27.03.1974
Efri deild: 89. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3139 í B-deild Alþingistíðinda. (2808)

178. mál, Félagsmálaskóli alþýðu

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Ég hreyfði því strax hér við 1. umr. um þetta mál. hvort ekki væri hægt að komast að samkomulagi um það við hæstv. félmrh. og meiri hl. þeirrar n., sem tæki þetta mál til meðferðar, að meðlimum í launþegasamtökunum eins og Farmanna- og fiskimannasambandinu og Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja yrði ætlað að skipa mann í stjórn þessa Félagsmálaskóla alþýðu. Ég hef nú orðið var við, að meiri hl. þessarar n. hefur ekki getað á það fallist, og virðist svo sem sú ríkisstj., sem nú situr og kennir sig við hinar vinnandi stéttir, ætli að fara að draga launþega í dilka eftir því, í hvaða launþegasamtökum þeir eru. Verð ég t.d. að segja það um Farmanna- og fiskimannasamband Íslands og eins um ýmsa menn innan Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, við skulum taka starfsfólk Pósts og síma, sem er mjög lágt launað, og ýmsa aðra menn innan ríkiskerfisins, að það er ekki talið, að þetta fólk eigi að skipta miklu máli í sambandi við Félagsmálaskóla alþýðu. Það er enn fremur talið af þessum aðilum, að þetta fólk þurfi ekki að afla sér þeirrar nauðsynlegu félagslegu fræðslu og þekkingar á ýmsum þáttum þjóðfélagsins við sína samningsgerð, eins og aðrir fulltrúar verkalýðsfélaga eða trúnaðarmenn í öðrum verkalýðsfélögum á hinum almenna vinnumarkaði.

Ég sé ástæðu til þess að beina nokkrum fsp. til frsm. n.

Það er þá í fyrsta lagi, hvort hann telji, að þeir menn, sem koma úr Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, og það fólk, sem kemur úr Farmanna- og fiskimannasambandinu, eigi að hafa rétt til að ganga í þennan skóla eða hvort þessi skóli eigi aðeins að vera fyrir launþega úr öðrum stéttarfélögum? Í 4. gr. er sett það almenna skilyrði fyrir skólavist, að nemendur séu fullra 17 ára og séu félagar í stéttarfélagi. Hins vegar segir í 1. gr. fv.: „Hlutverk skólans er að mennta og þjálfa fólk úr alþýðusamtökum“ o.s.frv. Nú skildist mér á ræðu hv. landsk. þm. Helga Seljans, að hann teldi, að þar sem um þessa skólastofnun hefði sérstaklega verið rætt við Alþýðusamband Íslands, væri ekki eðlilegt að taka inn önnur launþegasambönd á þessu stigi, heldur gæti það komið einhvern tíma síðar, einhvern tíma eftir dúk og disk. Ég get fullvissað þennan hv. þm. um það, að sú ríkisstj., sem nú situr, og sá þingmeirihl., sem nú er, varir ekki til eilífðarnóns, og það er enginn vafi á því, að þegar aðrir menn eru hér í meiri hl. á hinu háa Alþingi, verður ekki gert upp á milli launþega. Þá verður litið svo á, að menn þurfi þessa fræðslu og þessa þekkingu, hvar sem þeir starfa, hvort sem er innan Farmanna- og fiskimannasambandsins, Bandalags starfsmanna ríkis og bæja eða Alþýðusambands Íslands.

Ég mótmæli því einnig sem algerlega óframbærilegri ástæðu, að vegna þess að hæstv. ríkisstj. hafi einungis rætt við Alþýðusamband Íslands um þessa skólastofnun, þá eigi það að vera réttlæting fyrir því, að önnur launþegasamtök fái ekki aðild að skólanum með sama bætti. Ég get ekki séð annað en þá ætti hið háa Alþ. að koma til og það ætti að leiðrétta það, sem hæstv. ríkisstj. hefur misgert við þessi samtök. En það hefur verið reynslan síðan þessi hæstv. ríkisstj. tók við völdum, að hún hefur í einu og öllu gengið á rétt t.d. opinberra starfsmanna, þeirra manna, sem hjá henni vinna, m.a. brotið á þeim lög, eins og frægt var, í árslok 1971 og olli því m.a., að efnt var til aukaþings Bandalags starfsmanna ríkis og bæja strax í jan. 1972, þar sem lagðar voru fram undirskriftir mikils fjöldi opinberra starfsmanna, og mótmælt harðlega því gerræði og samningsrofi, sem ríkisstj. þá framdi á starfsmönnum sínum.

Mig langar jafnframt til þess að spyrja form. n., hvort svo sé litið á skv. 5. gr., að skólan. skuli fastráða skólastjóra og kennara til langs tíma, eða hvort gert sé ráð fyrir því, að ný skólanefnd hafi tækifæri til þess að skipta um skólastjóra og kennara við skólann. Ég tel jafnframt nauðsynlegt að fá það upplýst á þessu stigi málsins, hvort gert sé ráð fyrir því, að þeir starfsmenn, sem við þennan skóla eiga að vinna, eigi að ganga inn sem fastir starfsmenn ríkisins, opinberir starfsmenn, og eigi sem slíkir að eiga sæti í kennarasamtökunum og hafa öll þau sömu réttindi og aðrir opinberir starfsmenn hafa. Ég held, að það sé nauðsynlegt, að þetta komi skýrt fram hér nú, eftir að málið hefur fengið skoðun í n., hvernig á því verði haldið, hver sé hugsun hæstv. ráðh. í því efni. Þá sé ég enn fremur ástæðu til að spyrja frsm. meiri hl. n. að því, hvernig það er hugsað skv. 6. gr. að tengja nám í Félagsmálaskóla alþýðu hinu almenna skólakerfi, þannig að slíkt nám veiti réttindi skv. því.

Það má vera, að hv. þm. geti ekki svarað öllum þessum spurningum, en ef svo er, þá tek ég því, en hins hlýt ég að krefjast eða fara fram á í fullu bróðerni, að hann upplýsi mig um það, hvort búist sé við því, að aðilar í Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, þeir sem eru innan þeirra stéttasamtaka, og þeir, sem eru innan stéttasamtaka Farmanna- og fiskimannasambandsins, fái aðild að þessum skóla.