05.11.1973
Neðri deild: 14. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 351 í B-deild Alþingistíðinda. (272)

55. mál, niðurfærsla verðlags o.fl.

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Ég á að vísu sæti í þeirri hv. n., sem hæstv. viðskrh. hefur gert till. um, að þessu frv. verði vísað til. Engu að síður þykir mér rétt að freista þess að fá hjá hæstv. ráðh. nokkrar upplýsingar varðandi þetta mjög svo mikilvæga mál, sem hér er um að ræða, áður en n. hefur störf sín eða a. m. k. fyrirheit hans um, að hann muni stuðla að því, að upplýsingar verði veittar um þau atriði, sem ég kem til með að nefna, meðan málið er til meðferðar í nefnd.

Aðalefni þessara brbl. er annars vegar í 1. gr. og hins vegar í 9. gr. En í 1. gr. var kveðið svo á, að heildsöluverð og smásöluverð á hvers konar vörum og þjónustu skuli við gildistöku l. lækka um 2% eða í síðasta lagi hinn 7. maí s. l. Hitt meginákvæði frv. er að finna í 9. gr., en þar segir, að við ákvörðun á kaupgreiðsluvísitölu fyrir júníágúst 1973, skuli miðað við 2% lægra verð á vöru og þjónustu en tekið var á skýrslu í maíbyrjun s. l. til útreiknings á vísitölu framfærslukostnaðar í þeim mánuði. M. ö. o.: Með brbl. er fyrirskipuð almenn 2% verðlækkun í landinu. Í sömu brbl. er kauplagsnefnd síðan gert skylt að miða við það, að þessi verðlækkun hafi komið til framkvæmda á einni viku.

Nú er það kunnara en frá þurfi að segja, að erfitt er að tryggja framgang lagafyrirmæla um verðlækkun. Að vísu er til hér á Íslandi stofnun, Verðlagseftirlitið, sem hefur það verkefni að tryggja í fyrsta lagi, að hennar eigin ákvörðunum sé hlýtt og að fylgjast með því, ef löggjafinn setur ákvæði um breytingar á verðlagi, að þau komi raunverulega til framkvæmda. Ég undirstrika og veit, að ekki síst öllum hv. þm. er ljóst, hversu vandasamt er að hafa öruggt og tryggt eftirlit með því, að slík almenn fyrirmæli um verðlækkun komi til framkvæmda. Þess vegna leyfi ég mér að spyrja hæstv. viðskrh., hvort einhverjar sérstakar ráðstafanir hafi verið til þess gerðar að hafa eftirlit með því, að þessi 2% verðlækkun hafi í raun og veru komið til framkvæmda. Það gefur auga leið, að verðlagseftirlitið með sínu venjulega starfsliði hlýtur að hafa verið allsendis ófært um að fylgjast með því, hvort þessum verðlækkunarfyrirmælum var raunverulega hlýtt eða ekki eða að hversu miklu leyti þeim hefur verið hlýtt. Þess vegna væri æskilegt að fá upplýsingar um, hvort rétt er, að gerðar hafi verið sérstakar ráðstafanir með mannafla eða einhverjum öðrum hætti til þess að ganga úr skugga um, að l. hafi verið meira en pappírsgagn, þ. e. þau hafi verið raunveruleg verðlækkunarlög. En þess vegna er svo mikilvægt að fá úr þessu skorið, að kaupgjaldsvísitalan í júní-ágúst 1973 miðaðist við það, að þessi verðlækkunarfyrirmæli l. hafi orðið raunveruleg. Í þessa þrjá mánuði fengu launþegar greidda verðlagsuppbót, sem var mun lægri en sem svarar til þess, að 2% verðlækkun hafi raunverulega komið til framkvæmda í maí s. l. Þess vegna er mjög mikilvægt að fá að vita um það, í fyrsta lagi, hvaða ráðstafanir voru gerðar til þess að tryggja, að verðlækkun kæmi til framkvæmda, og í öðru lagi, hvort seinna hefur verið gerð nokkur athugun á því, hvort um raunverulega verðlækkun var að ræða á þessum fyrstu dögum maímánaðar eða ekki.

Það væri æskilegt, ef hæstv. ráðh. gæti gefið um þetta einhverjar upplýsingar þegar við 1. umr. Ef hann getur það ekki eða ekki nægilega ítarlega, þá treysti ég á samvinnu hans, rn. hans og verðlagsyfirvalda og kauplagsnefndar til þess að fá úr því skorið, hvort þessi verðlækkun var raunveruleg eða ekki, og hafi hún ekki verið það, þá að hversu miklu leyti hún var ekki raunveruleg. Launþegar eiga heimtingu á því að fá að vita, hvað gert hefur verið af hálfu hins opinbera til að tryggja, að ekki væri beinlínis verið að hafa af þeim kaupuppbót vegna l., sem hafa e. t. v. ekki komið til fullra framkvæmda. Ég skal ekki fullyrða neitt um á þessu stigi, að svo hafi verið. En það verður að koma í ljós við athugun n. á málinu, í fyrsta lagi, hvað ríkisstj. hefur gert til að tryggja framkvæmd l. og hvort upplýsingar eru til um það, að hversu miklu leyti verðlækkun hefur verið raunveruleg. Hafi slík athugun ekki verið gerð, þá er enn hægt að efna til hennar, og ég treysti því, að hæstv. ráðh. hafi jafnmikinn áhuga á því og ég og margir aðrir, að sannleikurinn komi í ljós um þetta efni.