27.03.1974
Efri deild: 89. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3150 í B-deild Alþingistíðinda. (2820)

276. mál, erfðafjárskattur

Flm. (Auður Auðuns):

Herra forseti. Það frv., sem ég flyt og fylgi hér úr hlaði, er að efni til ofureinfalt. Efni þess er það að undanþiggja erfðahluta maka, eftirlifandi maka, erfðafjárskatti.

Eins og menn muna, voru gerðar allverulegar breytingar á l. um erfðafjárskatt vorið 1972. Um það leyti gekk í gildi nýtt fasteignamat, sem óhjákvæmilega kallaði á breytingar, en þær breytingar, sem þá voru gerðar, gengu býsna langt í því efni að auka skattheimtuna, því að skattheimtan, sem þá var talið að hafi verið í kringum 10 millj. á ári, var talin mundu samkv. frv. vaxa í 36 millj. kr., sem er milli þre- og ferföldunar.

Þetta þótti okkur þm. Sjálfstfl. nokkuð langt gengið í skattheimtunni, og við fluttum þá ýmsar brtt. við frv. Mig minnir, að engin þeirra hafi náð fram að ganga, en ein þeirra brtt. var sú, sem þetta frv. að efni til fjallar um, sem sé að undanþiggja erfðahluta eftirlifandi maka erfðafjárskatti.

Eins og rakið er í grg. með frv., var það svo, að þrír af þm. stjórnarflokkanna, sem greiddu þó atkvæði gegn þessari brtt., létu í ljós jákvæða afstöðu til hennar að efni til, en frv. var þá til meðferðar í síðari þd. og það var skammt í þinglausnir. Ég held ég muni það rétt, að þeir hafi tjáð sig um það, að þeir vildu ekki hætta á breytingar á frv., þannig að það þyrfti að senda það aftur til Nd. og tefla því kannske þannig í tvísýnu, að það fengi afgreiðslu á þinginu. Hins vegar kom fram í ræðum þessara hv. þm. sú skoðun, að það þyrfti fljótlega að koma því í verk að endurskoða lög um erfðafjárskatt, þar sem þetta atriði yrði þá m.a. haft til hliðsjónar og reyndar fleiri, sem bar á góma. Ég skal síðar víkja að því.

Ég vil til þess að rifja það upp, sem ég nú hef vitnað í úr umr., aðeins rekja, hvernig orð féllu hjá þessum hv. þm., en þetta var við 2. og 3. umr. frv., sem fóru fram 17. maí vorið 1972. Ég skal þá fyrst vitna hér í ummæli hæstv. núv. félmrh., sem því miður er ekki staddur á þessum fundi. Hann var frsm. fyrir meiri hl. n., sem hafði málið til meðferðar, sem sé félmn. Það má svona rétt minnast á það líka, að hann lét sér nokkuð tíðrætt um þá, hve mjög stefndi nú orðið í þá átt að taka upp markaða tekjustofna, að vísu yfirleitt alltaf til stuðnings hinum þörfustu málefnum, en hann taldi, og það hefur komið fram hjá fleiri þm. við fleiri tækifæri, að þetta færi að verða varhugaverð braut, að halda stöðugt áfram að auka markaða tekjustofna í löggjöfinni í stað þess að láta slíka skatta renna í einn sameiginlegan sjóð, þar sem væri yfirlit yfir þörfina hjá hinum ýmsu aðilum, sem aðstoða þyrfti, og væri þá heppilegra og skynsamlegra að miðla af slíkum sjóði, eftir því sem þarfirnar væru metnar.

En þetta var að vísu útúrdúr. En ég ætla þá með leyfi hæstv. forseta — að lesa hér orðrétt það, sem hæstv. núv. félmrh. sagði þá um skattfrelsi erfðahluta eftirlifandi maka. Honum fórust þannig orð:

„Ég er t.d. alls ekki viss um, að það sé rétt að taka erfðafjárskatt í öllum tilvikum. Ég nefni t.d., að það ber að skoða t.d., þegar annað hvort hjóna deyr, hvort beri að taka nokkurn skatt í slíku tilfelli, og eins þegar um lágar upphæðir að ræða, lágar erfðafjárupphæðir, sem ganga til barna, sem ekki eru komin til manns. Og það fé, sem um er að ræða, er kannske tæplega nægilegt til þeirra hluta. Þetta og ýmislegt fleira tel ég að beri að skoða rækilega við framhaldandi athugun málsins.“

Síðan sagði hæstv. núv. félmrh., að að svo stöddu teldi hann ekki annað mögulegt en að samþykkja frv. án breytinga og eins og honum þá fórust orð: „og þá í trausti þess, að ýmis vafa- og álitamál í sambandi við þennan skatt og þá löggjöf, sem um hann ræðir, verði athuguð síðar og þá helst á næsta Alþ.“

Þá vil ég leyfa mér að rekja ummæli hv. 1. þm. Vestf., Steingríms Hermannssonar, við þessa umr. og þykir miður, að hann skuli ekki vera hér staddur á þingfundi. En honum fórust svo orð, með leyfi hæstv. forseta:

„Hins vegar sýnist mér það vera mjög mikill galli á gildandi l. og þessu frv., sem hér liggur fyrir, eins og kom fram hjá frsm. að krefja maka um erfðafjárskatt, þegar búi er skipt. Ég tel það ósanngjarnt. Og sömuleiðis sýnist mér eðlilegt að athuga, hvort taka eigi erfðafjárskatt af lágmarksupphæð, sem hverfi til barna, eins og fram kom hjá frsm. Ég greiði atkv. með áliti meiri hl., en ég legg áherslu á líka, að þetta verði tekið til endurskoðunar þegar á næsta þingi, og mun gera mitt til þess, að svo verði.“

Þann sama dag fór einnig fram 3. umr. frv., og ég leyfi mér að vísa til þeirra orða, sem hæstv. utanrrh., sem er nú farinn hér úr þingsalnum, lét falla við það tækifæri, en hann sagði svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Ég ætla þess vegna aðeins að láta nægja að vísa til þess, sem hv. 1. þm. Vestf. sagði um þetta mál, að ég tel. að hér þurfi að endurskoða ákvæði þessa frv., þótt að lögum verði, og mun eins og hann reyna að stuðla að því, að svo verði gert.“

Síðan eru liðin nær tvö ár. Á þingi í fyrra lá ekki fyrir neitt frv. til nýrra laga um erfðafjárskatt eða breyt. á gildandi l., og ekki bólar á því enn og maður hefur ekkert heyrt um, að von sé á slíku frv. Það virðist því vera tímabært að fá fram þá leiðréttingu, sem ég ætla að muni hafa verulegan hljómgrunn og væntanlega meiri hl. eða e.t.v. eiga að fagna fylgi allra hv. þm. hér í þessari þd., og því hef ég flutt þetta frv.

Ég hef takmarkað mig við það eitt að láta frv. ná til erfðahluta eftirlifandi maka. Ég vil hins vegar segja um það, sem ég nú rakti og kom fram í umr. fyrir tveimur árum um réttmæti þess að undanþiggja erfðahluta barna, t.d. ófullveðja barna, erfðafjárskatti að öllu eða einhverju leyti, að ég er þeirri hugmynd fyllilega samþykk, og það getur sjálfsagt komið til athugunar í n., hvort rétt sé að bæta því inn í frv. En ég fyrir mitt leyti vildi hafa það sem einfaldast, og þarna er um að ræða breyt. á l. um erfðafjárskatt, sem áður hefur verið hér til umr. og meðferðar og eins og ég lýsti hlotið jákvæðar undirtektir.

Því verður e.t.v. borið við sem mótbáru, að þetta muni þýða nokkurn missi fyrir erfðafjársjóð. Til hans rennur nú orðið allur erfðafjárskatturinn. Ég held, að þetta geti aldrei orðið verulegur tekjumissir fyrir sjóðinn, því að þegar skipt er dánarbúum við andlát annars hjóna, eru það í langsamlega flestum tilfellum börn, niðjar, sem taka arf, og í barnlausum hjónaböndum þekkjum við, að það er ákaflega oft, að þá eru kjörbörn, sem samkv. l. eru skylduerfingjar hjónanna. Það verður þess vegna ekki nema í tiltölulega fáum tilfellum, sem eftirlifandi maki tekur meiri arf en 1/2 eftir þann látna, og þetta takmarkar að sjálfsögðu mjög mikið þá rýrnun, sem yrði á tekjum erfðafjársjóðs af þessum sökum.

Nú er það svo, að í okkar löggjöf hefur erfðahluti makans ekki verið undanþeginn erfðafjárskatti, en það var svo um langt skeið, áður en breytingin var gerð 1972, að erfðafjárskattur var það lágur og það lítt tilfinnanlegur, að það olli því ekki, að uppi væru raddir um að leiðrétta skattheimtuna að því leyti, sem þetta frv. fjallar um. Nú er orðin á þessu veruleg breyting, og ég býst við, að það verði kannske flestum ofarlega í huga í þessu sambandi, hvernig aðstæður geta orðið hjá konu, ekkju, sem hefur misst mann sinn, e.t.v. frá barnahópi. Það er í ákaflega mörgum tilfellum svo, eins og við öll þekkjum, að fólk hefur eignast íbúðarhúsnæði. Það er algengara í okkar þjóðfélagi en annars staðar, sem vitað er um, að fólk búi í eigin húsnæði, og það verður sjálfsagt svo um langt skeið, a.m.k. á meðan við ekki kyngjum þeirri hugmynd, að sem flestir eigi að verða leiguliðar hins opinbera. Og það er oft hið fyrsta, sem hugurinn snýst um, eftir að fólk stofnar heimili, að eignast húsnæði. Nú er það svo, að fasteignamatið hefur færst mjög til samræmis við gangverð á húsnæði, íbúðarhúsnæði, og erfðafjárskatturinn er ákaflega fljótur satt að segja að komast í tugi þúsunda, jafnvel af hóflegri íbúð. Ef við tökum aftur dæmið um ekkjuna, sem er e.t.v. bundin af umönnun ungra barna, og þó að hún leiti út á vinnumarkað, hefur hún allajafna rýrari tekjumöguleika en karlmaðurinn, þá getur það orðið henni lítt viðráðanlegt að greiða fleiri tugi þúsunda í erfðafjárskatt. Ég held við getum öll verið sammála um það, sem ég nú hef sagt, og ég treysti því, að þetta litla frv. mitt geti fengið hér jákvæðar undirtektir.

Ég skal svo, hv. forseti, ekki hafa fleiri orð um málið að svo stöddu, nema þá ástæða gefist til, við þessa umr., og legg til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og félmn.