05.11.1973
Neðri deild: 14. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 353 í B-deild Alþingistíðinda. (275)

61. mál, tannlækningar

Heilbr.- og trmrh. (Magnús Kjartansson):

Herra forseti. Frv. það til nýrra l. um tannlækningar, sem er hér lagt fram, hefur að mestu leyti verið undirbúið af samstarfsnefnd heilbrrn., Tannlæknafélags Íslands og tannlæknadeildar Háskóla Íslands, en n. frá þessum aðilum skipaði ég 25. maí 1972 undir forustu fulltrúa rn. N. var falið að endurskoða gildandi lög og reglur um tannlækningar og um þær stéttir, sem starfa saman á þessu sviði, fyrst og fremst tannlækna og tannsmíði. Skömmu áður hafði Tannlæknafélag Íslands ritað rn. og óskað eftir skipun slíkrar n. og sent nokkrar till. um breytingar á gildandi löggjöf.

Ég taldi sjálfsagt að verða við þessari beiðni, enda eru gildandi lög löngu orðin úrelt. Þau eru að stofni til frá árinu 1929, með óverulegum síðari breytingum og viðaukum, og alls ekki í samræmi við aðstæður, eins og þær eru núna. Ég taldi því eðlilegt, að löggjöf á þessu sviði yrði færð í nútímalegra horf og þá tekið mið annars vegar af íslenskum aðstæðum og annarri síðari tíma lagasetningu um lækningastarf hér á landi, fyrst og fremst af læknal., nr. 80 frá 1969, og hins vegar af nýjustu löggjöf nágrannaþjóða, einkum Dana og Norðmanna, sem nýverið hafa endurskoðað ýmis ákvæði á þessu sviði og sett nýjar reglur.

Í samræmi við þetta gerir frv. ráð fyrir því, að sams konar reglur gildi um veitingu tannlækningaleyfis og nú gilda um veitingu almenns lækningaleyfis. Fimm fyrstu gr. frv. fjalla um þetta, og eru þær efnislega shlj. 4 fyrstu gr. læknal. Frv. gerir enn fremur ráð fyrir, að ýmis ákvæði læknal. gildi áfram um tannlækna, svo sem verið hefur. Þetta eru ýmist ákvæði, þar sem tannlæknar eru nefndir beinlínis, eða almenn ákvæði, sem gilda um alla, sem einhvers konar lækningaleyfi hafa fengið.

Veigamesta nýmæli l. er að finna í 9. gr., þar sem er heimilað, að tannlæknar hafi sérhæft aðstoðarfólk sér til hjálpar. Skýr ákvæði um efni þessarar gr. hefur vantað í núgildandi lög, og var það eitt með öðru ástæðan til þess, að brýna nauðsyn bar til, að tannlæknalög yrðu nú endurskoðuð.

Hér er gert ráð fyrir því, að það fyrirkomulag við vinnu á tannlæknastofum, sem nú orðið tíðkast, bæði hér og í nágrannalöndum okkar, verði heimilað berum orðum. Auk tannlækna starfa nú á tannlæknastofum yfirleitt tannsmiðir og aðstoðarfólk, ýmist við afgreiðslu eða við aðstoð við tannlækninn að störfum. Í nágrannalöndum okkar, t. d. í Danmörku, eru sérstök ákvæði um þetta aðstoðarfólk. Í Danmörku eru t. d. nýsettar reglur um „tandplejere“, og eru þær frá 31. ágúst 1972, en frá sama degi eru einnig reglur um „klinikassistenter for tandleger“. Ég tel rétt, að kannað verði, hvort og að hve miklu leyti nauðsynlegt er að setja slíkar sérreglur um nám og menntunarskilyrði og þá réttindi þessara stétta hér á landi. Um tannsmiði gilda þær sérreglur, að þeir hafa hingað til verið menntaðir af tannlæknum sjálfum, sem hafa rekið nokkurs konar tannsmíðaskóla, og þar hafa viðkomandi lokið prófi og fengið skírteini sín og réttindi. Hvernig svo sem ákveðið verður í framtíðinni að haga menntun þessara stétta, taldi n. eðlilegt, að endanlegt starfsleyfi eða löggildingu fengju þessar stéttir eins og aðrar heilbrigðisstéttir hjá heilbrrh., enda sanni þær fyrir honum, að menntun hvers og eins uppfylli þau skilyrði, sem lög setja fyrir slíku starfsleyfi.

Að öðru leyti, held ég, að ekki sé þörf á því að rekja frekar ákvæði þessa lagafrv. Ég leyfi mér að vísa í grg. þá, sem frv. fylgir, og legg til. herra forseti, að frv. verði að lokinni 1. umr. vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og trn.