26.03.1974
Sameinað þing: 70. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3133 í B-deild Alþingistíðinda. (2798)

163. mál, jöfnun símgjalda

Frsm. (Björn Fr. Björnsson):

Herra forseti. Þessi till. fjallar um jöfnun símgjalda og er flutt af þm. úr öllum flokkum. Till. er á þessa lund, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að haga endurskoðun gjaldskrár Landssímans þannig, að sem fyrst verði náð sem mestum jöfnuði með landsmönnum í kostnaði við notkun símans og dreifbýli og höfuðborgarsvæðið beri hlutfallslega sömu byrði hinna sameiginlegu heildarsímaútgjalda. Sérstaklega ber að stefna að því, að:

1.) símgjöld innan eins svæðisnúmers eða landshluta verði hin sömu um allt land.

2.) gjöld fyrir símtöl úr dreifbýli til höfuðborgarsvæðisins lækki verulega“

Allshn, hafði og hefur haft um nokkurn tíma þessa till. til athugunar og hefur fallist einróma á að mæla með samþykkt till. óbreyttrar.