27.03.1974
Efri deild: 89. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3146 í B-deild Alþingistíðinda. (2813)

178. mál, Félagsmálaskóli alþýðu

Frsm. (Helgi F. Seljan):

Herra forseti. Aðeins örfá atriði, örstutt.

Það er í fyrsta lagi varðandi það, sem hv. 2. þm. Norðurl. e. talaði um hér áðan varðandi orð mín um breyt. á félagsmálaskólanum. Ég átti vitanlega við, að það yrði komið hér á félagsmálaskóla þessara aðila að undangengnum viðræðum þeirra í milli um samstarf allt varðandi skólann. En ég átti vitanlega ekki við þetta frv. út af fyrir sig, sem hér liggur fyrir. Ég dreg í efa og þyrði ekki að koma með neina fullyrðingu um það, að við gætum á skömmum tíma komist það langt, að við gætum komið á viðræðum milli allra þessara aðila þriggja og fengið sameiginlega afstöðu þeirra, gagnvart þessu frv. núna. En það sem ég átti við, var, að síðar skyldi ég standa að slíkum félagsmálaskóla, færa út starfsemi hans, þegar það lægi ljóst fyrir, að allir þessir aðilar gætu hugsað sér þarna samstarf.

Málið er bara ekki svo einfalt, að það sé spurning um það, hvort þessir tveir aðilar BSRB og Farmanna- og fiskimannasamband Íslands, vilji gerast aðilar að skólanum, og aðilar þeirra samtaka vilji komast sem nemendur þangað inn. Það er auðvitað líka spurning um það, hvað ASÍ segir um þetta. Hvað segir Alþýðusambandið um þessa útvíkkun? Samkvæmt þeim upplýsingum, sem ég hef, mun því hafa verið lofað ákveðnum atriðum varðandi það, að þessi félagsmálaskóli kæmist fram, og allt, sem væri til þess að hindra það, teldi ég slæmt, m.a. ef þyrfti að koma á stað umr., þar sem sitt sýndist hverjum, og endirinn yrði sá, að frv. dagaði uppi af þeim ástæðum. Ég held því, að afstaða Alþýðusambandsins komi hér ekkert síður inn í spurninguna um þetta, þ.e.a.s. hvaða afstöðu það hefur til aðildar þessara aðila, án þess að ég ætli nokkuð að fara að dæma um það, hvort ASÍ sé mótfallið því eða ekki. Hins vegar skulum við ekkert leyna því, að þó að vissu samstarfi hafi verið komið á milli þessara hagsmunasamtaka, BSRB og ASÍ, þá er ekki nein ástæða til að draga fjöður yfir það, að í mörgum greinum hafa leiðir þeirra ekki átt saman og í mörgum greinum hefur þau greint á og samstarf þeirra hefur á margan hátt verið allt öðruvísi en það hefði átt að vera sem tveggja stærstu launþegasamtakanna í landinu. Við skulum ekki draga neina fjöður yfir það, og við skulum þess vegna ekki vera að gera okkur neinar sérstakar gyllivonir um það, að þessir aðilar séu endilega hjartanlega sammála um fyrirkomulag þessara mála og séu reiðubúnir til fullkomins samstarfs þar um. En batnandi manni er best að lifa, og vel getur verið, að þessir aðilar séu nú algerlega á því að standa saman að þessu, og ég mundi fagna því, ef svo væri.

Hv. 5. þm. Vestf. kvartaði undan því, að ég hefði lítinn skilning á þjóðfélagsuppbyggingunni í dag. Það er auðvitað hans mál og hans skilningur. Það er nú einu sinni svo, að við hv. 6. þm. Vestf. deilum, sem betur fer, um þjóðfélagsuppbygginguna í heild, og það, sem hann telur skilningsskort hjá mér og kemur með sinn skilning á, það get ég vitanlega talið skilningsskort hjá honum. En út í umr. um þjóðfélagsuppbygginguna í heild skulum við ekki fara nánar nú. Hins vegar vil ég leiðrétta það aðeins, að ég sagði ekki, að það mætti ekki vera kærleiki á milli vinnuveitenda og verkalýðshreyfingarinnar. Ég sagði aðeins, að þau samtök ættu í slíkum viðskiptum sín í milli, að þar gæti seint allt orðið í kærleika.