05.11.1973
Neðri deild: 14. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 362 í B-deild Alþingistíðinda. (283)

Umræður utan dagskrár

Bjarni Garðason:

Herra forseti. Ég vil endurtaka það, sem ég sagði í fyrri ræðu minni, að það er fullkomlega eðlilegt af hálfu læknadeildar að takmarka fjölda nemenda, ef hún þykist sjá fyrir, að ekki sé hægt að veita nemendum þau gæði í kennslu og þá tilsögn, sem nauðsynleg er til þess að halda uppi réttum „standard“ læknakennslu. Þetta er skylda kennara. Það, sem hér vantar, er hin pólitíska ákvörðun. Og það á með hinni pólitísku ákvörðun að veita kennurum aðbúnað og fjármagn, til þess að ekki þurfi að koma til takmörkunar. Þess vegna er ábyrgðin ekki hjá læknadeild, heldur fyrst og fremst hinu pólitíska valdi. Og ég vil taka þetta fram, til þess að menn átti sig á, hvað um er að ræða.

En hvað um það, ég þakka hæstv. menntmrh. fyrir svörin. Ég skildi svar hans þannig, að hann mundi sjá til þess, að ekki kæmi til neinnar takmörkunar, tölulegrar takmörkunar á þessu hausti, og þá er náttúrlega megintilganginum náð. Svo vil ég aðeins segja að lokum, að ég vænti þess, að það verði staðið að einhvers konar heildaráætlun, bæði af hæstv. heilbrrh. og menntmrh., um framtíðarbúnað og kennsluhætti í læknadeild, þannig að hún fái að þróast eðlilega og eins og þjóðfélagið þarf á að halda.