26.03.1974
Sameinað þing: 70. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3132 í B-deild Alþingistíðinda. (2796)

164. mál, framkvæmd Inn-Djúpsáætlunar

Frsm. (Björn Fr. Björnsson):

Herra forseti. — Allshn. hefur íhugað þessa till. til þál. um framkvæmd Inn-Djúpsáætlunar, sem er 164. mál hér á þingi. Nefndin hefur, eftir að hafa fengið umsagnir um málið, talið rétt að mæla einróma með samþykkt till. Ég ætla að leyfa mér að víkja aðeins nokkrum orðum nánar að þessu málefni.

Að frumkvæði heimamanna og Landnáms ríkisins var ákveðið á sínum tíma að kanna, hvort grundvöllur væri til þess að stækka býli og efla búskap í þeim hreppum eða á því svæði, sem till. greinir. En það eru fjórir hreppar í Norður-Ísafjarðarsýslu, sem hér koma til greina. Það er — Ögurhreppur, Reykjarfjarðarhreppur, Nauteyrarhreppur og Snæfjallahreppur, en eins og kunnugt er hefur byggð á þessum hluta lands mjög dregist saman að undanförnu, og nyrstu hreppar þessarar sýslu, Norður-Ísafjarðarsýslu, hafa lagst í eyði, og í þessum fjórum hreppum, sem ég áður nefndi, hefur fólki mjög fækkað, svo að þarna er byggðin, ef eigi er að gert, mjög í hættu. Þess vegna hafa heimamenn ákveðið að freista þess að efla byggð þar eins og auðið er og jafnframt óska eftir aðstoð af ríkisins hálfu. Landbrh. var á sínum tíma samþykkur því að koma til móts við till. heimamanna í þessu efni og skipaði nefnd til þess að framkvæma svonefnda Inn-Djúpsáætlun um eflingu landbúnaðar á þessu svæði. Nú hefur áætlun verið lögð fram, og má segja, að öll býli í áðurnefndum fjórum hreppum hafi ákveðið að taka þátt í framkvæmd þessarar áætlunar. Samtals mun það vera 42 býli, sem áætlunin nær til. Áætlunin nær til ræktunar, bústofnaaukningar, útihúsa, nokkurra íbúðarhúsa og vélakaupa, Samtals var áætlað á sínum tíma, eða árið 1972, að kostnaðurinn yrði 127 millj. kr. á því verðlagi, sem gilti á því ári. Einnig munu bændur leggja fram að sjálfsögðu vinnu, eins og þeir hafa tök á. Auk þess er gert ráð fyrir því, að Stofnlánadeild landbúnaðarins komi þarna til hjálpar með lánum, nauðsynlegum lánum. Þá er enn fremur þess vænst, að Byggðasjóður láni til þessara framkvæmda, og þess er að geta, að á fjárlögum 1974 mun vera gert ráð fyrir fjárveitingu í þessu skyni.

En till. að sjálfsögðu fjallar um, að þess sé freistað, að tryggð verði hin skipulagða framtíðaráætlun með aðstoð ríkisins og þannig, að einn aðill hafi yfirumsjón með öllum framkvæmdum. Þá er gert ráð fyrir því, að ríkisvaldið sjálft taki að sér þessa yfirumsjón, og er einmitt tilgangurinn með þessari þáltill. að tryggja það. Það er alveg auðsætt okkur öllum, að það framtak, sem hér um ræðir, er algjörlega einstætt í sinni röð, en jafnframt mjög mikilvægt til þess, að framtíð byggðar á þessum slóðum og nærliggjandi þéttbýlissvæðum verði sem best tryggð, og þess vegna má kannske segja, að ríkisvaldinu sé skylt að veita hér alla nauðsynlega aðstoð auk þess að hafa yfirumsjón og höfuðábyrgð á öllum framkvæmdum að því er varðar áætlunina.

Eins og ég sagði í upphafi, hefur allshn. einróma samþykkt að mæla með till. og framgangi hennar hér á þingi.