25.03.1974
Neðri deild: 89. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3091 í B-deild Alþingistíðinda. (2758)

Umræður utan dagskrár

Heilbr.- og trmrh. (Magnús Kjartansson):

Herra forseti. Ég þarf ekki að bæta miklu við þessa skýru ræðu hæstv. forsrh., þar sem hann gerði grein fyrir öllum meginatriðum í sambandi við þetta mál, en vildi gera aths. við nokkur atriði, sem beint hefur verið til mín persónulega.

Hv. þm. Matthías Mathiesen, bar það upp á mig, að ég hefði framið trúnaðarbrot, og kallaði það furðuleg vinnubrögð, sem bæri að gagnrýna og fordæma, að ég hefði svarað spurningum um það, bæði í sjónvarpi og í viðtali við Þjóðviljann, hvað fælist í þeim ákvörðunum ríkisstj., sem teknar voru á síðasta fundi, á fimmtudaginn var. Það var einmitt rætt um þetta atriði á þessum ríkisstj: fundi, hvernig ráðh. skyldu bregðast við, þegar þeir væru um það spurðir, hvað hefði gerst á fundinum og hvaða ákvarðanir hefðu verið teknar. Og það var mat manna, að ráðh. bæri að svara því efnislega, hvað í þessum till. fælist, vegna þess að það vissu allir, að þessi mál höfðu verið til athugunar hjá ríkisstj. um langt skeið. Það hefur verið greint frá hinum upphaflegu till. hæstv. utanrrh. Það hefur verið greint frá því, að SF og Alþb. höfðu flutt sínar till. um málið. Það vissu allir, hvað í þessum till. fólst í meginatriðum. Það hefur komið fram í fjölmiðlum á margvíslegan hátt, þannig að það var gersamlega ástæðulaust að fela meginefni þessara till. En að sjálfsögðu var ákveðið, að ekkert yrði um þær sagt efnislega, fyrr en búið væri að afhenda bandaríska sendiherranum í Reykjavík till. og leggja þær fyrir utanrmn., og þannig var á þessu máli haldið af okkur öllum ráðh., þannig að ásökunum um trúnaðarbrot vísa ég til föðurhúsanna.

Hv. þm. Hannibal Valdimarsson vill halda því fram, að í Þjóðviljanum hafi verið komist svo að orði margsinnis, að hér hafi verið um úrslitakosti að ræða, og hann fór hér með margar tilvitnanir í því sambandi, þar sem hvergi var að vísu talað um úrslitakosti. Nú tel ég, að minn ágæti samherji og samstarfsráðh. í tvö ár, Hannibal Valdimarsson, hefði getað haft einfaldari hátt á því að átta sig á því, hvað ég var að fara, heldur en fara með það í gegnum fjölmiðla og Alþ., t.d. bara með því að hringja til mín, vegna þess að mér hefur aldrei komið til hugar, að hér væri um úrslitakosti að ræða. Ef minn ágæti samherji Hannibal hefði haft þennan hátt á, þá hefðum við getað losnað við mikinn hávaða og margvíslega óvissu hjá almenningi. Við Íslendingar höfum ekki, eins og útvarpið hafði eftir mér í gær, þann hátt á að bera fram úrslitakosti, hvorki í samskiptum okkar við aðrar þjóðir né í samskiptum okkar innbyrðis. Við höfum ævinlega lýst yfir því, að við höfum á því fullan hug að ná samkomulagi við Bandaríkin um tilhögunina á brottför hersins. Það hefur verið sameiginleg stefna okkar að reyna að gera þetta í sem bestu samkomulagi við Bandaríkin, og að sjálfsögðu er þessi afstaða algerlega óbreytt. Þetta er það, sem við óskum eftir, vegna þess að við viljum eiga góð samskipti við Bandaríkin á öðrum sviðum eftirleiðis. Og við teljum, að þegar þetta mál, sem er tvímælalaust mjög viðkvæmt ágreiningsmál á milli landanna, er úr sögunni, þá eigi samskipti okkar og Bandaríkjanna að geta eflst á öllum eðlilegum sviðum.

En í sambandi við það verk, sem ríkisstj. hefur verið að vinna nú undanfarna mánuði, þá er það í því fólgið, að ríkisstj. hefur verið að koma sér saman um það, hvernig framkvæma skuli í einstökum atriðum þau almennu fyrirheit, sem gefin voru í málefnasamningnum, þau fyrirheit, sem samin voru af okkur, hópi manna, sem að því unnu, en í þeim hópi var m.a. hv. þm. Hannibal Valdimarsson. Við höfum verið að fjalla um það núna að undanförnu, hvernig að þessari framkvæmd skyldi staðið í einstökum atriðum, þ.e.a.s. hvernig brottflutningi liðsins skyldi háttað, og í öðru lagi, hvernig bæri að túlka skuldbindingar okkar gagnvart NATO í ljósi þeirra fyrirvara, sem settir voru 1949. Það eru þessi atriði, sem við höfum fjallað um í ríkisstj., og við höfum komið okkur saman um stefnu ríkisstj. um það, hvernig á þessu skuli haldið, lið fyrir lið. Við höfum farið ofan í þetta lið fyrir lið. Okkur hefur stundum sýnst sitt hvað, eins og gengur, en niðurstaðan er sú, að við höfum náð sameiginlegu samkomulagi. Það er um þetta samkomulag eins og öll önnur, að að sjálfsögðu verður því ekki breytt nema með samþykki allra þeirra, sem samkomulagið hafa gert. Það á ekkert frekar við um Alþb. en um SF eða Framsfl. Því samkomulagi, sem stjórnarflokkarnir hafa gert núna, verður að sjálfsögðu ekki breytt, nema samþykki þessara flokka allra komi til. Þetta er engin nýjung og ekkert, sem þarf að hrópa um. Þetta hljóta allir félagsvanir menn að vita, að þannig er að þessum málum staðið, þegar flokkar eða aðilar hafa samvinnu sín á milli. Og þetta á við um þetta mál eins og öll önnur.

En í sambandi við tal manna um þessar viðræður okkar við Bandaríkin um tilhögun þessara mála, þá hefur mér fundist nú að undanförnu, að það er eins og sumir séu farnir að tala um eins konar tvöfalda lögsögu á Íslandi, það sé ekki málefni okkar Íslendinga einna, hvernig við högum málum á Íslandi, heldur þurfum við að semja um það við erlenda ríkisstj., hvernig við högum málum hér á okkar landi. Þennan tón hef ég séð ákaflega greinilega, m.a. í Morgunblaðinu. Og ef þetta er viðhorf, sem er uppi hjá einhverjum þorra þjóðarinnar, þá er það vægast sagt ákaflega alvarlegt. Og ég vil leyfa mér að treysta því, að það sé þó a.m.k. enginn maður hér inni á hinu háa Alþ., sem hafi slíkar hugmyndir um réttarstöðu okkar Íslendinga. Það datt engum manni neitt slíkt í hug, þegar varnarsamningurinn svokallaði var gerður 1951. Í 4. gr. hans var ákvæði, eins og hæstv. forsrh. minnti á áðan, sem var svo hljóðandi:

„Það skal háð samþykki íslensku ríkisstj., hversu margir menn hafa setu á Íslandi samkv. samningi þessum.“

Og 5. gr. lýkur með þessum orðum:

„Ekkert ákvæði þessa samnings skal skýrt þannig, að það raski úrslitayfirráðum Íslands yfir íslenskum málefnum.“

Þeir menn, sem gerðu varnarsamninginn, vildu gera það alveg ljóst, að þessi samningur mætti í engu raska ákvörðunarvaldi okkar Íslendinga, og það liggur fyrir, að það er ekki samningsatriði milli okkar og ríkisstj. í öðru landi, hvernig við eigum að haga málum hér á Íslandi. Þetta hljóta allir þm. að gera sér ljóst. Og eins og hæstv. forsrh. tók fram áðan, höfum við um það margfaldar yfirlýsingar bandarískra stjórnarvalda, að þau geri sér þetta ljóst að fullu. Og bandarísk stjórnarvöld vita ákaflega vel, að þegar ríkisstj. Íslands hefur tekið ákvörðun um, hvernig hún telur, að eigi að skipa málum hér á Íslandi, þá getur bandarísk ríkisstj. ekki gert um það neinar aths. af sinni hálfu. Það er okkar mál. En ef málum er virkilega svo komið, eins og mér hefur virst á Morgunblaðinu, að menn séu farnir að ímynda sér, að hér á Íslandi sé um að ræða tvöfalda lögsögu, það sé ríkisstj. Íslands og ríkisstj. Bandaríkjanna, sem eigi að koma sér saman um, hvernig málum sé háttað hér á Íslandi, þá er það sönnun fyrir því, að þetta hernám hefur staðið svo lengi, að menn eru farnir að misskilja grundvallaratriðið í íslenskum stjórnmálum.

Hv. þm. Gunnar Thoroddsen kvaðst óska eftir því, að efnt verði til almennra umr. um þessi mál á þingi og gefið fullt svigrúm til þess að ræða það. Hæstv. forsrh. lýsti því yfir, að hann teldi, að það væri skynsamlegra af okkur að ræða þessi mál ekki allt of mikið, meðan þau væru á viðkvæmu viðræðustigi. Í sjálfu sér skil ég þetta viðhorf hæstv. forsrh. mætavel. Þetta væru eðlileg vinnubrögð ef allt væri með felldu hér á Íslandi. Það eru eðlileg vinnubrögð, þegar utanrrh. Íslands á fyrir höndum erfiðar, viðkvæmar viðræður við stjórn Bandaríkjanna, að þá sé ekki á skipulegan hátt reynt hér á Íslandi að torvelda honum þetta mikilvæga starf, að það sé ekki reynt að koma í veg fyrir, að hann geti náð sem bestum árangri fyrir íslensku þjóðina. Þannig mundi þjóðin hugsa og þannig mundi hún hegða sér, ef hún bæri gæfu til að standa saman um sín örlagaríkustu mál. En svo er því miður ekki, eins og menn vita. Því miður er þannig haldið hér á málum, að viðsemjandi okkar getur hreinlega fært sér í nyt stjórnmálaástandið á Íslandi og litið á vissa íslenska stjórnmálamenn og stjórnmálaflokka sem umboðsmenn sína í þessum viðræðum við löglega kjörin íslensk stjórnarvöld.

Þetta er ákaflega alvarlegt ástand. Við skulum leiða hugann að þjóðfélögum, sem hafa lent í ástandi af þessu tagi. Það eru til slík þjóðfélög, ekki ýkjafjarlæg okkur. Ástandið á Írlandi er afleiðing af því, að Bretum tókst að kljúfa írsku þjóðina svo djúpt niður í grunn, að hún hefur ekki getað unnið saman síðan, og allir þekkja þær afleiðingar, sem af því hafa hlotist. Ég held, að íslenskir stjórnmálamenn ættu ekki að gera sér leik að því að reyna að sundra íslensku þjóðinni í viðhorfum til grundvallaratriða, eins og gert hefur verið nú að undanförnu, því að það er vissulega grundvallaratriði, hvort við eigum að stefna að því að lifa hér einir og frjálsir í landi okkar eða búa við erlenda hersetu um ófyrirsjáanlega framtíð. Það er ágreiningur um grundvallaratriði. (Gripið fram í: En við viljum ekki ástandið í Tékkóslóvakíu.) Nei, það vill enginn ástandið í Tékkóslóvakíu. Ég er alveg sammála hv. þm. um það. En var það ekki svo, að því var haldið fram, að þeir sem hernámu Tékkóslóvakíu, hafi gert það samkv. pöntun í undirskriftum, og eru ekki undirskriftir í gangi hér á Íslandi, sem fara fram á það, að hér verði erlendur her um ófyrirsjáanlega framtíð? Ég las það í Morgunblaðinu fyrir nokkrum árum, að þar var sagt, að ef Alþ. Íslendinga og íslensk stjórnvöld hefðu þá lélegu dómgreind til að bera að óska eftir því, að herinn færi, þá ætti bandaríski herinn að hafa vit fyrir Íslendingum. Þetta stóð í Morgunblaðinu. (Gripið fram í: Það var aðsend grein.) Það var aðsend grein undir fullu nafni eftir einn helsta sérfræðing Morgunblaðsins í utanríkismálum. En þessi grein birtist í Morgunblaðinu, og Morgunblaðið hefur ekki enn andmælt henni. Kannske ég biðji hv. þm. Gunnar Thoroddsen, formann þingflokksins, að greina mér frá því, hvað skoðun hann hafi á þessari kenningu. Er hann þeirrar skoðunar, ef íslensk stjórnvöld og Alþ. Íslendinga ákveða, að bandaríski herinn eigi að fara, að herinn eigi engu að síður að sitja hér með ofbeldi?

En eins og nú er komið og vegna þess að þjóðhollusta manna er af svo skornum skammti sem dæmin sanna og eðlileg samvinna manna á viðkvæmum augnablikum, þá tel ég það algerlega óhjákvæmilegt, að um þetta fari fram sem viðtækastar umr., og ég tel alveg sjálfsagt, að það verði gerðar ráðstafanir til þess, að þær komi einnig fram á Alþ. og í sjónvarpi, því að ég tel þjóðina eiga rétt á því að fylgjast með umr. um þessi mál.

Hv. þm. Gunnar Thoroddsen sagði, að ekki kæmi til mála, að utanrrh. færi til viðræðna við Bandaríkjamenn með það veganesti, sem samþ. var í ríkisstj. á fimmtudaginn var. Hvers vegna flytur þá þessi hv. þm. ekki till. um það veganesti, sem hann telur, að utanrrh. eigi að fara með með sér? Alþfl. hefur þó flutt till. hér á þingi um fyrirkomulag þessara mála. En hverjar eru till. Sjálfstfl.? Hvers vegna fáum við ekki að sjá í tillöguformi þann áróður, sem yfir okkur er demt í Morgunblaðinu dag eftir dag, viku eftir viku og mánuð eftir mánuð og felst í því, að ekki aðeins eigi herinn að vera kyrr, heldur eigi að auka hann, varnirnar séu of litlar? Það er eins og sumir séu farnir að hugsa gott til glóðarinnar, til manna, sem voru hér milli 1951 og 1956, þegar meira en 3 þús. Íslendinga störfuðu í þágu hernámsliðsins og meira en fjórðungur gjaldeyristeknanna kom af viðskiptum við það og þegar stefnt var að því að koma upp flugvelli á Suðurlandsundirlendinu og höfn þar í þágu hins erlenda hers? Hvers vegna flytur Sjálfstfl. ekki till. um þessa stefnu sína? Þá mundi reyna á það, hvort Alþ. vildi samþykkja slíka stefnu, og ef Alþ. samþykkti hana, þá yrði hún veganestið. En eins og málin standa, þá er hér ríkisstj., sem hefur markað ákveðna stefnu í þessu, stefnu, sem mörkuð var 1971, eins og hæstv. forsrh, rakti hér áðan, stefnu, sem allir hafa þekkt síðan 1971, og það er framkvæmd hennar, sem hæstv. utanrrh. fer með sem veganesti með sér. Ef allt hefði verið með felldu á íslandi, hefðu fylgt honum í þeim vandasömu viðræðum heilar óskir þjóðarinnar allrar, en ekki þær tilraunir til þess að sundra þjóðinni niður í grunn, sem Sjálfstfl. beitir sér fyrir.