26.03.1974
Sameinað þing: 69. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3111 í B-deild Alþingistíðinda. (2768)

Afgreiðsla mála úr nefndum

Björn Fr. Björnsson:

Herra forseti. Hv. síðasti ræðumaður byrjaði mál sitt með því að segja, að það væru miklar líkur til þess, að ýmsar n. á hv. þingi fengju högg, þar sem þm. var. En þegar lengra leið á, var það aðeins ein n., sem var illa vinnandi hér á Alþ., og sú n. var allshn. Ég get fullvissað þennan þm. og aðra hv. þm. um það, að hún er mjög vel vinnandi n., og m.a. má sjá það af dagskrá, sem liggur hér fyrir hv. þm., að af 12 málum, sem eru á dagskrá, eru afgreidd mál frá allshn. hvorki meira né minna en 7 talsins. Er þetta þó þriðja lota, sem við höfum tekið í afgreiðslu mála í n. Enn mega þm. eiga von á því, að það komi þó nokkur mál frá n., kannske ekki í þessari viku, en í upphafi þeirrar næstu, og þannig hlýt ég að geta lýst því yfir, að þessi n., sem var sérstaklega tilnefnd af hv. þm. sem illa vinnandi n., væri það ekki, heldur mætti telja hana í hinni fremstu röð, að því er vinnubrögð snertir í nefndum.

Ég gæti þá líka vikið að því, þó að hv. þm. sé ekki form. fjvn., að það eru ýmis mál í fjvn., sem hafa legið þar lengi og eru ekki síður mikilvæg, en till. sú, sem er hér til umr. frá fimmmenningunum um það, að í veisluhöldum á vegum hins opinbera skuli ekki vín haft um hönd. En að lokum get ég fullvissað þennan hv. þm. um það, að ég mun sem form. allshn. Sþ. gera mitt til þess, að þessi till. fái nú afgreiðslu úr allshn.