27.03.1974
Efri deild: 89. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3153 í B-deild Alþingistíðinda. (2822)

280. mál, kvikmyndasjóður

(Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Oft hefur verið sagt og um leið stutt mörgum augljósum rökum, að kvikmyndin sé listgrein 20. aldarinnar. Víst er um það, að engin grein lista á 20. öld er útbreiddari og á sér jafnmarga aðdáendur. Og í engri annarri gerð listaverka sameinast svo margir þættir listrænnar tjáningar. Þar við bætist svo hinir einstöku eiginleikar, sem kvikmyndin hefur til að tjá einmitt þá vélvæddu tíma, sem við nú lifum á.

Kvikmyndalistin á sér ekki síður aðdáendur hér á landi en annars staðar. En hitt er sérkennandi fyrir Ísland í samanburði við nálæg lönd, að kvikmyndamenning er hér á mjög lágu stigi. Bæði er, að hér er engin löggjöf til um kvikmyndir og opinberan stuðning við íslenska kvikmyndagerð. Þess vegna hefur listsköpun á sviði kvikmyndagerðar raunverulega aldrei haft neina möguleika til að ná sér á strik. Jafnframt hafa aldrei verið settar hér lagareglur eins og í flestum nálægum löndum um réttindi og skyldur kvikmyndahúsa, sem veitt gætu kvikmyndahúsunum nokkurt aðhald og stuðlað að því, að þau væru ekki einungis rekin sem afþreyingarhús, heldur einnig sem menningarstofnanir.

Í stuttu máli sagt er það augljóst, að hér á landi er kvikmyndagerðarlistin vanræktari og á hér erfiðara uppdráttar en nokkur listgrein. Við erum vanastir því Íslendingar, þegar bent er á alvarlegar gloppur og göt í þjóðlífi okkar og menningu, að skírskota til fámennis þjóðarinnar, enda augljóst, að við höfum ekki bolmagn til átaka, sem 50 sinnum fjölmennari þjóðum veitast létt. Við gerð kvikmynda er það hinn gífurlegi stofnkostnaður, sem yfirleitt stendur í veginum. Stofnkostnaðurinn fæst að vísu endurgreiddur með aðgangseyri þúsunda áhorfenda á nokkrum tíma. En framleiðendur kvikmynda hér á landi hafa í engan sjóð að leita um lánsfé til að brúa tímaskeiðið milli útgjalda og innkominna tekna. Kostnaður við gerð 20 mínútna heimildarkvikmyndar af einföldustu gerð er talinn nema 1–2 millj. kr., og alger lágmarkskostnaður við gerð 100 mínútna leikmyndar er talinn munu nema um 7 millj. kr. Þetta eru háar fjárhæðir að útvega fyrir fjárvana einstaklinga, þótt ekki sé nema í skamman tíma, þar til kvikmynd fer að skila tekjum. Flestir gefast því upp fyrir fram og hverfa til annarra starfa.

Hér er hins vegar ekki um þvílíkar fjárhæðir að ræða, þótt þær séu ofviða einstaklingum, að þjóðarheildin geti afsakað sig með smæð sinni eða fjárskorti. Hér er um einfalt vandamál að ræða, ef við höfum einhvern vilja til að leysa það og gefum okkur tíma til þess.

Árum saman hefur verið rætt um, að sett yrði löggjöf til stuðnings íslenskri kvikmyndagerð og stofnaður sjóður, sem yrði fær um að lána nokkurt fé til framleiðenda íslenskra kvikmynda. En þessi áform hafa aðeins verið í orði kveðnu, hafa ekki einu sinni verið flutt í tillöguformi hér á Alþ., hvað þá meir. Tilgangurinn með flutningi þessa frv., sem hér liggur fyrir á þskj. 566, er einmitt að bæta nú loksins úr brýnni þörf á þessu sviði íslenskrar menningar með því að knýja nú á um setningu laga um sérstakan kvikmyndasjóð.

Okkur flm. er fullljóst, að frv. það, sem hér liggur fyrir, er aðeins einn þátturinn af mörgum í hugsanlegri heildarlöggjöf, sem setja þarf um kvikmyndamálefni. En hér er vonandi verið að stiga fyrsta skrefið í þessa átt. Áður en ég vík að efni frv., vil ég láta þess getið, að við undirbúning málsins fékk ég í bendur upplýsingar, sem menntmrn. hafði safnað með milligöngu sendiráða Íslands í Vestur-Evrópu um opinbera fyrirgreiðslu við innlenda kvikmyndagerð í Evrópulöndum. Upplýsingar þessar eða úrtak úr þessum upplýsingum er prentað í grg. Ég sé ekki ásfæðu til að rekja það hér, en þar er greint frá stuðningi við kvikmyndagerð í Danmörku, Noregi, Svíþjóð og Finnlandi. En í öllum þessum löndum er um að ræða kvikmyndasjóði eða opinbera fjárhagsfyrirgreiðslu, og við kvikmyndagerð a.m.k. í Finnlandi, Danmörku og Noregi er fjár aflað með skattgjaldi á selda aðgöngumiða.

Það er aðalefni þessa frv., að með breytingu á tvennum lögum, þ.e.a.s. lögum um menningarsjóð og menntamálaráð annars vegar og l. um skemmtanaskatt hins vegar, verði stofnaður kvikmyndasjóður með 10 millj. kr. stofnframlagi úr ríkissjóði, en að öðru leyti fái sjóðurinn tekjur með 10% gjaldi, sem verði innheimt með aðgangseyri að kvikmyndahúsum. Sjóðurinn verði undir yfirstjórn menntamálaráðs og í umsjón og vörslu skrifstofu menningarsjóðs.

Hlutverk kvikmyndasjóðs er samkv. 5. gr. frv. að styrkja og efla íslenska kvikmyndagerð með beinum fjárstyrkjum, lánum, ábyrgðum og verðlaunum, að koma á fót kvikmyndasögusafni, sem heimilt er að sýna kvikmyndir sínar á sýningum, sem undanþegnar eru öllum opinberum gjöldum, og stuðla á annan hátt að bættri kvikmyndamenningu, m.a. með því að verðlauna kvikmyndahús, sem fram úr skara við val á góðum kvikmyndum og barnamyndum til sýninga.

Í 6. gr. eru ákvæði um tekjur sjóðsins, en eins og áður segir, er reiknað með, að stofnframlag úr ríkissjóði verði 10 millj. kr. Í öðru lagi gæti hugsanlega verið um að ræða framlag úr ríkissjóði á fjárlögum hverju sinni, en aðaltekjustofn sjóðsins verði þó, eins og áður var sagt, 10% gjald á brúttóverð aðgöngumiða að kvikmyndahúsum.

Í þessu sambandi er rétt að geta þess, að skemmtanaskattur af kvikmyndasýningum er nú alls 16.5%, og þessi skattur rennur að langmestu leyti í félagsheimilasjóð, að nokkru í menningarsjóð og að litlu leyti til Sinfóníuhljómsveitar Íslands, en nánari upplýsingar um þetta efni er að finna í grg. Með þeirri breytingu, sem felst í frv., er gert ráð fyrir því, að kvikmyndahúsagestir greiði 3.5% hærra gjald en áður var, þannig að skemmtanaskatturinn í heild af kvikmyndasýningum fari upp í 20%. Jafnframt er gert ráð fyrir því, að Sinfóníuhljómsveitin, félagsheimilasjóður og menningarsjóður verði fyrir nokkrum tekjumissi af þessum tekjustofni, en að þessir aðilar fái tekjumissi sinn bættan með hækkun á svonefndu rúllugjaldi, sem greitt hefur verið fyrir aðgang að vínveitingahúsum, þ.e.a.s. að það verði hækkað úr 10 krónum í 30. Vísa ég nánar í grg. frv. til skýringar á þessu efni.

Við undirbúning málsins varð ég var við, að ýmsir hikuðu við að hækka aðgöngumiðaverð að kvikmyndahúsum meira en orðið væri og bentu á, að skattlagning á aðgöngumiða væri nú þegar orðin í hæsta lagi. En hún er til viðbótar 16.5% skemmtanaskatti 17% söluskattur og þar að auki skattur á verð aðgöngumiða samkv. I. nr. 78 4, febr. 1972, um gjald af kvikmyndasýningum. Mér er hins vegar tjáð, að þessi skattur sé óvíða á landinu innheimtur, og fullyrt hefur verið við míg, að bann væri einungis innheimtur í Reykjavík og sé í Reykjavík 5%, en samkv. heimild í 1. má hann vera 10%. Ég vil láta það koma hér fram, að fljótt á litið virðist þessi skattlagning ekki eiga ýkja mikinn rétt á sér, og ef mönnum sýnist svo, að rétt sé að koma í veg fyrir hækkun á aðgöngumiðaverði að kvikmyndahúsum, virðist liggja nokkuð beint við, að þessi skattlagning verði afnumin eða lækkuð verulega, eins og getur um í grg., má skoða það mál frekar í nefnd.

Ég vil, áður en ég hverf frá fjármálahlið þessa máls, láta þess getið og leggja á það áherslu, að í sambandi við fjárveitingar af hálfu opinberra aðila til lista- og menningarmálefna verður að sjálfsögðu að gæta þess, að um eðlilegt og hæfilegt hlutfall sé að ræða milli hinna ýmsu listgreina. Helstu fjárveitingar til menningarmála í dag eru í fyrsta lagi til Þjóðleikhússins, sem fær 78 millj. kr. á yfirstandandi ári úr ríkissjóði til að halda uppi rekstri sínum, en neytendur greiða 34 millj. kr. með aðgöngumiðaverði, samkvæmt áætlun um starf leikhússins á árinu. Önnur hliðstæð upphæð er til lista almennt 79 millj. kr., og þar af renna til leiklistarmálefna 5.2 millj. og til Leikfélags Reykjavíkur 5.5 millj. Þriðja stóra upphæðin er til Sinfóníuhljómsveitarinnar, sem fær 47 millj. kr. af almannafé, en neytendur greiða í því tilviki 5.5 millj. með aðgöngumiðaverði. Fjórða stóra upphæðin er til listasafna 11 millj. kr.

Ég er síður en svo að gera því skóna með þessari upptalningu, sem ég hef hér gert, að þær listgreinar, sem hér hafa verið nefndar, og þær stofnanir, sem ég tiltók fái of mikið í sinn hlut. Ég vil síður en svo halda því fram, að þar eigi neitt að draga úr. En með hliðsjón af þessum háu tölum hlýtur að vera enn átakanlegri sú staðreynd, að ein listgreinin hefur gleymst og er ekki með á blaði. Það er að vísu hægt að benda á, að til kvikmyndagerðar rennur á þessu ári 1 millj. kr., sem mun vera styrkveiting frá menntamálaráði og er það hæsta, sem verið hefur, en það er líka allt og sumt.

Í 2. og 7. gr. frv. er fjallað um stjórn kvikmyndasjóðsins, en eins og áður segir fer menntamálaráð með yfirstjórn sjóðsins og gerir áætlanir um tekjur og gjöld hans. Hins vegar er gert ráð fyrir því, að sérstök stofnun annist úthlutun lána og styrkja eða veitingu ábyrgða og verðlauna úr sjóðnum, og veiting fari þá fram á fundum ráðsins að til kvöddum fulltrúum frá fjórum samtökum, þ.e.a.s. samtökum kvikmyndahúsaeigenda, samtökum kvikmyndagerðarmanna, Bandalagi íslenskra listamanna og samtökum kvikmyndaklúbba, þ.e.a.s. að þessir 9 fulltrúar, 5 fulltrúar menntamálaráðs og 4 fulltrúar til kvaddir af þessum aðilum, taki ákvörðun um úthlutun lána og styrkja.

Eins og ég gat um áðan, eru í frv. ákvæði um stofnun sérstaks kvikmyndasögusafns. Ég þarf ekki að færa mörg rök að því, að mikil nauðsyn er á því, að þess háttar stofnun sé komið upp, sem safni kvikmyndum, er hafa kvikmyndasögulegt gildi eða sérstakt gildi fyrir sögu Íslands. Einmitt á þessu sviði, sem nú seinast var nefnt, þ.e.a.s. varðandi sögu Íslands, eru geysimörg viðfangsefni, sem enn hefur ekki verið sinnt. Það þarf að gera heimildarkvikmyndir um íslenskt þjóðlíf. Þar er margt, sem þarf að festa á filmu, en er að hverfa og verður um seinan að varðveita að nokkrum árum liðnum. Að vísu er sjónvarpið aðili, sem mikið gagn getur gert á þessu sviði. En eins og flestum mun ljóst, er aldrei tími eða aðstaða í þeirri stofnun til þess að vanda eins vel og þyrfti efni af þessu tagi. Ég held því, að með styrkveitingum úr kvikmyndasjóði og með kvikmyndasögusafni mætti rækja þetta verkefni með allt öðrum og miklu betri hætti en gert hefur verið fram að þessu. Ég gæti ímyndað mér, að fram kæmu raddir um, að eðlilegast væri, að fræðslumyndasafnið yfirtæki þessa starfsemi, gerði þetta að einum þætti í sinni starfsemi. En ég held, að í öllu falli sé hyggilegra að halda þessu aðgreindu. Starf fræðslumyndasafns er að sjálfsögðu gjörólíkt starfi safns af þessu tagi, því að fræðslumyndasafn starfar meira eins og skólabókasafn, en kvikmyndasögusafn hefur aftur á móti hliðstæðu hlutverki að gegna og þjóðskjalasafn eða bókmenntadeild Landsbókasafns. Þess vegna er óhjákvæmilegt, að stjórn kvikmyndasögusafns sé skipuð sérmenntuðum mönnum um kvikmyndalist. En hvort um yrði að ræða einhverja samvinnu þessara tveggja safna í reynd, t.d. að þau væru geymd á sama stað og hefðu sameiginlega afgreiðslu, er að sjálfsögðu mál, sem rétt væri að athuga nánar.

Ég held, að ég þurfi ekki að fara öllu frekari orðum um það frv., sem hér liggur fyrir. Það er ekki aðeins, að með stofnun þessa sjóðs sé skapaður grundvöllur til. að gerðar verði heimildarkvikmyndir um íslenskt þjóðlíf, heldur yrði þarna um leið skapaður grundvöllur að framleiðslu leikinna kvikmynda. Það er eins um þá hlið málsins og þá, sem ég nefndi fyrr, að sjónvarpið hefur nokkuð gegnt þessu hlutverki og tekið upp ýmsa ágæta leikna þætti, en að sjálfsögðu er meginmunur á sjónvarpsþáttum annars vegar og hins vegar vönduðum kvikmyndum. Starfsaðstaða sjónvarpsins og sá hraði, sem þar verður að tíðkast, er auðvitað þess eðlis, að þar getur sjaldnast orðið um að ræða mjög vandaða kvikmyndagerð. Þess vegna er óhjákvæmilegt, að sjálfstæð kvikmyndagerð fái tækifæri til þess að dafna í landinu. Þess vegna er þetta frv. flutt.

Ég vil svo að lokum aðeins geta þess, að málefni hugsanlegs kvikmyndasjóðs hafa margoft komið til umræðu hér á Alþ., og m.a. komu þessi mál mjög til umr. við afgreiðslu laga um skemmtanaskatt á þinginu 1969–1970. Bæði í Ed. og Nd. voru þá hafðar uppi yfirlýsingar af hálfu einstakra þm., í Nd, af hálfu menntmn. um, að taka yrði málefni íslenskrar kvikmyndagerðar föstum tökum og setja lög til stuðnings íslenskri kvikmyndagerð. En einhvern veginn hefur það nú orðið svo, að ekkert hefur verið gert. Við flm. frv. teljum því ekki seinna vænna, að Alþ. taki nú loks af skarið um stuðning við þessa vanræktu listgrein.