05.11.1973
Neðri deild: 14. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 354 í B-deild Alþingistíðinda. (277)

37. mál, Landhelgisgæsla Íslands

Flm. (Jóhann Hafstein) :

Herra forseti. Við sjálfstæðismenn höfum freistað þess á öllum þingum þessa kjörtímabils að koma fram breytingum á l. um Landhelgisgæslu Íslands, sem fyrst og fremst hafa haft það markmið að efla Landhelgissjóðinn. En þessar tilraunir okkar hafa ekki borið árangur. Ýmist hafa till. dagað uppi eða þá hlotið afgreiðslu, sem ekki hefur í raun og veru orðið raunhæf. Við höfum þess vegna nú í þriðja sinn freistað þess að flytja þetta frv., og aðalefnið er þá það, að ríkissjóður leggi Landhelgissjóði árlegt framlag, sem nú er ákveðið 100 millj. kr. Það er önnur upphæð en áður var, en aðallega í sambandi við breytt peningagildi. Einnig leggjum við til, að heimilt sé að verja fé úr Landhelgissjóði til þess að búa Landhelgisgæslunni aðstöðu í landi miðað við framtíðarhlutverk hennar.

Eins og fram kemur af fskj. með þessu frv., hafa tekjur Landhelgissjóðsins verið nokkuð misjafnar frá ári til árs. Hins vegar er þetta gömul og virðuleg stofnun, sem sett var á laggirnar með lögum 1913, en í fskj. sést, hverjar tekjur sjóðsins hafa verið um 10 ára bil, frá 1962–972, og hafa þær verið misjafnar, eins og ég sagði áðan. Hér er einkum um að ræða sektir og upptöku fyrir landhelgisbrot, björgunarlaun og síðan vexti. Sá háttur hefur svo verið hafður á, að framlög hafa komið til Landhelgissjóðs úr ríkissjóði, eftir því sem á hefur skort, að sjóðurinn hefði nægjanlegt fjármagn til að sinna þeim verkefnum, sem honum hefur verið ætlað, fyrst og fremst tækjakaupum fyrir Landhelgisgæsluna, þ. e. a. s. kaupum á varðskipum, flugvélum og öðru svipuðu. Við sjáum við lauslega athugun, að þessir tekjuliðir eru mjög misjafnir. Þannig sjáum við, að sektir og upptaka fyrir landhelgisbrot eru árið 1963 um 2 millj. kr., en tæpar 6 millj. kr. árið 1969, svo misjafnt er þetta, og björgunarlaunin eru aðeins rúm 100 þús. árið 1964, en hins vegar liðlega 7 millj. kr. árið 1971. Þannig mun þetta sjálfsagt halda áfram, og skal ég ekki frekar út í það fara.

Ég minnist þess, að hæstv. forsrh. tók því mjög vel í fyrra, þegar svipað frv. var flutt, og taldi mjög nauðsynlegt að ætla Landhelgissjóði ákveðinn og fastan árlegan tekjustofn. Við sjálfstæðismenn fluttum einnig á fyrsta þingi þessa kjörtímabils till. um byggingu varðskips og áætlunargerð um eflingu Landhelgisgæslunnar, sem ekki náði fram að ganga, því miður, því að eflaust hefur það kostað ríkið milljónatugi, að ekki var þegar hafist handa þá um byggingu varðskips, og það átti í raun og veru öllum að mega vera ljós sú mikla þörf, sem var á því að efla varðskipastólinn og önnur tæki Landhelgisgæslunnar. Nú er sem betur fer búið að ákveða kaup á nýju varðskipi, sem ég hygg, að sé áætlað, að kosti eitthvað um 450 millj. kr., og er það töluvert miklu meira en helmingi hærra en kostnaður við byggingu Ægis, og þó hafa sparast milljónatugir við það, að hægt hefur verið að notast að verulegu leyti við teikningar að byggingu varðskipsins Ægis, en það skip hefur hlotið mjög góða reynslu, og við höfum í alla staði notið góðs af landhelgisgæslu þess.

Eins og kunnugt er, hefur Landhelgisgæslan verið nokkuð á hrakhólum varðandi aðstöðu í landi, og skal ég ekki á þessu stigi málsins fara frekar út í það. En þess vegna eru sérstök ákvæði um það í 2. gr., að heimilt sé að verja fé úr Landhelgissjóði — en um það voru ekki ákvæði áður, — til þess að efla aðstöðuna í landi. Var búið að gera ráð fyrir því á sínum tíma að búa Landhelgisgæslunni aðstöðu í landi, en frá því var horfið, eins og kunnugt er, og skal hér ekki frekar út í það farið.

Það er augljóst mál, að Landhelgisgæslan verður okkur nú kostnaðarsamari en áður. En við þurfum einnig að hafa í huga, að eftir því sem landhelgin stækkar, fiskveiðilögsagan rýmkast og auðlindalögsagan verður meiri, því meiri arð ætti þjóðin að hafa af sinni íslensku landhelgi, fiskveiðilögsögu og auðlindalögsögu. Það hefur einnig margt annað verið gert en að efla Landhelgisgæsluna á undanförnum árum með nýjum skipastóli og nýjum flugvélum, þó að það beinlínis sé ekki talið til Landhelgisgæslunnar, en það tilheyrir — skulum við segja — hagnýtingu íslensku auðlindalögsögunnar, og þar á ég sérstaklega við byggingu vísindalegra rannsóknaskipa eins og síldarleitarskipsins Árna Friðrikssonar, hafrannsóknaskipsins Bjarna Sæmundssonar, og Hafþór, eins og kunnugt er, hefur einnig verið í hafrannsóknum fyrir Íslendinga með verulegum árangri, þótt því hafi að sjálfsögðu fylgt mikill kostnaður.

Ég vil mega vona, að það þurfi ekki að verða deilur um þetta mál og ekki vífilengjur nú í þriðja sinn á þingi. Ekki skiptir máli, þó að einhverjar breyt. verði á frv., minni háttar breyt., en aðalatriðið er, að málið nái í höfn og fáist lögfestar fastar tekjur til eflingar Landhelgissjóði, og annað er okkur í raun og veru ekki sæmandi eins og nú standa sakir, svo mikið verkefni sem framundan er í þessu sambandi.

Ég legg svo til, herra forseti, að þessu máli verði að þessari umr. lokinni vísað til 2. umr. og hv. allshn.