25.03.1974
Neðri deild: 89. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3082 í B-deild Alþingistíðinda. (2755)

Umræður utan dagskrár

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Ég hef kvatt mér hljóðs utan dagskrár til þess að fá úr því skorið á óyggjandi hátt, hvers eðlis till. þær í varnarmálum séu, sem hæstv. ríkisstj. gerði á fundi sínum, ég hygg s.l. fimmtudag. Og þegar ég spyr um, hvers eðlis þessar till séu, þá á ég við það, hvort þær séu úrslitakostir til gagnaðila eða hvort þær séu drög að umræðugrundvelli en ég hygg, að ýmsir ráðh. leggi þann skilning í það mál, og veit það.

Þegar dagblaðið Þjóðviljinn kom út s.l. laugardag, sá ég, að þar var á forsíðu mikil grein, sem var í raun og veru viðtal við hæstv. iðnrh. Og af þeirri grein var ekki annað að sjá en að þarna væri um hreina úrslitakosti að ræða, og vakti það strax furðu mína, því að mér fannst tæpast vera hægt að fara þannig af stað með fyrstu till. ísl. ríkisstj., þar sem hún væri að hefja endurskoðunarviðræður sínar við Bandaríkin í raun og veru. Ég átti því tal um þetta við ráðh. Samtaka frjálslyndra og vinstri manna, þá Björn Jónsson og Magnús Torfa Ólafsson, og þegar við höfðum athugað ummæli Þjóðviljans þá kom okkur saman um, að það væri nauðsynlegt að fá birta yfirlýsingu frá okkar hendi varðandi þetta mál. Þannig hafði verið á málum haldið, að þessi frásögn hæstv. iðnrh. var birt, þegar vitað var, að engin dagblöð kæmu út næstu daga, a.m.k. ekki til næsta þriðjudags og e.t.v. ekki um lengri tíma, þar sem verk fall hafði verið boðað. Þess vegna töldum við rétt, að það kæmi fram strax í fjölmiðlum, hljóðvarpi og sjónvarpi, að sá skilningur, sem hæstv. iðnrh. legði í þessar till., væri ekki réttur að okkar dómi. Það er rétt, að ég lesi hér orðrétt þá orðsendingu, sem við fengum hirta í útvarpinu á laugardagskvöldið. Þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Í Þjóðviljanum í dag, laugardaginn 23. mars, segir svo í forsíðugrein undir fyrirsögninni „Herinn burt“: „Nú reynir á framkvæmdina, en það mun liggja fyrir innan næstu vikna, hvort Bandaríkjamenn fallast á till. ríkisstj. eða hvort Alþ. segir upp herstöðvasamningnum, eins og ríkisstj. mun gera till. um, ef Bandaríkjamenn fallast ekki á till. ísl. ríkisstj.

Samkv. þessu voru fyrstu till. Íslendinga í endurskoðunarviðræðunum jafnframt úrslitakostir, það dylst engum. En það er alrangt, og verður að mótmæla því harðlega. Hér er í fyrsta lagi fullyrt, að Alþ. segi herstöðvasamningnum upp, ef Bandaríkjamenn fallist ekki á þessar fyrstu till. ríkisstj. Í annan stað er hér fullyrt, að ríkisstj. muni leggja fram till. um uppsögn herstöðvasamningsins, ef Bandaríkjamenn fallist ekki á till. ísl. ríkisstj. eins og þær liggja fyrir.

Báðar þessar staðhæfingar eru rangar. Allir vita, að ekkert er kunnugt um, hvað Alþingi geri, ef þessum till. verði hafnað. Til þess kasta, þ.e.a.s. þingsins, hefur málið ekki ennþá komið. Þá er seinni fullyrðingin einnig gagnstæð hinu rétta. Ráðherrar Alþbl. hafa að undanförnu krafist þess, að till. þær, sem ríkisstj. nú legði fram, yrðu jafnframt úrslitakostir. Þeim kröfum hafa bæði ráðh. Framsóknar og SF hafnað og talið slíkt ósæmileg vinnubrögð, fyrstu tillögur af okkar hendi geta ekki jafnframt verið úrslitakostir og enginn geti bundið afstöðu sína til væntanlegra gagntill. Bandaríkjamanna fyrir fram. Það yrði þá fyrst gert, er þær hefðu borist og hlotið nauðsynlega skoðun.

Það eitt er því sannleikanum samkv. í þessu máli, að ríkisstj. hefur enga úrslitakosti sett, heldur aðeins komið sér saman um fyrstu till. af okkar hendi í viðræðunum um endurskoðun varnarsamningsins frá 1951 við Bandaríki Norður-Ameríku.

Reykjavík, 23. mars 1974.

Hannibal Valdimarsson,

formaður SF.

Magnús T. ólafsson,

menntmrh.

Björn Jónsson,

fél.- og samgrh .“

Þegar þessi mótmæli okkar og leiðrétting hafði verið birt, þá var vikið að þessu í útvarpi á sunnudaginn og samkv. útskrift, sem ég hef frá útvarpinu um það, hvað Magnús Kjartansson iðnrh. hafði sagt, stendur þetta. Ráðh. sagði:

„Það hefur aldrei verið okkar ætlun að leggja fram úrslitakosti. Íslendingar hafa yfirleitt ekki þann hátt á, hvorki í viðræðum við aðrar þjóðir — né sín á milli. Hitt er alveg ljóst, að hér hefur verið gert samkomulag á milli stjórnarflokkanna, og því samkomulagi verður ekki breytt, nema allir stjórnarflokkarnir séu sammála um það.“

Fyrst er hér viðurkennt, að ekki sé um úrslitakosti að ræða, en svo er fullyrt, að samkomulag hafi orðið á milli ríkisstjórnarflokkanna og því samkomulagi verði ekki breytt, nema allir stjórnarflokkarnir séu sammála um það.

Nú var aðallega vitnað í formála að hinni miklu grein, sem var aðdragandi að viðtalinu við hæstv. iðnrh., Magnús Kjartansson, og nú kynnu menn að segja: Hugsanlegt væri það, að dagblaðið Þjóðviljinn hafi nú einu sinni hallað réttu máli og hallað á sinn ráðh. og ekki farið rétt með hans fullyrðingar. Þess vegna tel ég nauðsynlegt að grandskoða það, hvort þetta eru fullyrðingar blaðsins og styðjist ekki við það, sem ráðh. sagði í viðtalinu. Ég fór því vandlega í gegnum viðtalið sjálft, og þar var ekkert um að villast, blaðið hafði ekki hallað orðum ráðh., heldur hafði ráðh. ekki aðeins einu sinni heldur þrisvar í viðtalinu fullyrt, að hér væri um óumbreytanlegar, endanlegar till. að ræða af hendi ríkisstj., og skal það nú rakið frá orði til orðs, eins og í viðtalinu stendur.

Það er strax í upphafi viðtalsins, sem við lesum svohljóðandi kafla, með leyfi hæstv. forseta, orðrétt:

„NÚ hefur endanlega verið gengið frá brottflutningi bandaríska hersins frá Íslandi og áfangaskiptum brottflutningsins“. — Endanlega verið gengið frá brottflutningi handaríska hersins frá Íslandi. Nokkru seinna í viðtalinu kemur að vísu afsökun um, að brottflutningurinn dragist um eitt ár, en síðan segir orðrétt: „En hitt er að sjálfsögðu meginatriði þessa máls, að nú hefur verið tekin endanleg ákvörðun um það, hvernig brottflutningi herliðsins verði háttað og settar hafi veríð ákveðnar dagsetningar í því skyni.“ — Þarna er ekki verið að gefa í skyn, að hér hafi verið lögð fram drög að umræðugrundvelli, heldur er sagt, að hér sé um endanlega ákvörðun að ræða og hvernig brottflutningi herliðsins verði háttað, og settar um það ákveðnar dagsetningar. Ekki er hér með búið. Það þarf að undirstrika enn betur, að hér sé um úrslitakosti og ekkert annað að ræða, því að undir lok viðtalsins segir hæstv. iðnrh. orðrétt: „Hins vegar er nú fastmælum bundið í ríkisstj., hvernig herinn fer að fullu og öllu, og gengið hefur verið frá öllum áföngum í því sambandi. Framkvæmd á þessum ákvæðum samkomulags ríkisstj. er aðeins áfangi, en full framkvæmd þess samkomulags styrkir mjög aðstöðu okkar til að halda baráttunni áfram og að leiða hana til endanlegs sigurs.“ — Þetta er enn orðrétt eftir ráðh. haft í samtalinu: „Í þessu sambandi er afar mikilvægt, að sem allra víðtækust samstaða takist um framkvæmd þessarar ákvörðunar ríkisstj., svo að unnt verði að tryggja það, að hún verði að veruleika á tilteknum tíma.“

Hvernig er nú hægt að hefja framkvæmdir á fyrstu drögum samkomulagsgrundvallar? Það er vitanlega ekki hægt. Hér er sífellt talað um og margendurtekið, að hér sé um endanlegar ákvarðanir að ræða, fastmælum bundið í ríkisstj. að hvika ekki frá þessu o.s.frv., og talað um framkvæmdina á þessum till. Hér er á allan hátt, þrisvar sinnum eða fjórum sinnum, endurtekið, að komið sé að framkvæmdinni í þessu máli, því að hið síðasta orð hafi verið sagt. En ráðh. míns flokks báðir segja, að þetta sé ekki rétt, hér hafi einungis verið lögð fram drög að samkomulags- eða umræðugrundvelli.

Nú er það ósk mín, að þessi ósamhljóða ummæli ráðh. séu borin undir hæstv. utanrrh. eða forsrh., ég treysti þeim báðum jafnvel til að segja þingheimi, hvað er hið rétta og sanna í þessu máli. Það hefur mikið að segja á þessari stundu, að það sé gert ljóst,hvort íslenska ríkisstj. hefur sent frá sér loka- og úrslitakosti eða hvort verið er með þessum till. að leggja grundvöll að umr. og það meira að segja drög að grundvelli umræðna. Vitnisburðum ber hér ekki saman, og hér verðum við að fá það á hreint, hvert er eðli þessara till.