25.03.1974
Efri deild: 88. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3069 í B-deild Alþingistíðinda. (2733)

113. mál, skipulag ferðamála

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Ég get tekið undir með hæstv. menntmrh., að að sjálfsögðu væri eðlilegast að skipta efni þessarar till. í tvo hluta. Annar tilheyrði þá skólakostnaðarl., en hinn hlutinn l. um skipulag ferðamála. Mér fannst kannske óþarflega mikið viðhaft af ekki stærra máli að vera að flytja það í tvennu lagi og hef satt að segja ekki áttað mig á því, að það væri til mikils tjóns, þó að þetta ákvæði væri í ferðamálal. En mér þykir rétt, að tækifæri gefist til að skoða þessa hugmynd aðeins betur, og vil nú eindregið óska eftir því við forseta, af því að hér er um 3. umr, málsins að ræða, að hann frestaði umr. og gæfi kost á því, að málið yrði skoðað, þar til næst verður fundur í deildinni.