27.03.1974
Efri deild: 89. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3147 í B-deild Alþingistíðinda. (2814)

178. mál, Félagsmálaskóli alþýðu

Steinþór Gestsson:

Herra forseti. Ég hafði ekki hugsað mér að blanda mér í umr. um þetta mál. sem er hér til umr. Þær umr., sem um það hafa orðið í þessari hv. d. að þessu sinni, hafa orðið til þess, að ég er kominn hér í ræðustól, og míg langar til þess að segja um frv. örfá orð.

Mér sýnist, að frv. sé þannig uppbyggt, það sé óljóst að orðalagi, og þess vegna hafi þessar umr. orðið á þennan veg um málið. Ég segi, að það sé óljóst að því leyti til, að menn eru hér að tala um það, hver eigi rétt til að fara inn í skólann og hver ekki. Ég verð að segja það, að með því orðalagi, sem á sumum gr. er, á ég erfitt með að átta mig á þessu, en þó er það svo, að í 4. gr. er talað um skilyrði fyrir skólavist, og þau eru, að nemendur séu fullra 17 ára og félagar í stéttarfélagi. Það er í flestum atriðum nokkuð ljóst, hvað er stéttarfélag og hvað er ekki stéttarfélag, sem sagt það eru æðimargir, sem kæmu til með að eiga fullan rétt á að fara í þennan skóla. Ég held, að það færi ekki á milli mála, að ef einhver, sem er félagi í Stéttarsambandi bænda, vildi fara þarna inn, þá ætti hann rétt á því. Um önnur stéttarfélög er náttúrlega alveg sömu sögu að segja, en ég verð að segja það, að mér finnst þetta orðalag óljóst, og ég hygg, að höfundur frv. hafi ætlað að kveða hér miklu knappar að orði.

Í 1. gr. frv. segir, að skólinn heiti Félagsmálaskóli alþýðu. Látum svo vera. En hlutverk skólans er m.a. að efla sjálfstraust nemenda, þroska og hæfni til þess að vinna sameiginlega að bættum lífskjörum og frelsi alþýðustétta. Það er ein spurning, sem mér í því sambandi þætti vænt um að fá svarað. Hvað er alþýðustétt? Hvað er alþýðufólk á Íslandi? Hvernig vilja menn skilgreina þetta? Félagsmálaskóli alþýðu á að veita fræðslu um 3 meginatriði, eftir því sem segir í 2. gr. Hann á að veita fræðslu um sögu, starf og stjórn stéttarfélaga, — ekki aðildarfélaga ASÍ, heldur stéttarfélaga, — baráttu þeirra fyrir bættum lífskjörum alþýðustéttanna, þarna kemur aftur um alþýðustéttina. Hann á í öðru lagi að veita fræðslu um hagsmunasamtök atvinnurekenda, starfshætti þeirra og markmið. En þessi samtök, sem á að veita fræðslu um, eiga ekki að fá aðild að því að byggja upp námsskrá, þar sem þetta verður nánar skilgreint. Þó er það vel hægt, og verður vonandi gert, ef samþ. verður sú brtt., sem hér liggur fyrir, en þá fengju atvinnurekendur aðild að skólanefnd skólans. En það er einmitt sagt í 2. gr., að nánari ákvæði um námsefni skuli sett í reglugerð, sem skólanefnd og skólastjóri setja í samráði við kennara skólans. Mér sýnist því, að það sé einsætt, ef á annað borð á að kenna um hagsmunasamtök atvinnurekenda, starfshætti þeirra og markmið, að þá verði þau að fá að segja sitt orð um það, hvernig það mál er lagt fyrir.

Það er þetta aðallega, sem kom mér til þess að segja hér fáein orð, og ég vil endurtaka það, sem ég sagði í upphafi, að mér finnst, að þetta frv. sé í mörgu falli svo óljóst orðað, að það sé engin furða, þó að um það verði einkennilegar umr., eins og hér hafa orðið. Þegar lítið er til þess, að það skuli geta hrokkið fram úr mönnum á þeim tímum, sem við ilfum á, það sem hv. 2. landsk. þm. sagði hér í frumræðu sinni, að hann teldi, að alþýðustéttirnar ættu í höggi við atvinnurekendur, sem átti sjálfsagt við, þegar menn berðust fyrir lífi sínu, því hygg ég, að þetta sé ekki rétt orðað, þegar verið er að leita samkomulags í launamálum nú.