25.03.1974
Neðri deild: 89. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3081 í B-deild Alþingistíðinda. (2754)

Umræður utan dagskrár

Matthías Á. Mathiesen:

Herra forseti. Ég vil, áður en ég hef mál mitt hér utan dagskrár, taka það fram, að mér finnst það ekki óeðlilegt, til þess að þingstörfin geti haldið eins og skyldi, þá fari forseti að eins og hann hér hefur gert, ljúki þeim málum, sem ágreiningslaus eru og hægt er að koma til n., og ljúki þeim atkvgr., sem fram fara. — En ástæðan fyrir því, að ég hef hér kvatt mér hljóðs, herra forseti, utan dagskrár, eru þau skoðanaskipti 3 ráðh. og formanns Samtaka frjálslyndra og vinstri manna, sem áttu sér stað í hljóðvarpi og sjónvarpi s.l. laugardag og sunnudag vegna samkomulags ríkisstj. um viðræðugrundvöll við Bandaríkjamenn um endurskoðun varnarsamningsins, sem utanrrh. afhenti utanrmn. s.l. föstudag sem trúnaðarmál. Orsök þessara furðulegu vinnubragða ráðh, mun vera sú, sem ekki verður hægt að skilgreina öðruvísi en sem trúnaðarbrot hæstv. iðnrh., Magnúsar Kjartanssonar, þegar hann í viðtali við dagblaðið Þjóðviljann s.l. laugardag lætur hafa eftir sér, í hverju viðræðugrundvöllurinn sé fólginn og hvað hann í raun og veru þýðir. Þessi vinnubrögð eru furðuleg, og ber harðlega að gagnrýna og mótmæla. Ráðh. lætur hafa eftir sér í dagblaði frásögn um skjal, sem afhent hefur verið af utanrrh. sem trúnaðarmál, í utanrmn., en ekki hefur enn verið lagt fram á Alþ. Ráðh. hefja skoðanaskipti, jafnvel komnir í hár saman í fjölmiðlum um málefni, sem farið er með sem trúnaðarmál í utanrmn. Alþ. og þjóðinni hefur ekki verið kunngert af réttum aðilum. Það eru hafnar deilur á opinberum vettvangi, ekki á Alþ., um það, hvort viðræðugrundvöllurinn, eins og skjalið er nefnt í Fréttatilkynningu ríkisstj. s.l. laugardag, sé úrslitakostir ríkisstj. og hvort neitun eins af stjórnarfl. við breytt. á umræðugrundvellinum muni leiða til þess, að forsrh. telji sér skylt samkv. samkomulagi stjórnarfl. að leggja fram á Alþ. till. um uppsögn varnarsamningsins. Það er skoðun mín, að slík framkoma sé ekki ráðh. og Alþ. samboðin. Hér er ekki um neitt smámál að ræða, hér er um að ræða öryggismál íslensku þjóðarinnar, mál, sem varðar sjálfstæði og sjálfsákvörðunarrétt hennar, og stærra mál getur ekki fyrir borið.

Eins og málum er nú komið af völdum ráðh., tel ég ekki hjá því komist, að ríkisstj. birti viðræðugrundvöllinn nú þegar, svo að Alþ. fái tækifæri til þess að skoða málið og ræða og þjóðin öll fái frá réttum aðilum það samkomulag, sem stjórnarfl. hafa gert, en þurfi ekki að mynda sér skoðanir um málið eftir orðaskiptum ráðh. í hljóðvarpi og sjónvarpi. Hvort verður hægt að fá samhljóða skýringar eða skilning stjórnarfl. á þessu samkomulagi frekar en öðrum yfirlýsingum, sem ríkisstj. hefur gefið, skal hér engu um spáð, en tilefni hefur gefist til þess að spyrja hæstv. forsrh. nokkurra spurninga, sem e.t.v. gætu nú þegar varpað ljósi á hegðun ráðh. í máli því, sem nú er rætt um, og við fengið frá forsrh. skilning hans á þeim atriðum, sem ráðh. hafa í orðsendingum sínum gert aths. við.

Spurningar mínar til hæstv. forsrh. eru þessar: 1. Telur forsrh., að viðræðugrundvöllur ríkisstj. sé úrslitakostir til viðsemjenda?

2. Ef svo er ekki, telur forsrh. það skyldu sína að leggja fram till. um uppsögn varnarsamningsins, ef einn af stjórnarfl. neitar að samþ. breyt. á viðræðugrundvellinum, eins og hann hefur verið lagður fram?

3. Hefur utanrrh. umboð ríkisstj. til þess að gera breyt. á viðræðugrundvellinum, þegar umr. fara fram um endurskoðun varnarsamningsins?

4. Er forsrh., eins og málum er nú komið, ekki reiðubúinn að birta umræðugrundvöllinn opinberlega?