05.11.1973
Neðri deild: 14. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 361 í B-deild Alþingistíðinda. (281)

Umræður utan dagskrár

Forseti (Gils Guðmundsson) :

Í tilefni þeirra orða, sem hæstv, menntmrh. lét falla hér áðan þess efnis, hvort þess mundu dæmi, að sama málið sé til umr. utan dagskrár í báðum deildum þings, þá er því til að svara, að ég hygg, að það sé að vísu heldur óalgengt, og ég man ekki sérstakt tilvik þess efnis. En ég taldi að athuguðu máli — enda þótt ég vissi, að fsp. um þetta sérstaka mál mundi borin fram utan dagskrár í byrjun fundar í Ed. — rétt að gefa hv. landsk. þm. kost á að hreyfa sama máli hér í d., þar sem hann hafði farið fram á það, og þá ekki síst eftir að hæstv. menntmrh. hafði fengið upplýsingar um, að svo mundi gert, og hann hafði ekkert við það að athuga og gerði ekki aths. þar við.

En í sambandi við þessa umr. og raunar umr. utan dagskrár vil ég til viðbótar aðeins segja það, að á meðan ekki eru í gildi sérstakar reglur um slíkar umr. tel ég algerlega óeðlilegt, að þær fari að því er til lengdar tekur fram úr því, sem gildir um þær umr. um fsp., sem gert er ráð fyrir í þingsköpum. Ég mun framvegis leitast við að fylgja þeirri reglu að því er varðar umr. utan dagskrár, að þær fari ekki fram úr því, sem þar er ákveðið, en vil aðeins hv. þm. til upprifjunar lesa það, sem þar um segir í 32. gr. þingskapa. Þar segir:

„Ráðh. má að jafnaði ekki tala oftar en tvisvar og þm. ekki nema tvisvar. Ráðh. má eigi tala lengur en 10 mínútur í senn og fyrirspyrjandi eða framsögumaður fyrirspyrjanda 5 mínútur í senn, en aðrir þm. eða ráðh. tvær mínútur í senn.“

Mér þykir eðlilegt að fylgja þessum reglum, þegar fram koma fsp. utan dagskrár, meðan ekki ern sérstakar reglur þar um.