27.03.1974
Neðri deild: 90. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3161 í B-deild Alþingistíðinda. (2832)

278. mál, verðjöfnunargjald af raforku

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Ég tel rétt að byrja á að benda á, að þetta frv. er enn eitt dæmið um, hversu komið er raforkumálum þjóðarinnar undir stjórn núv. ríkisstj. Þar stendur bókstaflega ekki steinn yfir steini, og hefur með hverjum mánuðinum, sem liðið hefur, komið betur í ljós, að þar vantar algerlega heildarstefnu, og þróunin er statt og stöðugt í öfuga átt.

Ég tel, að það sé mjög varhugavert að halda, að það verði til lengdar hægt að leysa hin augljósu vandamál Rafmagnsveitna ríkisins ein út af fyrir sig, heldur verði óhjákvæmilegt að taka þau til athugunar sem hluta af rafmagnsmálunum í heild, og má vel vera, að þannig sé háttað verkefni Rafmagnsveitnanna, að þær eigi erfitt og erfiðara en aðrir hlutar í raforkukerfinu. Það er hverjum manni ljóst. En leiðin til að bæta úr þeim vandkvæðum hlýtur að vera einhver önnum en sú að setja nýjan söluskatt á selda raforku.

Ég vil alveg sérstaklega benda á það, sem raunar kom fram hjá hv. 1. þm. Sunnl., að þessi nýi raforkuskattur mun leggjast með langmestum þunga á þau byggðarlög, sem eiga erfiðast í raforkumálum og búa við hæst raforkuverð. Ég get skýrt frá því, að rétt eftir að skýrt var frá þessu frv.í útvarpsfréttum, fékk ég fyrstu hringingarnar úr kjördæmi mínu, þar sem á stóru svæði er mjög hátt raforkuverð, og menn spurðu: Hvert stefna þessir menn? Hví er verið að tala um byggðastefnu, hví er verið að tala um jafnvægi í byggð landsins, þegar flutt er frv. um að leggja prósentuskatt ofan á rafmagn, sem leggst með margföldum þunga á þau byggðarlög, sem eiga erfiðast? Þetta er eins og svipa á lofti til að reka fólkið til Reykjavíkur og þéttbýlisins, sagði einn af þeim, sem gerðu þetta að umtalsefni. Ég tel algjörlega útilokað að ganga inn á þetta kerfi til að leysa vandamál Rafmagnsveitnanna og það verði að finna einhverja aðra leið.

Það hefur einnig verið bent á, að þessi leið til verðjöfnunargjalds leggst með þriðjungi meiri þunga á rafmagn til hitunar. Er það allt að því broslegt, að sá maður, sem hefur talað meira um rafmagn til húsahitunar á Íslandi en nokkur annar á þessu þingi, — talaði að vísu mest um það, áður en hann fékk ábyrgð á rafmagnsmálunum, — skuli nú ætla að verða til þess að hefja á loft þennan refsivönd á það fólk, sem hefur treyst sér til þess að nota raforku til að hita húsin. Þetta tel ég, að sé stefna í ranga átt og alveg þvert á það, sem hæstv. ráðh. hefur reynt að telja þingheimi og þjóðinni trú um, að væri hans sannfæring og stefna til þessa.

Ýmislegt fleira mætti telja til. Það kann að vera, að einhverjar skýringar séu á því, hvaða iðnfyrirtæki eru undanskilin og hver ekki. Ég geri ráð fyrir því, að hæstv. iðnrh. leggi sig allan fram um að verja sig gegn árásum hæstv. raforkumráðh., þegar verið er að tala um 10% hækkun á raforku, á sama tíma sem það er upplýst, að ríkisvaldið hefur orðið að grípa til þess að greiða styrki til vissra greina útflutningsiðnaðarins. Hvers vegna Áburðarverksmiðjan er undanþegin, en t.d. Sementsverksmiðjan ekki sé ég ekki fljótt á litið, þó að það kunni að vera að einhverjir samningar bindi það mál. En eitt slíkt dæmi nægir til þess að gefa mönnum hugmynd um, hvernig skattur eins og þessi kemur fram í þjóðfélaginu. Það er ekki aðeins verið að skattleggja þá, sem kaupa raforkuna, heldur er einnig verið að skattleggja hina sem kaupa vörur og þjónustu af þessum aðilum, þegar um er að ræða fyrirtæki eða einstaklinga, sem nota raforku við vinnu sína.

Ég skal ekki hafa mörg orð um 12, gr., sem gerir ráð fyrir að taka úr ríkissjóði 277 millj. kr. og gefa eftir. Það má e.t.v. helst til sanns vegar færa, að slík eftirgjöf, veitt úr ríkissjóði, feli í sér, að byrðum Rafmagnsveitnanna sé velt yfir á þjóðina sem heild. En engu að síður er þetta grein, sem gaman væri að heyra, hvað hæstv. fjmrh. hefur að segja um, því það virðist vera svo, að félagar hans, Alþb: ráðh., stundi þá iðju viku eftir viku, að flytja hér á Alþingi og á öðrum vettvangi hugmyndir, till., frv., sem gera ráð fyrir stórfelldum útgjöldum og nýjum álögum, rétt eins og þeir beri ekki nokkra ábyrgð á fjárhag ríkissjóðs. En það er best, að stjórnin beri þær áhyggjur sjálf og reyni að sjá til þess, að eitthvert samræmi sé í þessum hlutum. Þegar tekin er afstaða til eins frv. ríkisstj., veit maður raunar ekkert, hvað sú afstaða kann að leiða af sér. Það getur verið að það komi á morgun eða hinn daginn enn eitt nýtt skattlagningarfrv. í beinu eða óbeinu formi, sem gjörbreytir öllu því sem áður hefur verið gert.

Ég vil að lokum segja, að rafmagnsmálin eru komin í slíkar ógöngur, að það verður að reyna að taka þau og þar með Rafmagnsveitur ríkisins og leysa sem eina heild til frambúðar. En sú aðferð, sem lögð er til með þessu frv., er einmitt þeirrar náttúru, sem maður skyldi ætla, að ráðh., sem kenna sig við alþýðu eða alþýðubandalag, yrðu sístir manna og seinastir til að flytja.