25.03.1974
Neðri deild: 89. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3099 í B-deild Alþingistíðinda. (2761)

Umræður utan dagskrár

Jón Skaftason:

Herra forseti. Að gefnu tilefni og vegna nokkurrar óvissu, sem upp er komin um stöðu varnarmálanna nú, vil ég segja örfá orð við þessa umr, utan dagskrár, en geymi mér rétt til lengri ræðu um málið til síðari tíma, en eins og hér er fram komið, má reikna með því, að jafnvel í þessari viku verði umr. um þessi mál á hv. Alþ.

S.l. fimmtudag tókst samkomulag í ríkisstj, um drög að umræðugrundvelli um endurskoðun varnarsamnings Íslands og Bandaríkjanna. Þessi drög voru rædd í þingflokki framsóknarmanna þremur dögum áður eða mánudaginn 18. mars s.l. Í þeim umr. gerði ég ítarlega grein fyrir skoðunum mínum til þessara mála og lýsti því þá yfir, að ég gæti ekki stutt umrædd drög sem umræðugrundvöll. Ástæðan fyrir því er sú, að í þessum drögum kemur fram viljayfirlýsing um, að á örskömmum tíma verði landið gert varnarlaust og að a.m.k. eftir mitt ár 1976 verði eftirlits- og gæslustöðin hér í reynd lögð niður. Mín skoðun er sú, að slíkt þjóni ekki íslenskum hagsmunum, eins og aðstæður eru í dag. Enn fremur byggist þessi afstaða á því, að sú könnun efnisþátta öryggismála Íslands, sem lofað var að framkvæma, áður en ákvarðanir yrðu teknar í málinu, hefur aðeins að óverulegu leyti verið framkvæmd enn.

Í jan. s.l. samþykkti ég hins vegar í þingfl. framsóknarmanna drög að umræðugrundvelli um endurskoðun varnarsamnings Íslands og Bandaríkjanna með vissum fyrirvara. Þau drög voru að mínu viti verulega frábrugðin þeim, sem samþykkt voru í ríkisstj. s.l. fimmtudag, og bendi ég þá sérstaklega á II. kafla í báðum drögum. Við þá samþykkt er ég að sjálfsögðu reiðubúinn að standa. Til viðbótar þessu vil ég enn á ný lýsa yfir, að ég hef aldrei gefið neitt drengskaparloforð um að standa að uppsögn varnarsamningsins á þessu kjörtímabili. Þetta tók ég fram í þingfl. framsóknarmanna strax í upphafi, er stjórnarsáttmálinn var þar til umr., og hef ítrekað opinberlega þá afstöðu á fundum og í blöðum. Standi til boða að mínum dómi æskilegar breytingar á gildandi varnarsamningi frá 1951, styð ég þær og beiti mér þá að sjálfsögðu á Alþ. gegn uppsögn varnarsamningsins, komi fram till. um slíkt.