26.03.1974
Sameinað þing: 69. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3121 í B-deild Alþingistíðinda. (2781)

273. mál, uppbætur á útfluttar ullarvörur

Fyrirspyrjandi (Pétur Pétursson):

Herra forseti. Á þskj. 550 hef ég leyft mér að bera fram svo hljóðandi fsp. til hæstv. iðnrh.:

„Hefur ríkisstj. ákveðið að greiða uppbætur á útfluttar iðnaðarvörur, eða eru slíkar ráðstafanir í undirbúningi?

2) Ef svo er, hvað verða slíkar uppbætur háar?“ Tilefni þessarar fsp. er fyrst og fremst eftirfarandi: Mér er kunnugt um, að loforð hefur verið gefið fyrir, að greiddar verði 15–20% uppbætur á sölu lagmetis til Sovétríkjanna. Mér er enn fremur kunnugt um, að loforð hefur einnig verið gefið um uppbætur á sölu á ullarvörum til Sovétríkjanna. Enn er sú ástæða fyrir þessum fsp., að allstór sölusamningur hefur verið gerður í Bandaríkjunum um sölu á ullarkápum, sem mér er sagt, að verði að verulegu leyti framleiddar í Skotlandi, sem er þá væntanlega gert einungis vegna þess, hvað framleiðslukostnaður hér á landi er hár. Þetta gerist því miður á sama tíma og 6 saumastofur norðanlands og fleiri sauma- og prjónastofur, sem hafa framleitt vörur til útflutnings, eru í þann veginn að hætta starfsemi sinni vegna þess, að verkefni vantar.

Út af fyrir sig tel ég ekki, að það þurfi að vera neitt athugavert við að greiða útflutningsbætur í ýmsum tilvikum, hvort sem um er að ræða iðnaðarvörur eða aðrar vörur. Það er t.d. alkunna, að greiddar eru verulegar uppbætur á útfluttar landbúnaðarafurðir. Nú munu vera greiddar 25–50% uppbætur á útflutt dilkakjöt og um það bil helmingur af verðmæti ýmissa mjólkurvara, þó að það sé mismunandi eftir löndum og tegundum landbúnaðarvara.

Nú er hins vegar svo komið fyrir útflutnings-iðnaðinum, að það verð, sem fyrir vörurnar þarf að fást, er of hátt, til þess að hægt sé að markaðssetja þær í þeim löndum, þar sem íslenskar iðnaðarvörur hafa selst hvað mest á undanförnum tveimur árum, fyrir utan Sovétríkin.

Ég vildi nefna í þessu sambandi eitt táknrænt dæmi, sem er sala og útflutningur á kísilgúr. Þetta fyrirtæki var rekið með talsverðum hagnaði á s.l. ári. Nú er fyrirtækið aftur á móti rekið með miklu tapi þrátt fyrir 20% verðhækkun á vörunni. Ég held, að það sé alveg ljóst, að ef útflutningsiðnaður á að halda áfram hér á landi, verði hann að fá uppbætur eða einhvers konar fyrirgreiðslu, sem jafngildir uppbótum, því að að öðrum kosti get ég ekki betur séð en að útflutningsiðnaðurinn stórdragist saman eða jafnvel verði að hætta í ýmsum greinum.

Hv. þm. hafa séð í fréttabréfi frá Sölustofnun lagmetis, hvernig framkvæmdastjóri þeirrar stofnunar, dr. Örn Erlendsson, lítur á sölumöguleika lagmetisins, og nákvæmlega það sama á í raun og veru við um langflest af öðrum útflutningsiðnaði. Í þessu fréttabréfi var tekið fram, að forsvarsmenn útflutningsiðnaðarins hafi lagt til við hæstv. iðnrh., að stofnaður yrði gengisjöfnunarsjóður fyrir útflutningsiðnaðinn, sem tæki mið af genginu 102,64 á dollar. Síðan hafa orðið miklar launahækkanir. Af framangreindum ástæðum hef ég leyft mér að bera fram umræddar fsp.