að málið var lagt fyrir á síðasta Alþ., heldur til þess að tími gæfist til að kynna þetta mál og fá umsagnir um það. Og það bar brýna nauðsyn til þess að mínum dómi og þeirra, sem að málinu unnu, að fá til þess góðan tíma að leita umsagna um málið. Þetta mál var svo síðan tekið fyrir á kjörmannafundum, sem voru~ í fyrrasumar um allt land. Það hafði áður verið tekið fyrir á búnaðarþingi, sem upphaflega hafði verið upphafsaðili að málinu, og það var síðast tekið fyrir á stéttarsambandsfundi, þar sem t.d. Hermóður Guðmundsson var, og ég hef ekki heyrt getið andmæla hans þar. Allir þessir aðilar hafa mælt með samþykkt þessa frv. Þetta eru aðilarnir, sem eru forystusveit íslenskrar bændastéttar. Nú er ekkert, þó að hv. þm. Pálmi Jónsson haldi því fram, að mönnum eins og mér geti yfirsést í þessu máli og hafi einhver annarleg sjónarmið, en að halda því fram, að forustumenn íslenskrar bændastéttar á Íslandi, búnaðarþingi og stéttarsambandsfundi, beri ekki skynbragð á þessi mál, svo að þeir sjái veilur eins stórtækar og hann lýsti, það vil ég ekki taka undir. Og ég mótmæli því harðlega, að þessir fulltrúar, sem íslenska bændastéttin treystir öðrum betur til þess að fara með sín sérmál, séu þannig gerðir.

Ég verð að segja það hins vegar, að ég hef látið alveg afskiptalaust umsagnir um þetta mál. Ég hef ekki haldið uppi áróðri, hvorki á búnaðarþingi, stéttarsambandsfundi, kjörmannafundum né neinum slíkum stöðum, vegna þess að frá mínu sjónarmiði var það ekki það, sem ég óskaði eftir, að frv. væri gallalaust, þó að það væri samið af hinum bestu mönnum, gat þeim yfirsést, heldur að þessir aðilar færu um það þeim höndum, sem eðlilegast var, án áhrifa frá öðrum. Það má vel vera, að þær samþykktir, sem nú eru að berast, séu líka til orðnar án þess að nokkrum áróðri hafi verið uppi haldið. En ég verð að segja það, að ég felli mig ekki alls kostar við það eða á bágt með að átta mig á því, að þeir menn, sem setu hafa á búnaðarþingi og setu eiga á stéttarsambandsfundi og hafa samþykkt þar meðmæli með þessu frv., séu nú komnir á það, að hér sé um að ræða mál, sem þurfi að gjalda varhuga við.

Ég held líka, að það sé ljóst af þessu frv., að það, sem er mergur málsins, er að tryggja áhrif byggðarlaganna og tryggja, að landið nýtist fyrst og fremst til landbúnaðar.

Ég vil út af því, sem hv. 4. þm. Vesturl. sagði hér um sýslunefndirnar, segja það, að þær hefðu getað haft alla möguleika til þess að segja álit sitt á þessu máli, þar sem það var fram komið, áður en þær héldu sína aðalfundi á s.l. vori, og þeim er líka tryggður sá réttur, sem þær þurfa að hafa vegna byggðarlagsins. Ég dreg í efa, að það mundi bæta málið nokkuð frekar, þó að enn á ný yrði farið að senda það beint til þeirra, enda eru margir sýslunm. búnir að fjalla um þetta mál á kjörmannafundunum úti um landsbyggðina, vegna þess að það eru svo margir sömu fulltrúarnir, sem eru bæði í sýslunefnd og á búnaðarsambandsfundum.

Ég verð líka að segja það, að eins og þróunin hefur verið á s.l. ári um jarðaverð, þá held ég, t.d. í kjördæmi okkar hv. 4. þm. Vesturl., að ef jarðasölur eiga sér stað á þessu ári og fram til þess, að þessi lög yrðu sett, með þeim hætti, sem hefur átt sér stað nú á s.l. ári, þá verði þungt fyrir dyrum hjá mörgum sveitarfélögum í okkar kjördæmi. Við vitum það báðir ósköp vel, að þar hafa farið fram jarðasölur, sem eru búnar að setja þau byggðarlög í stórfellda hættu, þó að hafi verið reynt að bjarga áhrifum þeirra tímabundið með afarkaupum, þar sem eyðikot að hálfu hafa verið seld fyrir 6 millj., eins og átti sér stað í Álftaneshreppi fyrir jólin. Þessi jörð var þannig sett, að hún lokaði afréttarlandinu fyrir sveitarfélaginu. Með slíkri þróun getur allmikið skeð. Ekki síst þegar mál eins og þetta er til meðferðar hér á hv. Alþ. og þeir, sem fjármunina eiga, gera ráð fyrir því, að það verði að l. fyrr eða seinna, þá munu þeir verða margir, sem bjarga sér frá því, að höfð verði hamlandi áhrif á sölu jarða, einmitt áður en slík löggjöf yrði að veruleika, en það mundi kosta byggðarlögin meiri fjármuni en við gerum okkur grein fyrir í dag.

Ég held út af því, sem hv. 5. þm. Norðurl. v. sagði um að geyma meðferð þessa máls hér á hv. Alþ., þangað til allir væru orðnir sammála um það, að þá muni það seint verða afgreitt. Ég held, að þetta mál sé stærra mál en svo, að það verði nokkurn tíma afgreitt þannig, að allir Íslenskir bændur verði sammála um afgreiðslu þess. Slík málsmeðferð er algerlega óhugsandi. Ég held hins vegar, að það sé búið að vinna mikið að þessu máli og einmitt á þeim vettvangi, þar sem þeir aðilar eru, sem best þekkja hagsmuni bænda og bera fyrir brjósti, og ég held líka, að það verði eins með þessa löggjöf og aðra, að hún hljóti að verða endurskoðuð hér á hv. Alþ., þegar reynsla hefur fengist af henni, svo að það sé ekki veruleg áhætta tekin, þó að hún yrði samþ. til þess að koma í veg fyrir óeðlilegt og hættulegt brask. Hv. 5. þm. Norðurl. v. sagðist viðurkenna, að vandinn, sem ég lagði áherslu á með þessu frv., væri til staðar, þ.e. sala á jörðum fyrir óeðlilega hátt verð. Ég held, að það orki ekki tvímælis, að hann er til staðar og fer vaxandi og hefur farið mjög vaxandi nú á síðustu árum. Hv. 5. þm. Norðurl. v. taldi, — ég skal nú ekki fara út í öll atriði, sem hann tók hér til meðferðar, vegna þess að hv. 4. þm. Vesturl. vék hér m.a. að sumum þeirra og ég hef þegar vikið að þeim, — en það er nú svo, að hann taldi, að þetta minnti sig á skerðingarákvæði tryggingal., og sagði, að viðreisnarstjórnin hefði breytt þeim ákvæðum. Nú skal ég viðurkenna það, að ég hef ekki nema takmarkað minni, en ef ég man rétt, þá tel ég, að því ákvæði tryggingal. hafi verið breytt undir forustu Steingríms Steinþórssonar sem félmrh. og hafi verið ákvæði í l. um gildistökuna og það hafi verið eitthvað seinna en l. sjálf tóku gildi. Ég hef því miður ekki haft tíma ti1 þess að skoða þetta, en ég hygg, að þetta muni láta nærri. En það má líka minna á það, að ástæðan fyrir því, að þetta ákvæði var í tryggingalöggjöfinni, var m.a. vegna framlagsins, sem þegnarnir í landinu urðu að greiða þá til trygginganna, og vegna framlagsins, sem sveitarfélögin urðu þá að greiða. Mörg sveitarfélögin úti um landsbyggðina treystu sér ekki til að greiða eða sveitafólk almennt, treysti sér ekki til að greiða persónuskattana, sem núv. ríkisstj. hefur afnumið. Þetta má hv. þm. líka gjarnan muna. Hitt mun ég svo athuga betur, hvort mitt minni sé rétt eða ekki.

Út af kaflanum í ræðu hv. þm. um Landnám ríkisins vil ég taka það fram, að ég ætla mér ekki að fara að hnýta í Landnám ríkisins eða störf þess. Það er fjarri mér að gera það, og er sama, hvort átt er við fyrrv. eða núv. landnámsstjóra, ég hef ekkert út á störf þessara manna að setja. Og það væri mjög fjarri mér, ef það félli í minn hlut að gera þá skipulagsbreytingu, að búa þannig að því, að núv. landnámsstjóri haldi ekki sínu starfi, sem er honum fullkomlega samboðið og hæfir hans hæfileikum. Og líka út af því, sem hann sagði um þáltill. um framkvæmd á Vestfjarðaáætlun, þá er það mjög fjarri mér að gera nokkurn hlut, sem getur orðið til þess að tefja framkvæmd á því máli, enda hefði ég ekki beitt mér fyrir fjárveitingum til málsins á núgildandi fjárl., ef það hefði verið ætlunin. Hins vegar fellur þetta verkefni að sjálfsögðu til þeirra aðila, sem fara með slík mál, ef breyt. verður samþ. hér á hv. Alþ. En meðan hún er ekki samþykkt, er sjálfsagt að láta vinna að málinu á þann hátt, sem best er, til þess að tryggja framgang þess. Og ég hef þá reynslu hér á hv. Alþ., að það geti dregist, að mál séu afgreidd, og meðan svo er, þarf að tryggja, að framgangur á Vestfjarða- eða Inn-Djúpsáætluninni tefjist ekki þess vegna. Ég vil taka það skýrt fram, að ég vil á engan hátt eiga þátt í því.

Hitt er svo annað mál, að ef ég stæði hér og væri að tala fyrir Landnáminu og ríkisafskiptum þar, eins og hv. 5. þm. Norðurl. v., þá veit ég, hvernig kaflinn væri í ræðu hv. þm. Þá væri hann á þessa leið: Svona er ríkisstj., reynir að koma öllu undir ríkið, gera félagsleg afskipti bændastéttarinnar í landinu sem allra minnst og belgja ríkisbáknið út. — Þetta væri langur kafli í ræðu þessa hv. þm., ef dæminu væri snúið við. En af því að það liggur nú á hinn veginn verður að finna eitthvað að því, það hljóti að vera einhver annarleg sjónarmið, sem ráði þessu, ráðh. hafi sem þm. haft aðra skoðun og sé að reyna að koma henni í framkvæmd. Stundum er nú sagt, að hann hafi haft aðra skoðun sem þm. en sem ráðh., og við því er ekkert að segja.

Eins og hv. 5. þm. Norðurl. v. benti réttilega á, var eitt af aðalverkefnum Landnámsins fjölgun jarða í landinu. Benti hv. 5. þm. Norðurl. v. á, að nú væri þessu snúið víð, þetta væri ekki lengur aðalverkefni þess, vegna þess að nú væri miklu frekar stefnt að því að sameina jarðir en að fjölga þeim, m.a. vegna þess, að reynslan hafi sýnt það varðandi jarðir, sem skipt var niður hér áður fyrr, að það hafi ekki verið rétt stefna, og það er því verið að breyta til um það. Þess vegna er hér ekki um neitt annað að ræða en eðlilega framkvæmd á breyttri verkaskiptingu og breyttu skipulagi, og það, sem á að gerast hér, er fyrst og fremst að færa þessi störf heim í byggðarlögin og til Búnaðarfélags Íslands.

Bændur í Austur-Húnavatnssýslu, ég veit ekki, hvaðan þeir eru ættaðir, ef þeir muna ekki eftir búnaðarmálastjóranum. Ég held, að þeir hafi verið eitthvað annars hugar, þegar þeir voru að gera þessa samþykkt. En að halda það, að það sé hægt að finna betri framkvæmdaaðila fyrir bændastéttina í landinu en félagslega uppbyggð samtök eins og Búnaðarfélag Íslands og Stéttarsamband bænda, það er mér alveg óskiljanlegt. Ég er líka alveg sannfærður um það, að þó að hv. 5. þm. Norðurl. v. segi, að þetta mál eigi ekki að verða pólitískt, þá hefur hann sett einhver gleraugu á nefið, þó að hann þurfi ekki að nota þau venjulega vegna þess, hve hann er ungur, áður en hann leit á málið, og mundi líta á það með öðrum hætti, ef það væru ekki pínulítið pólitísk gleraugu, sem hann hefði notað. Ég var rétt búinn að gleyma, en það var stórt atriði í ræðu hv. þm, um kvöðina, sem væri sett á jarðasöluna, og bænda.stéttin væri meðhöndluð öðruvísi en aðrar stéttir. Af hverju halda hv. alþm., að nágrannar okkar á Norðurlöndin virði og meti land öðruvísi en aðrar eignir? Það er vegna þess, að landið er undirstaðan undir byggð og afkomu þjóðar og getur verið undirstaða undir sjálfstæði þjóðar. Ef erlendu valdi, erlendu fjármagni tekst að ná tökum á landinu, þá fer fleira á eftir.

Grímsey var okkur ekki lítils virði á sínum tíma, þegar erlendu valdi tókst ekki að ná henni. Og það er það, sem um er að ræða, að það er ekki litið jafnt á land sem eign og hús eða húsgögn. Hér er mikill munur á. Þess vegna ríður á því að vernda landið umfram allt annað, og þess vegna er þetta frv. afleiðing af því, að það er séð fyrir, hver þróunin er að verða um ásókn fjármagnsins í landið. Og við þurfum ekki að fara langt hér út fyrir borgarmörkin til þess að sjá, hvernig þessi þróun er að verða. Og það er meira en það. Það er víðs vegar um landið, sem þannig er að verða ástatt, að fjársterkir menn hér — og síðan gætu útlendingar siglt í kjölfarið — eru að eignast landið og ná yfirráðaréttinum þar um. Og það er ekki að ástæðulausu, að Danir settu sérstök lög til að vernda sína landareign, einmitt þegar þeir voru að ganga í Efnahagsbandalagið. Það var af þeirri ástæðu, að þeir óttuðust, að í gegnum það mundi geta stafað sú hætta, að erlendir nágrannar þeirra, eins og Þjóðverjar og aðrir slíkir, gætu náð tökum á landinu. Þess vegna getum við aldrei virt og metið land á sama hátt og hús, stól eða borðstofuhúsgögn. Það er fjarri lagi. Þess vegna ríður mest á því, að landið sjálft eigi bændurnir, sem búa á jörðunum, og að öðrum kosti sveitarfélögin eða ríkið, því að ef ekki tekst að hafa þannig vald á landinu sjálfu, þá er okkar íslenska þjóðfélagi hætt. Veit ég, að hv. 5. þm. Norðurl. v. gerir sér fullkomlega grein fyrir þessu, þegar hann sest niður og hugsar málið rólega og tekur af sér pólitísk gleraugu.

Ég sé ekki ástæðu til að segja fleira að sinni, því að það verða víst framhaldsumr, um þetta síðar meir, og þá koma fleiri og taka þátt í þeim umr., fleiri en við tveir.