25.03.1974
Efri deild: 88. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3067 í B-deild Alþingistíðinda. (2729)

113. mál, skipulag ferðamála

Ragnar Arnalda:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að flytja hér skriflega brtt. við frv. til l. um skipulag ferðamála. Eins og hv. þdm. er kunnugt, flutti ég brtt. við 2. umr. frv., en tók hana aftur til 3. umr. Mér hefur verið bent á, að rétt væri að haga orðalagi í þessari till. á annan veg, þar sem hún væri ekki alveg nægilega ljós, og ég vil því leyfa mér að flytja á ný till. um þetta efni og draga þá hina fyrri till. til baka. Á eftir 28. gr. komi ný gr., svohljóðandi:

„Áður en hannað er húsnæði heimavistarskóla, sem ríkissjóður kostar að einhverju eða öllu leyti, skal leita umsagnar stjórnar Ferðamálastofnunar Íslands um gerð hússins og innréttingu. Telji Ferðamálastofnunin, að væntanleg heimavistarbygging henti til starfrækslu sumarhótela, getur hún farið fram á, að byggingarteikningum sé hagað svo, að húsnæðið fullnægi þeim kröfum, sem gerðar eru til rekstrar gistihúss, enda sé stofnunin eða viðkomandi byggingaraðili reiðubúinn að bera ábyrgð á þeim viðbótarkostnaði, sem af breytingunum leiðir. Jafnframt er heimilt í þessu skyni að veita Ferðamálastofnuninni eða viðkomandi byggingaraðila lán úr ríkissjóði fyrir milligöngu Ferðamálasjóðs, allt að 10 millj. kr. árlega.“

Breyt. frá hinni fyrri brtt. er fyrst og fremst í því fólgin, að í fyrri till. var sagt, að „þegar hannað er, þá skuli leita umsagnar“, en hér eru tekin af öll tvímæli um, að þetta skuli gert, áður en hönnun hefst, og virðist það að sjálfsögðu skynsamlegra.

Ég ætla ekki að fjölyrða frekar um þessa till. Mér hefur heyrst, að allir þeir, sem tjáð hafa sig um þessa till., séu henni efnislega sammála og telji nauðsynlegt, að ákvæði af þessu tagi verði tekið inn í lög. Aftur á móti hafa komið fram raddir um, að till. kynni að eiga frekar heima í öðrum l., þ.e.a.s. í skólakostnaðarlögum. Ég vil taka undir það sjónarmið, sem kom hér fram í umr. hér áður, að að sjálfsögðu skiptir ekki neinu höfuðmáll, hvar gr. af þessu tagi er staðsett í 1. Aðalatriðið er, að hún komist til framkvæmda. Hitt er meira formsatriði. Hér er mál, sem snertir bæði skólakostnað annars vegar og Ferðamálastofnunina hins vegar, og ótvírætt snertir hún ekki síður Ferðamálastofnunina. Ég held því fast við það, að till. eigi frekar heima í þessum lögum.

Ég vil aðeins leyfa mér að spyrja menn, ef þeir eru í einhverjum vafa um þetta atriði, hvort þeir teldu viðeigandi, að í skólakostnaðarl. væri ákvæði, sem heimiluðu Ferðamálastofnuninni, að hún hefði í frammi ákveðið frumkvæði, — hvort ekki sé nokkuð ljóst, að ef borin væri fram till. af því tagi, þegar frv. til skólakostnaðarlaga væri hér til meðferðar, þá vaknaði sú spurning og það með réttu, hvort sú till. væri ekki á röngum stað og hefði ekki verið réttara að koma henni að við afgreiðslu ferðamálafrv.?

Mér finnst, að einmitt þetta atriði, að það er verið að heimila Ferðamálastofnuninni að taka lán m.a., skeri úr um það, að málið eigi miklu frekar heima í þessum lögum.

Ég vil svo að lokum minna á afstöðu Ferðamálaráðs, sem hefur skorað á hv. d. að samþykkja þessa brtt. og mælt mjög sterklega með henni, og mun afrit á bréfi ferðamálaráðs hafa borist á borð allra hv. þdm.

Ég vil leyfa mér, herra forseti, að leggja fram þessa skriflegu brtt. og æskja þess, að leitað verði afbrigða varðandi hana.