27.03.1974
Efri deild: 89. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3135 í B-deild Alþingistíðinda. (2806)

178. mál, Félagsmálaskóli alþýðu

Frsm. (Helgi F. Seljan):

Herra forseti. Félmn. Ed. hefur fjallað um frv. til l. um Félagsmálaskóla alþýðu. N. kynnti sér umsagnir aðila, er allar voru á þann veg að mæla með samþykkt frv.

Alþýðusamband Íslands mælti eindregið með samþykkt frv.

Menningar- og fræðslusamband alþýðu mælti einnig eindregið með samþykkt frv., en kom með tvær ábendingar um breytingar:

Í fyrsta lagi, að listir skyldu vera meðal námsgreina. Sá n. ekki ástæðu til þess þegar í byrjun að kveða á um slíka fræðslu, enda farið inn á vítt svið, ef veita ætti fræðslu í listum hvers konar. Þessi fræðsla á e.t.v. rétt á sér, en úr því verður þá reynslan að skera, þegar skólinn hefur komist yfir sína byrjunarörðugleika, sem hann mun örugglega eiga við að stríða, og er þá kominn á fullan skrið með þau annars mjög svo viðamiklu verkefni, sem honum eru falin einmitt í frv. þessu.

Í öðru lagi lögðu þeir í Menningar- og fræðslusambandi alþýðu til breytingar á aldursmörkum í 4. gr. vegna iðnnema sérstaklega. Lagði Menningar- og fræðslusamband alþýðu til 15 ára aldursmark, en n. þótti rétt að miða við þann aldur, sem gildir um inngöngu í stéttarfélögin, þ.e. 16 ár, og flytur um það sérstaka brtt.

Vinnuveitendasamband Íslands mælti með frv. og taldi það spor í rétta átt, en lagði til tvær breytingar.

Önnur var sú, að við námsupptalningu í 2. gr. yrði bætt fræðslu um hagfræðileg efni og meðferð og hagnýtingu hagfræðilegra upplýsinga. N. þótti rétt að bæta við 1. mgr. 2. gr. orðunum „og um hagfræðileg efni“, því að vissulega koma þau efni í æ ríkari mæli inn á svið samninga og kjaramála allra. Á hagfræðilegum útreikningum er byggt í sífellu, og hvort sem menn vilja taka þar mark á eða ekki, eru slíkir útreikningar æðioft notaðir sem forsenda fyrir till. að samningagerð. Því er það nokkuð eðlilegt, að launþegar hafi í skóla sínum möguleika á að afla sér grundvallarfræðslu um þessi mál, þótt flókin og erfið séu og greinilega illlæranleg til fulls.

Hin ábendingin frá Vinnuveitendasambandi Íslands var um aðild þess að skólanefnd félagsmálaskólans. Um þessa beiðni voru skiptar skoðanir í n. Töldu sumir eðlilegt að verða við þessari ósk, en aðrir voru andvígir. Sá ágreiningur hefur glögglega komið fram með brtt., sem flutt hefur verið og lýtur að þessu og reyndar fleiri atriðum. Ég persónulega er andvigur aðild vinnuveitenda að þessari skólanefnd og sé raunar ekki erindi þeirra þar inn. Hvað sem líður öllum skilningi og samstarfi milli aðila vinnumarkaðarins, hlýtur að vera ljóst, að Félagsmálaskóli alþýðu hefur það meginmarkmið að gera félaga í verkalýðssamtökunum hæfari í félagsmálum almennt og um leið hæfari baráttumenn fyrir réttindamálum sínum gagnvart atvinnurekendum. Af þeirri ástæðu einni sé ég ekki ástæðu til aðildar þeirra samtaka, sem verkalýðshreyfingin á í höggi við, að skólanefnd hennar eigin skóla.

Hv. 5. þm. Vestf. og hv. 6. þm. Reykv. hafa lagt fram brtt. við frv. þetta, þar sem ekki er einungis gert ráð fyrir aðild Vinnuveitendasambands Íslands að skólanefnd, heldur og Bandalags starfsmanna ríkis og bæja og Farmanna- og fiskimannasambands Íslands, þ.e.a.s. um gerbreytta skipan skólanefndar. Þessi till. mun hliðstæð því, sem lagt hefur verið til í frv. um félagsmálaskóla launþegasamtakanna, sem flutt hefur verið í Nd. af hálfu þriggja hv. þm. þar með hv. þm. Pétur Sigurðsson í fararbroddi, að því leyti til sem tekur til Farmanna- og fiskimannasambands Íslands og Bandalags starfsmanna ríkis og bæja. Hins vegar er í þeirra frv. ekki gert ráð fyrir, frekar en í þessu, aðild Vinnuveitendasambands Íslands að skólanefnd. Með þessari till. er verksvið skólans að mínu viti um leið útvíkkað mjög, því að annars ættu þessir aðilar ekki erindi inn í skólanefndina. Að mínu viti fer því till. þessi út fyrir þann ramma, er frv. gerir ráð fyrir, en í aths. með frv. segir orðrétt: „Með frv. þessu er lagt til, að stofnaður verði félagsmálaskóli verkalýðshreyfingarinnar“ o.s.frv. Þessi till. á því vart rétt á sér, nema frv. verði breytt í það horf, að allir þeir aðilar, sem till. gerir ráð fyrir, standi að skólanum. Þá er komið að allt öðru atriði og óskyldu, þ.e. hvort stofna eigi skóla, sem allir þessir aðilar ættu jafnan rétt að. Frv. þetta er hins vegar aðeins um félagsmálaskóla verkalýðshreyfingarinnar, gert samkv. sérstöku samráði og samvinnu við Alþýðusamband Íslands, og því fæ ég ekki séð, að þessi skipan skólanefndar eigi rétt á sér varðandi þann skóla, sem frv. fjallar í raun og veru um. Hitt er svo allt annað mál, hvort slíkur skóli með aðild allra þessara aðila ætti ekki rétt á sér síðar, en það mál er ekki hér til umr., heldur aðeins að því, er lýtur að verkalýðshreyfingunni sjálfri. Því álít ég, að aðrir aðilar eigi ekki inn í þetta að koma, nema þá sá fulltrúi ríkisvaldsins, kostnaðaraðilans, sem lagt er til, að ráðh. skipi samkv. frv. Ég lýsi því hins vegar sem minni skoðun, að að mörgu leyti væri það æskilegt, að þessir aðilar gætu allir komið sér saman um sameiginlegan félagsmálaskóla, en því miður er ég hræddur um, að það sé býsna langt í land, að þeir geti í raun komið sér saman um slíkan skóla, og vilji jafnvel að sumu leyti vera þar nokkuð sér á báti hver aðili.

Að öðru leyti vil ég sem formaður verkalýðsfélags um mörg ár fagna frv. þessu alveg sérstaklega og undirstrika mikla þýðingu þess. Allt of víða eru erfiðleikar á því að fá hæfa menn til félagsstarfa, sem kunna þar raunverulega til verka, og á það ekkert sérstaklega við verkalýðsfélögin, en einmitt þar er nauðsynin rík, því að verksviðið er svo víðtækt, réttindamálin svo mörg og flókin að hreinlega þarf á mikilli og haldgóðri alhliða almennri þekkingu að halda, svo að úr verði leyst á viðunandi hátt.

Verkalýðshreyfingin hefur sannarlega átt og á mörgum frábærum starfskröftum á að skipa, en í nútímaþjóðfélagi kallar ótalmargt á um beina, fræðslu og þekkingarmiðlun til handa þeim, sem trúnaðarstörfum þurfa að gegna í stéttarfélögum. Svo margslungin er öll samningsgerð orðin, svo fjölþætt verkefnin, sem við þarf að fást, svo mörg lög og lagabálkar gripa hér inn í, að á beinni fræðslu, góðri fræðslu er knýjandi þörf.

Hins vegar er svo eftir sá þáttur, sem lýtur að framkvæmd þessa skóla, ef að lögum verður. Þar verður að treysta á þá tvo aðila, sem skólanefndaraðild eiga samkv. frv.: Alþýðusamband Íslands og Menningar- og fræðslusamband alþýðu, sem hefur nú upp á síðkastið unnið mikið og gott fræðslu og leiðbeiningarstarf, svo og ríkisvaldið, að það standi hér vel að einnig. Alveg sérstaklega vil ég leggja á það áherslu, að 3. gr. verði framkvæmd af myndarskap, þar sem segir: „Námskeið, sem haldin eru á vegum skólans, fara fram í húsakynnum hans eða annars staðar í hinum ýmsu landshlutum, allt eftir því, sem þörf krefur og henta þykir. Ef þurfa þykir, getur skólinn einnig haldið uppi námskeiðum að sumrinu, og gilda um þau sömu reglur og aðra starfsemi skólans.“

Þessi félagsmálaskóli þarf að ná sem víðast. Úti á landsbyggðinni er ekki síður verkefni en hér á þéttbýlissvæðinu við Faxaflóa, og því verður að treysta því, að landsbyggðin njóti hér fyllsta réttlætis gagnvart Stór-Reykjavikursvæðinu, svo að gamla mismununin, sem hvarvetna á sér stað, verði ekki ofan á þarna einnig.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fjölyrða meira um þetta mál, en félmn. mælir með samþykkt frv. með þessum tveim breytingum, sem fylgja með nál., en nm. áskilja sér að öðru leyti rétt til að flytja eða fylgja frekari brtt.