18.10.1973
Sameinað þing: 4. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 22 í B-deild Alþingistíðinda. (28)

Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Háttvirtir áheyrendur. Ríkisstjórnin mun á þessu Alþingi vinna að framkvæmd þeirra stefnumála, sem fjallað er um í málefnasamningi stjórnarflokkanna og enn eru eigi að fullu komin til framkvæmda. Þá mun og stjórnin vinna að öðrum þeim málum, sem kalla á aðgerðir af hálfu löggjafa- og framkvæmdarvalds, en þau eru mörg og margvísleg og af misjöfnum toga spunnin. Er eðlilegt, að slík málefni verði sérstaklega áberandi í framfaraþjóðfélagi, sem á margan hátt er í mótun. Auk þess mun svo stjórnin, eins og sjálfsagt er og jafnan verður hlutskipti hverrar ríkisstjórnar, beita sér fyrir lausn þeirra viðfangsefna, sem nú, eins og ætíð endranær, koma til sögu á hverri tíð og átt geta rætur sínar ýmist í innri eða ytri aðstæðum og stundum eru sprottin af óviðráðanlegum og ófyrirsjáanlegum atvikum.

Enn um sinn verður landhelgismálið sem fyrr efst á blaði. Ég ætla ekki hér að rekja sögu þess máls frá því fiskveiðimörkin voru færð út 1. september 1972, né heldur þá hetjulegu baráttu, sem háð hefur verið á Íslandsmiðum. Sú saga verður síðar skráð. Ég læt hér nægja að minna á þá óumdeilanlegu staðreynd, að útfærslan hefur þegar borið verulegan árangur, bæði á fiskimiðunum og á alþjóðavettvangi. Það er ekkert vafamál, að þau sjónarmið, sem Íslendingar hafa barist fyrir, eiga vaxandi fylgi að fagna hjá mörgum þjóðum. Þó verður á þessu stigi ekkert fullyrt um, hverjar niðurstöður væntanlegrar hafréttarráðstefnu verða, en víst má telja, að enn muni alllangur tími líða þangað til fyrir liggur alþjóðlegur samningur um þetta efni. Hitt er ljóst, að stefnuyfirlýsing af hálfu hafréttarráðstefnunnar getur verið mikilvæg, þó að ekki standi að henni tveir þriðju þátttökuríkjanna.

Ég held, að varla verði um það deilt, að útfærsla fiskveiðimarkanna mátti ekki dragast lengur, og eins hitt, að aðgerðir Íslendinga hafa mjög ýtt undir þá þróun, sem nú á sér stað í þessum efnum.

Eins og kunnugt er, hafa Íslendingar þegar gert bráðabirgðasamkomulag við þrjú ríki: Belgíu, Færeyjar og Noreg. Sú staðreynd sýnir, að það stendur ekki á Íslendingum að fara samkomulagsleiðir, þegar sanngirni er sýnd. Það má segja, að í reynd hafi allar þjóðir viðurkennt útfærsluna nema tvær, Bretar og Vestur-Þjóðverjar. Samningatilraunir standa yfir við Vestur-Þjóðverja. Ríkisstjórnin mun gera sitt ýtrasta til þess, að við þá geti náðst bráðabirgðasamkomulag, enda hefur framkoma vesturþýskra stjórnvalda verið allt önnur en breskra, svo sem alþjóð er kunnugt. Væntanlega fæst úr því skorið innan skamms, hvort vonir manna um bráðabr.samkomul. við V-Þýskaland rætast.

Allir stjórnmálaflokkar og öll þjóðin var sammála um, að samningatilraunir við Breta væru útilokaðar, á meðan bresk herskip héldu áfram hernaðarofbeldi innan 50 mílnanna. Slík var framkoma Breta á Íslandsmiðum og í garð Íslendinga, og þá ekki hvað síst breska flotans áður en hann hvarf á brott úr fiskveiðilögsögunni. Þarf eigi að rekja þá sögu hér.

Ég er jafnsannfærður um það eins og áður, að hagkvæmara hefði verið fyrir báða aðila að setja þessa hættulegu deilu niður með mannsæmandi bráðabirgðasamkomulagi. Það hefði verið hægt, ef breska ríkisstjórnin hefði ekki í gamalli oftrú á valdbeitingu gripið til hernaðarlegs ofbeldis gegn vopnlausri smáþjóð, meðan samningatilraunir enn stóðu yfir. Samningamenn Íslendinga og Breta skildu svo hér í Reykjavík 5, maí, að hvor aðili um sig hét að taka tillögu hins til skoðunar og koma með gagntilboð. Það hafði verulega færst í samkomulagsátt. En 19. maí komu bresk herskip inn í íslenska landhelgi. Þá þegar var því lýst yfir af hálfu Íslendinga, að ekki yrði um neinar samningatilraunir að tefla, nema bresk herskip færu úr íslenskri landhelgi. Íslendingar mundu ekki semja fyrir framan fallbyssukjafta. Bresku herskipin tóku síðan upp kerfisbundnar ásiglingar og ásiglingatilraunir á íslensk varðskip, og verður því miður að segja, að hegðun sumra herskipanna var því líkust, að þar væru sjóræningjar á ferð. Það er óhugsandi annað en að þetta atferli herskipanna hafi átt sér stað samkvæmt fyrirmælum breskra stjórnvalda. Þá áttu Íslendingar ekki annan kost en þann að tilkynna Bretum, að yrði ásiglingum haldið áfram, væru Íslendingar neyddir til að slíta stjórnmálasamskiptum við Breta. Bresku herskipin héldu uppteknum hætti, og liggur fyrir um það svo óræk sönnun, m. a. í myndum, að ekki verður vefengd. Þá var Bretum tilkynnt, að stjórnmálasamskiptum yrði slitið tiltekinn dag, ef herskip og dráttarbátar yrðu þá eigi farin brott úr íslenskri fiskveiðilandhelgi. Herskipin og dráttarbátar voru kvödd á brott, og kom því eigi til stjórnmálaslita, og breski forsætisráðherrann bauð mér að koma til fundar við sig. Tók ég því boði og hef nú farið þá för, svo sem kunnugt er. Hef ég gefið ríkisstjórn og utanríkismálanefnd skýrslu, sem nú er til athugunar í þingflokknum sem trúnaðarmál. Tel ég mér því ekki fært né heimilt á þessu stigi að gera grein fyrir viðræðunum. En ég vona, að unnt verði að birta alþjóð skýrsluna innan skamms.

Því var margyfirlýst af ríkisstjórn og núverandi stjórnarflokkum, að 50 mílna útfærslan væri aðeins áfangi, en ekkert lokamark, og að á alþjóðavettvangi mundi Ísland skipa sér í hóp þeirra þjóða, sem lengst vildu ganga í stækkun fiskveiðilandhelgi. Aðgerðir Íslendinga á undirbúningsfundum hafréttarráðstefnunnar hafa mótast af því sjónarmiði. Þar hafa þeir bæði flutt og stutt tillögur um 200 sjómílna fiskveiðimörk. Það er því hlægilegt, þegar einn stjórnmálaflokkur er nú með tilburði í þá átt að tileinka sér einkarétt á hugmyndinni um 200 sjómílna víðáttu fiskveiðilandhelgi. Það er fráleitt og einungis til ógagns.

Í samræmi við fyrri yfirlýsingar og vinnubrögð á alþjóðaráðstefnum að undanförnu telur ríkisstjórnin rétt, að þetta Alþingi undirstriki sjónarmið Íslendinga varðandi 200 sjómílna fiskveiðilandhelgi, og ætlar hún að leggja fram tillögur um það efni og mun vinna að því, að um þær geti náðst samstaða allra þingflokka, en hún telur miklu varða, að þannig sé á málinu haldið.

Hafin er endurskoðun varnarsamningsins í samræmi við málefnasamninginn og með það markmið fyrir augum, er þar greinir. Eins og utanríkisráðherra hefur lýst, verður Alþingi gefin skýrsla um þær samningaviðræður, þegar niðurstaða er fyrir hendi, en að sjálfsögðu verður utanríkismálanefnd látin fylgjast með þeim, eftir því sem aðstæður leyfa. Samkvæmt þingsköpum á og utanrrh. að gefa Alþingi sérstaka skýrslu um utanríkismál. Verður þá tækifæri til að gera varnarmálunum ítarleg skil.

Efnahagsmál verða efalaust eitt aðalviðfangsefni stjórnvalda á næstu missirum. Þegar litið er á þróun efnahagsmála, má segja að á henni séu bæði bjartar hliðar og dökkar. Til hinna fyrrnefndu má m. a. nefna það, að afkoma atvinnuvega og almennings er almennt góð, atvinnuástand er ágætt og gjaldeyrisstaða er stórlega batnandi. Skuggahliðin er sú, að ekki hefur tekist að halda verðbólgu í þeim skefjum, sem stefnt er að í málefnasamningi stjórnarflokkanna. Ég tel, að við núverandi aðstæður hafi slíkt ekki verið mögulegt. Þar koma margar ástæður til, sem er eigi unnt að rekja, né heldur þróun efnahagsástandsins á s. l. ári. Þar um vil ég vísa til ritsins „Þjóðarbúskapurinn“, nr. 3, júlí 1973.

Vegna þess, hve tími minn er hér takmarkaður, get ég aðeins vikið að einstökum þáttum efnahagsmála, eins og þeir blasa við í dag. Mun ég einkum ræða gengismálin, efnahagshorfurnar og verðbólguvandamálið.

Við upphaf ársins 1973 voru taldar horfur á, að aukning þjóðarframleiðslu og tekna gæti orðið um eða yfir 5%. Ekki virtist til að dreifa neinum sérstökum aðstæðum til þess, að aukning framleiðslu eða tekna færi fram úr eðlilegri aukningu afkastagetu, þar sem framleiðslukerfið var fullnýtt fyrir. Jafnframt var ljóst, að nokkur hætta var á áframhaldandi verðbólguþróun innanlands, og þar með, að áhrif gengislækkunarinnar til þess að bæta hag útflutningsatvinnuveganna og viðskiptajöfnuðinn yrðu ekki varanleg. Miklum erfiðleikum hafði reynst bundið að ná samstöðu um aðgerðir til þess að draga úr víxlhækkunum kaupgjalds og verðlags, en núgildandi vísitöluákvæði kjarasamninga takmarka mjög svigrúm stjórnvalda til hagstjórnar.

Þróun efnahagsmála á árinu 1973 hefur um margt orðið öðruvísi en unnt var að sjá fyrir við upphaf ársins. Má raunar segja, að hver stóratburðurinn hafi rekið annan það sem af er árinu. Eldgosið í Vestmannaeyjum, sem gerði mikilvægustu verstöð landsins óvirka um sinn, skerti að sjálfsögðu vaxtargetu þjóðarbúsins í ár, sennilega um 1–11/2%, og afleiðingar þess bæði beint með nauðsynlegri skattheimtu til Viðlagasjóðs og óbeint með ýmsum hætti — hafa haft í för með sér veruleg verðbólguáhrif. Á næstu árum hlýtur endurreisnarstarfið vegna eldgossins ennfremur að kalla á verulegt framtak og fjármuni. Höfðingleg hjálp erlendra þjóða — og þá fyrst og fremst hið drengilega framlag ríkisstjórna hinna Norðurlandanna til Viðlagasjóðs og fjárframlög og aðstoð einstaklinga og félaga um öll Norðurlönd — hefur dregið verulega úr þeim þungu búsifjum, sem gosið veitti Vestmanneyingum og þjóðinni allri.

Um miðjan febrúar tilkynnti Bandaríkjastjórn, að gengi dollarans yrði lækkað um 10%. Þessari gengisbreytingu fylgdu víðtækar gengisbreytingar í heiminum, sem voru Íslendingum óhagstæðar og áhrif þeirra á greiðslujöfnuð okkar, að öðru óbreyttu, sams konar og þeirra gengisbreytinga, sem urðu í árslok 1971 — þ. e. hækkun á verði helstu innflutningsmynta, en lækkun þeirrar myntar — dollarans — er þyngst vegur í gjaldeyristekjunum. Með tilliti til þessa og þeirrar óvissu, sem ríkti í efnahagsmálum á þessum tíma, bæði vegna eldgossins á Heimaey og ört hækkandi innflutningsverðlags, þótti ekki annað fært en að gengi krónunnar fylgdi gengi dollars, og kom þessi breyting til framkvæmda 15. febrúar. Gengi krónunnar fylgdi síðan gengi dollars fram til 30. apríl 1973.

Í lok fyrsta ársfjórðungs 1973 varð ljóst, að sú mikla hækkun á hráefnum matvælaiðnaðar á heimsmarkaði, sem vart varð undir lok ársins 1972, mundi halda áfram fram eftir árinu 1973 og valda verulegri hækkun á öllum helstu útflutningsafurðum sjávarútvegsins umfram það, sem við hafði verið búist, þegar ákvörðun var tekin um að fylgja gengi dollars um miðjan febrúar. Sérstaklega tók að gæta örra verðhækkana á frystum fiski á Bandaríkjamarkaði. Þessi hækkun bætti í senn horfur um afkomu sjávarútvegs og greiðslujöfnuð þjóðarbúsins gagnvart útlöndum. Á móti þessum breytingum til batnaðar á afkomu sjávarútvegs komu að nokkru kostnaðarhækkanir heima fyrir, í kjölfar 12–13% hækkunar kaupgjalds 1. mars 1973 var útlit fyrir allt að 8% hækkun 1. júní 1973 vegna verðlagsuppbóta á laun. Jafnframt gætti vaxandi eftirspurnar á flestum sviðum innanlands, ekki síst á húsnæðis- og byggingamarkaðinum, og áttu afleiðingar jarðeldsins í Vestmannaeyjum nokkurn þátt í því. Við þessar aðstæður var eðlilegt, að gengisskráning krónunnar kæmi til endurskoðunar. Ríkisstjórnin féllst á tillögu bankastjórnar Seðlabankans, sem studd var athugunum hagrannsóknadeildar Framkvæmdastofnunar ríkisins, að rétt væri að nota það svigrúm, sem hækkun útflutningsverðlags veitti, til þess að hækka gengi krónunnar um 6%, þann 30. apríl 1973, og hamla þannig gegn verðbólgunni. Samtímis var ákveðið að grípa til hliðarráðstafana til þess að hvetja til sparnaðar og draga úr peningaþenslu með 2–3% hækkun vaxta og aukningu innlánsbindingar í Seðlabankanum úr 20% í 21% af innstæðum, auk þess sem sett voru brbl. um 2% niðurfærslu verðlags strax í kjölfar gengishækkunarinnar. Í maí hélt gengi dollarans áfram að lækka á erlendum gjaldeyrismarkaði, þannig að nokkur hluti gengishækkunar krónunnar eyddist. Hinn 14. júní s. l. voru síðan sett brbl., sem heimiluðu skráningu gengis íslensku krónunnar ofan við hið leyfða 21/4% frávik frá stofngengi. Markaðsgengi krónunnar var síðan hækkað smám saman samkvæmt þessari heimild gagnvart dollar. Fram til ágústloka voru þessar hækkanir miðaðar við það, að lækkun á gengi dollars hefði ekki í för með sér lækkun á gengi krónunnar miðað við mikilvægi hinna ýmsu mynttegunda í útflutningstekjum. Þegar leið á sumarið, varð ljóst, að hin hagstæða þróun útflutningsverðlags — ekki síst á frystum fiskafurðum í Bandaríkjunum — héldi enn áfram og færði sjávarútveginum verulegan tekjuauka umfram fyrri spár. Þessi þróun hafði einnig hagstæð áhrif á viðskiptajöfnuðinn þrátt fyrir ört hækkandi innflutningsverðlag og aukinn innflutning. Í septemberbyrjun var talin ástæða til að láta þessa þróun hafa áhrif á markaðsgengi krónunnar, og var það hækkað þann 13. sept. um 3.6% gagnvart öllum myntum. Tilgangur þessarar breytingar var að draga úr áhrifum gengisbreytinga og verðbreytinga erlendis á verðlagsþróunina hér á landi.

Með gengishækkun þeirri, sem framkvæmd hefur verið á árinu 1973, og hliðarráðstöfunum þeim, sem henni hafa fylgt, er farið inn á nýjar brautir í stjórn efnahagsmála. Gengi krónunnar hefur ekki verið hækkað í næstum hálfa öld þar til í ár. Gengishækkunin í ár felur í sér tilraun til þess að dreifa ávinningum af óvæntum útflutningstekjum að nokkru leyti í formi lækkaðs verðlags og þar með hækkaðra rauntekna í stað þess að láta aukningu útflutningstekna — sem stundum getur reynst skammvinn — dreifast um allt hagkerfið með hækkun peningatekna og verðlags. Jafnframt er að sjálfsögðu ljóst, að gengishækkunin veldur nokkrum örðugleikum hjá þeim greinum útflutningsframleiðslu, sem ekki hafa notið erlendra verðhækkana til jafns við sjávarútveg. Hér er í reynd um þann almenna vanda að ræða að tryggja farsælt jafnvægi milli hinna hefðbundnu útflutningsgreina, sem eru háðar miklum sveiflum í árferði, og nýrra útflutningsgreina, sem eiga að geta fært okkur aukinn stöðugleika útflutnings. Verður því að leita allra skynsamlegra ráða til þess að mæta þessum vanda eins og hann birtist nú.

Þessu næst ætla ég að víkja að horfum ársins í ár. Áætlað er, að þjóðarframleiðslan aukist á árinu nálægt 4%. Vegna þess að verðhækkun útflutnings, sem nú er áætluð 45% að meðaltali í íslenskum krónum reiknað, er miklu meiri en jafnvel hin óvenjumikla hækkun innflutningsverðlags, sem er áætluð 22%, verður aukning þjóðarframleiðslu, eða yfir 6%. Í sjávarútvegi er þó búist við áframhaldandi minnkun þorskaflans, sem þó er að verulegu leyti bætt upp af mikilli aflaaukningu á loðnuvertíð. Vegna ört hækkandi útflutningsverðlags batnar þó hagur sjávarútvegsins í heild verulega frá fyrra ári, þrátt fyrir miklar kostnaðarhækkanir. Almennt er búist við nokkru hægari vexti framleiðslu í flestum greinum en á árinu 1972, þar eð framleiðsluöflin og þar með möguleikarnir til framleiðsluaukningar, eru nú fullnýttir. Á þetta ekki hvað síst við um vinnuafl, en atvinnustig er nú mjög hátt og ber raunar öll merki umframeftirspurnar eftir vinnuafli. Búast má við aukningu landbúnaðarframleiðslu um nálægt 3% og aukningu iðnaðarframleiðslu um 9–10%, aðallega vegna stækkunar álverksmiðju og aukningar í öðrum útflutningsiðnaði. Byggingastarfsemi mun einnig aukast nokkuð, og sömuleiðis mun vera um framleiðsluaukningu að ræða í öðrum greinum, svo sem verslun og þjónustu.

Tekjur launþega á árinu ráðast fyrst og fremst af hinni almennu grunnkaupshækkun í mars sl. og af hækkun verðlagsbóta á laun eftir þeim reglum, sem um þær hafa gilt á hverjum tíma. Nú er áætlað, að kauptaxtar launþega hækki um 23% að meðaltali milli áranna 1972 og 1973 án áhrifa væntanlegra kjarasamninga á kauptaxta ársins í ár. Tekjur sjómanna munu hækka nokkru meira vegna hækkana fiskverðs, þrátt fyrir rýrnandi afla á þorskveiðum. Í heild má gera ráð fyrir, að brúttótekjur einstaklinga hækki um 28% á þessu ári að meðtalinni fólksfjölgun og ráðstöfunartekjum heimilanna um 27%. Miðað við síðustu spár um verðlagsþróun felur þetta í sér nálægt 4% kaupmáttaraukningu á árinu 1973, og má búast við svipuðum vexti einkaneyslu og þó heldur meiri eins og nú horfir.

Á árunum 1971, 1972 og 1973 hefur kaupmáttur ráðstöfunartekna heimilanna í heild aukist um 35%. Á sama tíma hefur raunveruleg aukning þjóðartekna numið um 27%. Hér er um stórstígar framfarir að ræða. Þessi aukning kemur í kjölfar 15% aukningar kaupmáttar ráðstöfunartekna árið 1970. Ekkert samfellt fjögurra ára tímabil síðasta aldarfjórðung hefur skilað meiri almennri aukningu kaupmáttar.

Samneysla mun aukast nokkru meira á árinu en einkaneysla, eða um 6–7% að magni, en af innlendri verðmætaráðstöfun mun aukningin verða mest í fjármunamyndun, þar sem búist er við nálægt 17% magnaukningu á árinu. Gætir þar fyrst og fremst óvenjumikils innflutnings fiskiskipa, aðallega skuttogara, en einnig er aukning í íbúðabyggingum óvenjumikil, m. a. vegna innflutnings húsa á vegum Viðlagasjóðs.

Hin mikla hækkun útflutningsverðlags veldur því, að þrátt fyrir miklar verðhækkanir og mikinn eftirspurnarþrýsting innanlands er þess að vænta, að heildargreiðslujöfnuðurinn við útlönd verði hagstæður um yfir 1500 millj. kr. á árinu og gjaldeyrisstaðan batni á árinu að sama skapi. Í ágústlok var gjaldeyrisstaðan 7 093 millj. kr. og hafði þá batnað frá áramótum um 1 280 millj. kr.

Verðbólgan verður þannig enn skýrar en áður helsta vandamál efnahagsstefnunnar. Verðhækkunin milli áranna 1972 og 1973 er áætluð 23% á mælikvarða vísitölu neysluvöruverðs, en um 20% á mælikvarða vísitölu framfærslukostnaðar. Í þessari þróun veldur miklu óvenjumikil verðhækkun innflutnings í erlendri mynt, sem nú er áætluð um 10%. Við þetta bætast svo áhrif gengisbreytinga. Ytri aðstæður hafa þannig ýtt undir verðhækkanir, bæði á innflutnings- og á útflutningshlið. Hins vegar er vafalaust, að verð- og tekjumyndunarkerfið — þar með vísitölukerfið — og þróun eftirspurnar innanlands á hér stóran hlut að máli.

Þótt horfur um afkomu sjávarútvegs og greiðslujöfnuð þjóðárbúsins séu allgóðar fyrir næstu mánuði, getur hin öra verðbólguþróun innanlands á síðustu mánuðum stefnt hvoru tveggja í hættu, þegar fram í sækir, greiðslujöfnuði og samkeppnisstöðu útflutnings og annarra greina, sem mæta erlendri samkeppni. Þrálát verðbólguþróun hér á landi síðustu 35 árin sýnir glöggt, hve erfiðlega hefur gengið að hafa í senn hemil á verðbólgunni og tryggja stöðuga framleiðslu og atvinnu.

Árangursríkt andóf gegn verðbólgu hlýtur að byggjast á samstilltu átaki á sviði launa- og verðlagsmála, fjármála ríkisins og annarra opinberra aðila og gengis-, peninga- og lánamála. Ríkisstj. mun, eftir því sem í hennar valdi stendur, stuðla að slíku samstilltu átaki. Hinir almennu kjarasamningar, sem standa fyrir dyrum í haust, bæði milli ASÍ og vinnuveitenda og BSRB, BHM og ríkisins, ráða miklu um það, hvernig til tekst í þessum efnum á árinu 1974.

Hin öra aukning kaupmáttar tekna almennings s. l. þrjú ár ætti að vera góð undirstaða skynsamlegrar hófstillingar við gerð hinna almennu kjarasamninga, sem nú standa fyrir dyrum. Afstaða ríkisvaldsins í kjarasamningum við BSRB og BHM mun að sjálfsögðu einnig mótast af þessum viðhorfum. Vonandi tekst einnig að ná samkomulagi um endurskoðun á núgildandi fyrirkomulagi vísitölubindingar kaupgjalds, sem í senn takmarkar svigrúm stjórnvalda til hagstjórnar og veldur á margan hátt óeðlilegri mismunun. Vísitölubindinguna má þó auðvitað ekki skoða einangraða út af fyrir sig, heldur sem hluta af aðferðinni við kaupgjaldsákvarðanir í heild.

Þegar vel er skoðað, er ákvörðun launa eitt mikilvægasta stjórntæki hagkerfisins. Mikið er því í húfi, að vel sé á þessu valdi haldið af handhöfum þess, samtökum verkalýðs og vinnuveitenda.

Ríkisstj. mun á næstunni fyrir sitt leyti gera allt það, er í hennar valdi stendur til að hamla gegn hættulegri verðbólguþróun og stuðla að varanlegra jafnvægi í þjóðarbúskapnum. Það telur hún sitt höfuðverkefni. Það má því vel vera, að fara verði eitthvað hægar í framkvæmdum á næsta ári en þessu, bæði hjá hinu opinbera og af hálfu einkaaðila. Slíks getur verið þörf til að draga úr of mikilli þenslu og eins vegna ríkisfjármála.

Ég mun þessu næst víkja að þeim helstu lagafrumvörpum, sem ákveðið er að leggja fyrir þetta Alþingi. Þar verður engan veginn um tæmandi upptalningu að ræða, auk þess, sem síðar getur orðið tilefni til nýrra frumvarpa.

Af hálfu forsrh. verða lögð fram:

1) Frumvarp um Hagrannsóknastofnun og breyting á lögum um Framkvæmdastofnun ríkisins.

2) Frumvarp um umboðsmann Alþingis.

Af frumvörpum, sem varða málefni, er lúta dómsmálaráðuneytinu, má nefna þessi:

1) Frumvarp um upplýsingaskyldu stjórnvalda.

2) Frumvarp um málflytjendur.

3) Frumvarp til breytingar á skiptalögum.

4) Frumvarp til breytingar á umferðarlögum.

5) Frumvarp um viðurkenningu trúfélaga (utan þjóðkirkjunnar) .

Unnið er að lagafrumvarpi um þinglýsingar, og verður stefnt að því að reyna að leggja það fram.

Af málum á verksviði fjmrn., sem ráðgert er að leggja fyrir Alþingi á næstunni, má nefna þessi :

1) Frumvarp til laga um launaskatt.

2) Frumvarp til laga um söluskatt.

3) Frumvarp um fasteignaskráningu og fasteignamat.

4) Nefnd, m. a. skipuð fulltrúum Bandalags starfsmanna ríkis og bæja og Bandalags háskólamanna, vinnur að endurskoðun laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Verði samkomulag í nefndinni um slíkt frv., er þess að vænta, að það verði lagt fyrir næsta Alþingi.

5) Loks er vert að geta fjárlagafrv., sem lagt er fyrir þing eins og venjulega, en nú með þeim hætti, sem ekki hefur tíðkast fyrr, að framkvæmda- og fjáröflunaráætlun ríkisstj. fyrir næsta ár er felld inn í frv. og er hluti af því.

Af landbúnaðarmálum, sem koma munu til kasta þessa þings, skulu nefnd:

Frumvarp til jarðalaga, frumvarp til ábúðarlaga og frumvarp um heykögglaverksmiðjur, en þau voru öll lögð fyrir síðasta þing til kynningar.

Unnið er að landgræðsluáætlun, og mun nefndin, sem að henni vinnur, skila áliti á árinu og álit hennar væntanlega koma til meðferðar í þinginu, áður en því lýkur.

Á sviði menntamála ber fyrst að nefna frumvörp um grunnskóla og um skólakerfi, sem verða endurflutt. Lagt verður fram frumvarp að endurskoðuðum lögum um námslán og námsstyrki. Gengið hefur verið frá frumvörpum um nýskipan tveggja greina sérmenntunar, annars vegar verslunarmenntunar og hins vegar hússtjórnarkennslu og heimilisfræða.

Helstu frumvörp, sem flutt verða og varða önnur svið menntamála, eru frv. um Þjóðleikhús, um almenningsbókasöfn og um mannanöfn.

Áhersla verður lögð á, að þetta þing geti fengið til meðferðar frumvarp um fullorðinnafræðslu, sem of lengi hefur verið utanveltu í menntakerfi okkar.

Varðandi iðnaðar- og orkumál má nefna eftirfarandi :

Unnið hefur verið áfram að gerð iðnþróunaráætlunar, sem byggð var á tillögum þeim, er sérfræðingar Sameinuðu þjóðanna mótuðu. Má gera ráð fyrir, að í því sambandi komi til kasta þingsins nú í vetur ýmsar lagabreytingar, sem æskilegar eru taldar.

Þá er, sem kunnugt er, starfað að undirbúningi að hugsanlegri málmblendiverksmiðju í Hvalfirði í samvinnu við bandarískt fyrirtæki, en þó með mikilli meirihlutaþátttöku Íslendinga. Er gert ráð fyrir, að í Hvalfirði rísi iðnaðarhöfn, þar sem unnt væri að staðsetja fleiri verksmiðjur. Beri áframhaldandi rannsókn tilætlaðan árangur, verði frv. til laga þar að lútandi flutt á þessu þingi.

Þá skal minnst á þörungavinnslu á Reykhólum við Breiðafjörð. Er það mál allt í fullum undirbúningi og gert ráð fyrir því, að þar komi nokkuð til kasta þingsins í vetur. Gert er ráð fyrir, að verksmiðjan taki til starfa á árinu 1975.

Varðandi orkumál er unnið áfram að tillögugerð um endurskipulagningu raforkumála í landinu í samræmi við stefnumörkun ríkisstj. frá 1972, sem hér var kynnt á Alþingi. Er þar stefnt að samtengingu orkuveitusvæða og aukinni hlutdeild héraðs- og sveitarstjórnarsambanda í stjórnun og rekstri landshlutaveitna og héraðsveitna.

Þá verður nú í þingbyrjun lagt fram að nýju stjfrv. um breytingu á orkulögum að því er varðar háhitasvæði landsins.

Af málum á verksviði félmrn. má nefna:

1) Hafin er endurskoðun sveitarstjórnarlaga í samræmi við það fyrirheit í málefnasamningi ríkisstj. að auka sjálfsforræði byggðarlaga. Þess er vænst, að framangreind endurskoðun vinnist svo greiðlega, að frv. til nýrra sveitarstjórnarlaga verði lagt fram, áður en Alþingi lýkur.

2) Unnið er að gerð heildarlöggjafar um vinnuvernd, og er líklegt, að frv. um það efni verði lagt fyrir þetta þing.

3) Frumvarp til laga um atvinnulýðræði verður lagt fyrir þetta Alþingi.

4) Nauðsyn ber til, að ýmis ákvæði húsnæðismálalöggjafar verði endurskoðuð, m. a. með tilliti til þess, að hinn 1. jan. n. k. taka gildi lög um leiguíbúðir á vegum sveitarfélaga, og verður frv. um það efni væntanlega lagt fyrir þingið.

5) Frumvarp til laga um vinnutíma fiskimanna er í undirbúningi samkvæmt þál., sem samþykkt hefur verið á Alþingi.

Af sviði samgöngumála má nefna, að endurflutt verður frumvarp um ferðamál.

Af frumvörpum, sem varða heilbrigðis- og tryggingamál og lögð verða fram á þinginu í vetur, má nefna þessi:

Frumvarp til laga um lyfjaframleiðslu, frumvarp um tannlækningar, frumvarp um tryggingardóm, frumvarp til hjúkrunarlaga og frumvarp til laga um lyfjastofnun ríkisins. Þá er og unnið að endurskoðun almannatryggingalaganna, en hvenær unnt verður að leggja fram tillögur, er ekki hægt að fullyrða á þessu stigi, en líklegt, að það verði gert a. m. k. um einhver atriði á þessu þingi.

Um framkvæmdir á sviði heilbrigðismála, svo sem byggingu sjúkrahúsa, heilsugæslustöðvar og undirbúning að gildistöku laganna um heilbrigðisþjónustu, gefst mér ekki tími til að ræða hér.

Þingmál, sem flutt verða á næsta þingi á vegum sjútvrn., eru:

1) Frumvarp um nýtingu fiskimiða hinnar nýju 50 mílna fiskveiðilandhelgi.

2) Frumvarp um fiskveiðar og friðunarráðstafanir á hafsvæðinu í kringum landið.

3) Frumvarp um skipulag loðnuveiðanna.

Varðandi viðskipta- og bankamál verða m. a. eftirtalin frumvörp flutt:

1) Frumvarp um viðskiptabanka ríkisins.

2) Frumvarp um hlutafélög.

Ég vil ekki ljúka máli mínu án þess að leggja áherslu á, hvílíkt átak hefur á margvíslegan hátt verið gert í byggðaþróunarmálum á starfsárum núv. ríkisstj. Samt þarf að gera enn betur, ef þjóðfélag okkar á ekki fyrst og fremst að fá á sig einkenni borgríkis. Ríkisstj. mun á næstunni leggja áherslu á markvissar frekari aðgerðir í þessum efnum, t. d. með aðstöðujöfnun á ýmsum sviðum og staðarvali stofnana og þjónustumiðstöðva, og kann þar í sumum tilfellum að verða þörf á atheina löggjafarvalds.

Fram undan eru á margan hátt óvissir tímar. Það er því æskilegt að mínum dómi, að deilum um minni háttar mál sé stillt í hóf, án þess að slakað sé á því aðhaldi, sem stjórnarandstöðu er skylt að veita. En þegar og á meðan við eigum í jafnerfiðri, óleystri deilu út á við eins og nú, er mikilvægt, að sem bestur friður ríki í þjóðfélaginu. — Góða nótt.