25.03.1974
Neðri deild: 89. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3095 í B-deild Alþingistíðinda. (2760)

Umræður utan dagskrár

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Ég skal verða við tilmælum hæstv. forseta og reyna að hafa mál mitt eins stutt og mögulegt er. En orða verður ekki bundist, því að enn hefur gerst hneyksli á vegum ríkisstj. og í þetta skipti margfalt hneyksli.

S.l. föstudag er boðaður fundur í utanrmn. Þar leggur hæstv. utanrrh. fyrir nm. drög að umræðugrundvelli um endurskoðun á varnarsamningi Íslands og Bandaríkjanna og tekur fram, að um algert trúnaðarmál sé að ræða, sem með engu móti megi skýra opinherlega frá, þótt ekki væri af öðrum ástæðum en þeim, að væntanlegum samningsaðila hafi ekki verið tilkynnt þessi drög og muni væntanlega ekki verða gert fyrr en í næstu viku. Ég bað um sérstakt leyfi til þess að mega kynna þingfl. Alþfl. þessar till., að sjálfsögðu sem algert trúnaðarmál, og tók á því fulla ábyrgð, að þeim trúnaði yrði fylgt.

Þetta gerði ég strax síðdegis á föstudag, og enginn af þm. Alþfl. hefur að sjálfsögðu brotið þann trúnað, sem þeim þar með var sýndur.

En morguninn eftir les þjóðin í einu málgagni ríkisstj., Þjóðviljanum, frásögn af efnisinnihaldi þessara draga að umræðugrundvelli, og einn af ráðh. ríkisstj. er borinn fyrir, hæstv. iðnrh. Auðvitað er hér um augljóst og stórvítavert trúnaðarbrot að ræða. Hitt er þó öllu verra, að ráðh. skuli í viðtali sínu við Þjóðviljann skýra rangt frá. Hv. þm. Hannibal Valdimarsson hefur sýnt fram á það með skýrum dæmum, beinum tilvitnunum í viðtalið, að ráðh. sagði rangt frá innihaldi draganna. Það er þýðingarlaust, eins og hann gerði hér áðan, að karpa um það, hvort hann hafi notað orðið úrslitakostir eða ekki. Það er rétt, hann notaði það orð ekki. En það, sem hann sagði, jafngilti því, að um úrslitakosti væri að ræða. Frá hans sjónarmiði séð eru drögin úrslitakostir, eins og hann talaði við Þjóðviljann, og það kemur m.a. fram í því, eins og Hannibal Valdimarsson tók skýrt fram í ræðu sinni hér áðan, að ráðh. segir, að ef þessar till. verði ekki samþykktar, þá muni ríkisstj. flytja till. um uppsögn á samningnum. Og hann segir enn fremur, að hér sé um að ræða endanlega afstöðu af hálfu ríkisstj., sem ekki verði breytt nema allir þrír flokkar stjórnarinnar samþykki. Auðvitað væru þetta úrslitakostir, þó að þeir séu ekki kallaðir það. Og þó að ráðh. hafi orðið tvísaga í útvarpi og sjónvarpi og enn í ræðu sinni hér áðan, tvísaga miðað við það, sem hann sagði við Þjóðviljann, þá breytir það engu um eðli málsins. Þetta er hneyksli. Undir venjulegum kringumstæðum ætti það að gerast, að hæstv. forsrh. bæðist lausnar fyrir slíkan samstarfsmann í rn.

Hæstv. iðnrh. fremur nú hvert hneykslið á fætur öðru, bæði innanlands og utan, og ætti að vera nóg komið af slíku. Hér er að sjálfsögðu ekki ástæða til þess, í umr. utan dagskrár, sem eiga auðvitað að vera eins stuttar og mögulegt er, að ræða efni þessara draga að umræðugrundvelli. Til þess gefst ábyggilega tækifæri síðar. En ég get skýrt frá því sem niðurstöðu af umr. okkar þm. Alþfl. um þetta mál á föstudaginn var, að við teljum, að yrði gerður samningur á grundvelli þessara draga, þá fari því fjarri, að öryggis íslendinga sjálfra yrði gætt né heldur sameiginlegra öryggishagsmuna Íslendinga og nágrannaþjóða þeirra. Ég vil. að það komi skýrt fram hér við þessa umr., í fyrsta skipti sem málið ber á góma hér á hinu háa Alþ. eftir fundinn í utanrmn. og eftir samþykkt ríkisstj. á fimmtudaginn var, að þingfl. Alþfl. er því algerlega andvígur, að þessi drög verði gerð að stefnu íslensku ríkisstj. í væntanlegum viðræðum við Bandaríkjamenn. Það er líka best, að ekkert fari á milli mála um það, að ef lögð yrði fyrir Alþ. till. um samning, gerðan á þessum grundvelli, þá mun Alþfl. beita sér gegn honum af fyllstu hörku.

Hér er ekki staður né stund, eins og ég sagði áðan, til þess að rökstyðja þessa afstöðu, til þess mun gefast tilefni síðar. Þó get ég ekki látið vera að segja, að ef gerður yrði samningur á þessum grundvelli, þá væri öryggi okkar sjálfra stefnt í beina hættu. Ef gerður yrði samningur á þessum grundvelli, þá brygðust íslendingar skyldum sínum við nágrannaþjóðir sínar, við bandalagsþjóðir sínar í Atlantshafshandalaginu. Ef tekin yrði upp sú skipan, sem gert er ráð fyrir í þessum drögum, þá er ekki lengur hægt að gegna nauðsynlegum og sjálfsögðum eftirlitsstörfum frá vellinum með umferð umhverfis Ísland. En það er eitt meginhlutverk Keflavíkur flugvallar, að slíku eftirliti sé haldið uppi, því að það er ekki hægt að halda því uppi, ef gerður yrði samningur á grundvelli þessara draga. Og því má að síðustu bæta við, að ef þau kæmu til framkvæmda, sem þau vonandi gera aldrei, og ég er raunar viss um, að gerist aldrei, þá verður ekki betur séð en hægt væri fyrir fámennan hóp ofbeldismanna, sem kæmi aðvífandi, að ná tangarhaldi á vellinum og þar með stofna öryggi íslensku þjóðarinnar í alvarlega hættu.

Ég vil leggja á það sérstaka áherslu, að þessi samningsdrög grundvallast ekki á neinni athugun á hugsanlegri nýskipan mála á Keflavíkurflugvelli. Við höfum gert grein fyrir því, Alþfl: menn, í þeim till., sem við höfum flutt um málið, og það hefur margkomið fram í málflutningi af okkar hálfu, að við teljum margs konar breytingar á skipan mála á Keflavíkurflugvelli nauðsynlegar, eðlilegar og sjálfsagðar. Og við höfum gert grein fyrir því, í hverju við teljum þær eigi að vera fólgnar í meginatriðum. En engin slík athugun hefur verið gerð af hálfu hæstv, ríkisstj. Þetta samkomulag, sem gert var s.l. fimmtudag, er niðurstað,a af pólitískum hrossakaupum og ekkert annað, engin skynsamleg athugun liggur til grundvallar á því, hvað hægt væri að gera, hvað þyrfti að gera, hvað eðlilegt væri að gera til breytingar á skipan mála á Keflavíkurflugvelli.

Hæstv. forsrh. sagði í lok ræðu sinnar áðan, að hann teldi, að menn ættu að haga orðum sínum varlega í umr. um þetta mál, og hann réð frá því, að efnt yrði til umr. um málið af ótta við það, að óeðlileg harka færðist í þær umr. og það gæti skaðað málflutning Íslands á erlendum vettvangi, það gæti gert stöðu hæstv. utanrrh. erfiðari en æskilegt væri. Ég get mjög vel skilið þetta sjónarmið hæstv. forsrh., og ég vil ekkert gera og engan þátt í því eiga að gera aðstöðu hæstv. utanrrh. erfiðari en efni standa til. Þvert á móti mundi ég og minn flokkur vilja stuðla að því, að hans aðstaða yrði gerð sem sterkust í þeim samningaviðræðum, sem væntanlegar eru. En ég vil benda hæstv. forsrh. á það, hvernig samstarfsráðh. hans hegðar sér. Það þarf ekki annað en líta á forsíðu Þjóðviljans á laugardaginn var til að sjá það hugarfar, sem þar býr að baki. Er ekki þar verið að efna til stórdeilna um málið? Þar eru hótanir og brigslyrði í hverjum einasta dálki yfir alla forsiðuna, stóryrði, sem eru til þess fallin að skipta þjóðinni í tvær andstæðar, ef ekki fjandsamlegar fylkingar. Ég vildi því beina því til hæstv. forsrh., — það þarf ekki að beina því til okkar í Alþfl., — að efna ekki til ástæðulausra og skaðlegra deilna um málið. Hann ætti að beina atorku sinni að því að reyna að siða samráðh. sinn í þessu máli. Af því veitir sannarlega ekki.

Þá vildi ég að síðustu benda á, að eitt er ekki rétt, sem kom fram í ræðu hæstv. forsrh. Mig minnir, að hann hafi tekið þannig til orða, að hann vissi ekki betur en a.m.k. stjórnarflokkarnir allir stæðu að þeim drögum, sem samþ. voru í ríkisstj. s.l. fimmtudag. Það kom fram af hálfu eins þm. Framsfl. í viðtali við dagblað á laugardaginn, að hann væri samkomulaginu andvígur. Það er því þegar komið opinberlega fram, að a.m.k. einn hv. þm, úr stuðningsliði stjórnarinnar er þeirri stefnu, sem í drögunum felst, andvígur. Og það er full ástæða til þess að ætla, að hann sé ekki einn á báti, heldur séu það fleiri, sem eru sama sinnis og hann.

Síðustu orð mín skulu vera þau, verða að vera þau, að benda á, að í raun og veru er þessi ríkisstj. orðin óstarfhæf. Hér er komið eitt dæmi enn, ein sönnunin fyrir því enn, að ríkisstj. er orðin óstarfhæf og ætti auðvitað að segja af sér. Það er öllum ljóst, að ríkisstj. er orðin óstarfhæf á sviði efnahagsmála, hún hefur misst stjórn efnahagsmálanna gersamlega úr höndum sér. Það er augljóst mál, að á fyrri hluta þessa árs verður verðbólgan tvisvar, þrisvar sinnum meiri en hún hefur verið að meðaltali um margra ára skeið, og á síðari hluta ársins benda allar líkur til, að verðbólgan verði fjórum sinnum meiri en hún hefur verið að meðaltali á undanförnum áratugum. Slíkt ber auðvitað vott um, að sú ríkisstj., sem við völd situr, er orðin algerlega óstarfhæf. Og þetta, sem nú er að gerast á sviði utanríkismála, hins aðalmálaflokksins, sem við er að etja í þjóðmálunum yfir höfuð að tala, bendir einnig til þess. Hún er að missa öll tök. Hún er að missa öll tök einnig á þessu mikilvæga máli, og þau samningsdrög, sem hún nú boðar, að hún muni leggja fram í viðræðum sínum við Bandaríkjamenn, eru þess eðlis að þau hljóta að kljúfa þjóðina í mjög fjandsamlegar fylkingar. Ég skal engar staðhæfingar viðhafa um það, hvor fylkingin sé stærri, þótt ég sé ekki í nokkrum minnsta vafa um það, að mikill meiri hl. þjóðarinnar er andvígur þeirri stefnu, sem í samningsdrögunum er. Ég geri mér ljóst, að þetta er auðvitað staðhæfing, sem ekki verður sönnuð og ekki fást endanleg úrslit um fyrr en í kosningum. En skoðun mín er engu að síður þessi. Og það er einnig augljóst mál. að með því að boða þessa stefnu og leggja hana fram, þá er Alþ. klofið í tvær fjandsamlegar fylkingar, ekki bara á milli stjórnar og stjórnarandstöðu annars vegar, heldur verður þegar vart við klofning í flokki sjálfs hæstv. forsætisráðherra. Þetta er alvarlegt mál. Þetta ætti að verða jafn grandvörum manni og honum til alvarlegs varnaðar. Það vita allir, hvaðan drögin eru upprunnin, þau eru upprunnin hjá ráðh. Alþb. og sérstaklega þeim þeirra, sem framdi það hneyksli, sem hér er verið að ræða um. En þegar hæstv. forsrh. lætur hafa sig til þess að fallast á þessi drög, sem umræðugrundvöll. er hann með því að efna til stóralvarlegs ágreinings, ekki bara með þjóðinni, heldur líka með þm. og jafnvel innan síns eigin flokks. Þess vegna held ég, að ekki sé hægt að draga aðra skynsamlegri og ábyrgari ályktun af stjórnleysi efnahagsmálanna og því, að ríkisstj. er einnig að missa tök á meðferð utanríkismálanna, en að ríkisstj. eigi að segja af sér og það strax.