25.03.1974
Neðri deild: 89. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3104 í B-deild Alþingistíðinda. (2764)

Umræður utan dagskrár

Matthías Á. Mathiesen:

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. forsrh, svör hans við fsp. þeim, sem ég kom með hér í upphafi þessara umr. í dag. Hann las upp þau drög að viðræðugrundvelli, sem lögð voru fram á fundi utanrmn. s.l. föstudag sem trúnaðarmál þar. Hann svaraði einnig fsp. um það, hvort hér væri um úrslitakosti að ræða, og hann svaraði því neitandi.

Þegar hann kom að fsp. um það, hvort hann teldi sér skylt að leggja fyrir Alþ. till. til uppsagnar varnarsamningnum, ef samkomulag næðist ekki í ríkisstj., þá staðfesti hann það líka. Hann hafði vangaveltur um þessi mál og sagði, að það lægi ljóst fyrir samkv. þeim málefnasamningi, sem stjórnarflokkarnir gerðu í upphafi stjórnartímabilsins, hver stefna ríkisstj. væri, og næðist ekki samkomulag um endurskoðun samningsins, þá mundi hann leggja fram till. til uppsagnar á varnarsamningnum. Hann bætti því svo við, að þeir, sem ekki gætu fellt sig við samkomulagið, gætu farið úr ríkisstj., en hann mundi leggja till. fyrir Alþ. og það væri svo Alþingis að skera úr um málið. (Gripið fram í.) Hann bætti því við, rétt er það, að ef hann teldi sig ekki hafa þingstyrk, þá mundi hann segja af sér, og þótti engum mikið, að það hvarflaði að hæstv. forsrh., að ef hann hefði ekki þingmeirihluta, þá segði hann af sér. Hins vegar gat hann þess, að málið yrði lagt fyrir Alþ., það væri Alþ., sem endanlega mundi kveða á um í þessu máli. Þetta er ekkert nýtt, þetta hefur verið sagt alla tíð, og vonandi verður við það staðið.

En hæstv, forsrh. vék svo að þessum drögum, sem hann las hér upp, og ræddi þau út frá stjórnarsamningnum, málefnasamningi ríkisstj., og vék þar m.a. að því, sem hv. 5. þm. Reykv., Gunnar Thoroddsen, sagði hér, að hann teldi ekki meirihluta fyrir þessari stefnu meðal þjóðarinnar, og það væri ekki heldur meiri hl. fyrir stefnu ríkisstj. í þessu máli hér á Alþ. Hæstv. forsrh. véfengdi þetta, sagðist að sjálfsögðu ekki heldur geta haldið öfugu fram.

Hv. 1. þm. Sunnl. rakti hér örlítið áðan, hvernig staðan í þessu máli hefur verið, og það liggur ljóst fyrir, að hæstv. forsrh. hefur aldrei haft meira en 30 þm. hér á Alþ. með þeirri stefnu, sem hann boðaði í málefnasamningi ríkisstj., þegar hún tók við völdum. Það kom hér skýrt fram í ræðu hv. 2. þm. Reykn., Jóns Skaftasonar, hver hans afstaða er og hefur verið, og eins og hv. 1. þm. Sunnl. benti á, hefur hv. 3. þm. Norðurl. v., Björn Pálsson, skýrt frá því, að hann hafi ekki verið viðstaddur, þegar málefnasamningurinn var til umr., bæri enga ábyrgð á honum, sé andvígur stefnu hans, hann hefði verið heima að rýja.

Það er svo athyglisvert að bera saman ræður þeirra hæstv. iðnrh., Magnúsar Kjartanssonar, og hv. 3. þm. Vestf., Hannibals Valdimarssonar, um ræðu hæstv. forsrh.

Mér er ljóst, hvernig hv. þm. Hannibal Valdimarsson hefur skilið ræðuna, og hann hefur gert grein fyrir því hér, hvernig hann hefur skilið hana. Það er rétt og gott, að það kemur hér fram, og það er rétt að undirstrika það. Hitt er svo annað mál, að ef það er skoðað, sem hæstv. forsrh. sagði hér áðan, þá ber ekki á milli hjá honum og hæstv. iðnrh. Hæstv. iðnrh. sagði, að það hefði verið gert samkomulag í ríkisstj. á milli stjórnarflokkanna og því samkomulagi yrði ekki breytt, nema allir stjórnarflokkarnir væru sammála um það. Og hæstv. forsrh. sagði, að ef ekki yrði samkomulag í ríkisstj. um endurskoðun samningsins, þá mundi bann leggja til við Alþ., að varnarsamningnum verði sagt upp, svo framarlega, eins og hann skaut hér inn í áðan, að hann sé enn forsrh. Þegar þetta er — borið saman, þá sést, að þeim ráðh. Alþb. hefur verið veitt neitunarvald í þessu máli. (Gripið inn í.) Það er það, sem um var spurt í upphafi, hvernig hæstv. forsrh. liti á það, og hann hefur staðfest, að ráðh. Alþb. hafi neitunarvald í þessu máli.

Það mátti heyra ýmislegt fleira á ræðu hæstv. iðnrh. hér áðan, þegar hann ræddi um afstöðu Alþb. til þessarar endurskoðunar og vék orðum sínum að þeim hér í sölum Alþ. og um land allt, sem eru sannfærðir um, að það sé, eins og hann sagði sjálfur, ekki allt með felldu. Það verður aldrei allt með felldu, þegar öryggis- og varnarmál Íslands eru rædd, þegar í ríkisstj. sitja fulltrúar kommúnista. Það er staðreynd málsins. Og það var óheppilegt fyrir þennan hæstv. ráðh. að bera saman undirskriftir þess mikla fjölda íslendinga í sambandi við öryggis- og varnarmálin og undirskriftir þær, sem látnar voru gerast í Tékkóslóvakíu eftir innrás Sovétríkjanna á sínum tíma. Það var afar óheppilegt fyrir þennan ráðh. að bera saman þessar undirskriftir, annars vegar hér hjá okkur og hins vegar hjá ríki, sem löngu áður hafði verið tekið valdaráni af Sovétríkjunum, og þeir gátu ekki viðhaldið sínum völdum þar öðruvísi en koma með sinn eigin her þangað inn aftur.

Við, sem tölum í þessu máli, vörum við þeirri stefnu, sem hér er farið inn á. Við erum að gera það, eins og hv. 1. þm. Sunnl. sagði hér áðan, til þess að tryggja öryggis- og varnarmál íslensku þjóðarinnar.

Hæstv. iðnrh. vék að því, að það hefði hvergi komið fram, hver væri stefna Sjálfstfl. í þessum málum. Það er sjálfsagt að útvega honum, ef hann hefur ekki lesið það, þá bókun, sem fulltrúar Sjálfstfl. í utanrmn. gerðu, þegar till. eða drög að viðræðum við Bandaríkjastjórn voru lögð fyrir utanrmn. s.l. föstudag. Ég skal ekki eyða tíma þingsins nú í að lesa það upp hér, en þar er skýrt tekin fram gagnrýni á þær till., sem ríkisstj. hafði komið sér saman um, annars vegar og hins vegar, hverjar voru og eru till. sjálfstæðismanna í sambandi við öryggis- og varnarmál þjóðarinnar.

Ég skal ekki orðlengja þetta meir, herra forseti. Eins og ég gat um í minni fyrri ræðu hér í dag, taldi ég eðlilegt og rétt, eins og þessum málum var komið í sambandi við það trúnaðarbrot, sem hæstv, iðnrh. framdi með því að láta eftir sér hafa í Þjóðviljanum á laugardaginn innihald þessara till., að hér á Alþ. yrði gerð grein fyrir þeim umræðugrundvelli, sem þar var lagður fram, til þess að Alþ. gæti rætt þetta mál. Form, þingfl. Sjálfstfl., Gunnar Thoroddsen, ítrekaði það hér í sinni ræðu, og vonandi stendur ekki á stjórnarliðum að taka þátt í umr. um þessi mál hér á þingi.