26.03.1974
Sameinað þing: 69. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3114 í B-deild Alþingistíðinda. (2774)

265. mál, jarðhiti til ræktunar

Fyrirspyrjandi (Jón Árnason):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. landbrh. fyrir þær upplýsingar, sem hann gaf hér varðandi þetta mál. Ég tel, að hér sé um mjög merkilegt mál að ræða, og þær athuganir og rannsóknir, sem farið hafa fram varðandi þetta mál, þyrftu sem fyrst að vera birtar opinberlega, svo að þeir, sem hér eiga sérstakra hagsmuna að gæta, gætu þá hagnýtt sér þann fróðleik, sem fyrir liggur. Enda þótt það sé rétt, sem fram kom hjá hæstv. ráðh., að við byggjum ekki mikið í jarðræktarhúsum á ári hverju, þá er alltaf um nokkrar framkvæmdir í þessum efnum að ræða, og enginn vafi er á því, að ylræktin og gróðurhúsaræktin á mikla framtíð fyrri sér í okkar landi. Öllum ber saman um, að vart er um ákjósanlegri aðstöðu að ræða til þess að geta rekið þennan atvinnuveg með góðum árangri heldur et: að notast við jarðvarmann, þar sem hann er í jafnríkum mæli fyrir hendi og hér hjá okkur Íslendingum. Ég endurtek, að ég óska þess, að þær niðurstöður, þær rannsóknir og athuganir, sem fram hafa farið í þessu sambandi, verði birtar sem fyrst öllum þeim, sem hér eiga hagsmuna að gæta og vildu nota sér þá þekkingu, sem fyrir liggur.