26.03.1974
Sameinað þing: 69. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3113 í B-deild Alþingistíðinda. (2773)

265. mál, jarðhiti til ræktunar

Fjmrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Út af fsp. hv. 2. þm. Vesturl. á þskj. 483, vil ég gefa eftirfarandi svar.

Tvær þáltill. munu hafa verið samþykktar á Alþ. snertandi ylrækt. Sú fyrri var borin fram á árinu 1969 og afgr. 17. maí það ár, flutt af hv. þm. Ásgeiri Péturssyni, hin síðari af Steinþóri Gestssyni, hv. þm., og var samþ. 5. apríl 1972.

Landbrn. leitaði álits Sölufélags garðyrkjumanna um málið og síðan Sambands garðyrkjubænda. Niðurstaða þessara aðgerða varð sú, að landbn. skipaði n. í málið, og voru þessir aðilar skipaðir í n.: Þorvaldur Þorsteinsson forstjóri Sölufélags garðyrkjumanna, Óli Valur Hansson garðyrkjuráðunautur Búnaðarfélags Íslands, Sveinn Indriðason stórkaupmaður og Axel Magnússon ráðunautur. Rannsóknaráð ríkisins hefur einnig valið ylrækt til könnunar. Fullt samstarf hefur verið á milli þessara aðila um málið. Sökum þess, hvað viðfangsefnið er viðamikið, hefur ekki enn komið fram endanleg ályktun og grg. aðila, en fljótlega mun þess að vænta. Frá hluta af hinni stjórnskipuðu n. hef ég fengið þessar upplýsingar:

„Samkv. beiðni landbrn. vegna fsp. hv. 2. þm. Vesturl., Jóns Árnasonar, til landbrh., hvað líði þál., sem samþ., var á Alþ. 17. maí 1969, um hagnýtingu jarðhita til ræktunar og rannsóknir í þágu garðyrkju, viljum við upplýsa eftirfarandi:

1. Um efni til flutnings á heitu vatni. Eðlilegast væri, að þetta verkefni yrði tekið til meðferðar og úrlausnar af Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins, að svo miklu leyti sem talin er ástæða til að kanna þetta umfram það, sem þegar er vitað og reynsla er fengin fyrir.

2. Um byggingaraðferðir, stærð og tæknibúnað gróðurhúsa viljum viðtaka eftirfarandi fram. Í ýmsum nágrannalöndum okkar eru fyrir hendi staðlaðar verksmiðjuframleiddar gróðurhúsaeiningar úr áli og stáli í breiddum allt frá 3.20 m upp í 20–25 m. Þessar gerðir húsa taka langt fram gróðurhúsum, sem unnt er að byggja hér á landi og eru hér hefðbundin. Ál- og stálhús eru þrautreynd víðs vegar og standast fyllilega þær styrkleikakröfur, sem gerðar eru hérlendis. Auk þess má benda á, að viðhald þeirra er mjög lítið.

Hér er það lítið byggt af gróðurhúsum á ári hverju, að slík verksmiðjuframleiðsla kæmi ekki til greina, nema þenslan í ylræktinni yrði mjög mikil. Verksmiðjuframleidd málmgróðurhús hafa ekki verið byggð hér, svo að heitið geti, fram til þessa. Orsakirnar fyrir því eru fyrst og fremst, í hversu háum tollflokki þær eru, þ.e. 30–40% tollur. Til samanburðar má geta þess, að t.d. í Noregi eða utan Efnahagsbandalagslandanna eru aðflutningsgjöldin lægri. Í þessum verksmiðjuframleiddu einingum er ætíð gert ráð fyrir nauðsynlegum tæknibúnaði varðandi hitastillingu, loftræstingu, vökvun, vinnuhagræðingu og margt fleira.

3. Um þann lið, sem fjallar um þekkingu á sviði jarðvegsfræði, áburðarþarfar og gróðurvals, álítum við, að eðlilegast sé, að verkefni þessi verði tekin til meðferðar af Rannsóknastofnun landbúnaðarins og Garðyrkjuskólanum á Reykjum. Einnig þurfa að koma til tilraunir í gróðurhúsum, sem eru þýðingarmiklar gagnvart hagnýtri þekkingu. Í þessu sambandi vísum við í það álit, sem fram kom á ylræktarráðstefnu Sölufélags garðyrkjumanna 1970, að hér verði skipuð tilraunanefnd í garðyrkju.“ Undir þetta skrifa þeir Axel Magnússon og Óli Valur Hansson.

Frekara svar hef ég ekki við fsp. hv. þm. og vona, að þetta upplýsi það, sem um er að ræða.