26.03.1974
Sameinað þing: 69. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3118 í B-deild Alþingistíðinda. (2778)

271. mál, vísitölutrygging bótafjár íbúðarhúsa vegna jarðeldanna á Heimaey

Fyrirspyrjandi (Guðlaugur Gíslason):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að bera hér fram fsp. á þskj. 536 til hæstv. fjmrh. Fsp. er svo hljóðandi:

„Hvenær er að vænta, að lagt verði fram fyrirhugað frv. til l., sem kynnt hefur verið þingflokkunum, um vísitölutryggingu bótafjár íbúðarhúsa, sem ákveðið hefur verið að bæta vegna jarðeldanna á Heimaey, enda verði féð lagt inn á tiltekinn reikning og notað aftur til íbúðabygginga í Vestmannaeyjum?“

Ég skal geta þess, að þessi fsp. er .fram borin vegna þess, að ef ég man rétt, var það fyrir ,jól, að þingflokkunum var sent uppkast að frv. til l. varðandi þetta efni. Hingað til hefur þetta frv. ekki verið fram borið, og hefur það vissulega valdið einstökum aðilum nokkrum vanda, hvort þeir ættu að ráðstafa fé sínu eða hvort þeir ættu að bíða, þar til frv. um þetta efni kæmi fram.

Ég skal geta þess til að fyrirbyggja hugsanlegan misskilning, að þeir aðilar, sem hér eiga hlut að máli, verða vissulega fyrir mjög stórfelldu tjóni, þó svo að samþ. yrði frv. til l. um vísitölutryggingu á því fé, sem þeim hefur verið afhent sem bótagreiðsla fyrir þau hús, sem fóru forgörðum við jarðeldana í Vestmannaeyjum. Ef hús þeirra hefðu brunnið, hefðu þeir fengið bætur frá tryggingafélaginu til þess að gera innan mjög skamms tíma og þá getað hafist handa um að nota féð til endurbyggingar íbúðarinnar við það verðlag, sem þá var gildandi. Hins vegar hafa kringumstæður verið þannig í Vestmannaeyjum, eins og öllum er kunnugt, að allt fram undir þetta hefur vart verið aðstaða til þess að hefjast handa um íbúðabyggingar á ný. Það er því alveg ljóst, að þeir aðilar, sem nú eftir meira en ár, síðan þeir misstu húsin, ráðast í byggingu á ný, — miðað við allar þær verðhækkanir, sem orðið hafa á þessum tíma, — verða fyrir mjög miklum fjárútlátum, þó að þeir — geri ekki meira en að byggja sams konar hús og þeir misstu. Það verður því að teljast eðlilegt, að ráðstafanir eins og þær, sem hér hefur verið rætt um, hljóti samþykki hjá hv. Alþingi, og að — frv. um þetta efni verði samþykkt.

Ég skal geta þess, að mér hefur nýlega borist um það vitneskju frá hæstv, fjmrh., að hreyfing muni vera komin á málið, þannig að ég vænti þess, að það komi fram í svari hæstv. ráðherra, að það frv., sem hér er spurst fyrir um, verði lagt fyrir Alþingi innan mjög skamms.